Rauði bletturinn á Júpíter skreppur saman

Myndir Hubble geimsjónaukans sýna að bletturinn hefur aldrei mælst minni

Sævar Helgi Bragason 15. maí 2014 Fréttir

Nýjar og glæsilegar myndir Hubblessjónaukans sýna að Stóri rauði bletturinn hefur skroppið saman og mælist nú minni en nokkru sinni fyrr

  • Júpíter á ljósmynd sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA hinn 21. apríl 2014

Eitt helsta sérkenni Júpíters, Stóri rauði bletturinn — stormur sem er stærri en Jörðin — hefur skroppið umtalsvert saman á undanförnum áratugum. Nýjar og glæsilegar myndir Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýna að bletturinn er minni en nokkru sinni fyrr. Lögun hans hefur breyst samhliða því úr spoöskju í hring.

Stóri rauði blettur Júpíters er öflugur háþrýstistormur skammt sunnan miðbaugs á Júpíter, stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Á myndum er hann áberandi eins og dumbrautt auga innan um iðandi pastelgul, -appelsínugul og -hvít ský. Vindar í storminum blása á meira en hundrað metra hraða á sekúndu.

Athuganir sem gerðar voru á 19. öld sýndu að þessi mikli blettur, sem hugsanlega hefur þekkst síðan á 17. öld, var þá mest um 41 000 km á breidd — nógu stór til að rúma þrjár jarðir. Þegar Voyager geimför NASA flugu framhjá Júpíter árin 1979 og 1980 sýndu myndir að bletturinn hafði skroppið saman og mældist þá 23 000 km í þvermál. Nýjar myndir Hubble geimsjónaukans, sem teknar voru þann 21. apríl 2014, sýna að bletturinn er nú minni en nokkru sinni fyrr.

„Nýjar myndir Hubble geimsjónaukans staðfesta að bletturinn er nú rétt undir 16 500 km í þvermál. Hann hefur aldrei mælst smærri,“ sagði Amy Simon við NASA Goddard Space Flight Center í Maryland í Bandaríkjunum.

Athuganir stjörnuáhugafólks víða um heim árið 2012 sýndu að bletturinn færi ört minnkandi. Árlega skrapp bletturinn saman um tæplega 1000 km. Ekki er vitað hvers vegna.

„Af nýju mælingum okkar að dæma virðist sem litlir svelgir séu að brjóta sér leið inn í storminn,“ sagði Simon. „Við teljum að þeir gætu átt sök á minnkuninni með því koma róti á innri hreyfingu Stóra rauða blettsins.“

Rannsóknarteymi Simon hyggst gera frekari mælingar á hreyfingu svelgjanna og innri hreyfingu rauða blettsins. Þannig verður hugsanlega hægt að sjá hvort og þá hvaða áhrif svelgirnir hafa á rauða blettinn.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • Júpíter, rauði bletturinnJúpíter á ljósmynd sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA hinn 21. apríl 2014. Mynd: NASA, ESA og A. Simon (Goddard Space Flight Center), G. Orton (Jet Propulsion Laboratory), J. Rogers (University of Cambridge í Bretland) og M. Wong og I. de Pater (University of California, Berkeley)
  • Júpíter, rauði bletturinnSamanburður á myndum sem teknar voru af Júpíter með Hubble geimsjónaukanum árið 1995, 2009 og 2014. Árið 1995 var Stóri rauði bletturinn rétt innan við 21 000 km í þvermál, rétt undir 18 000 km árið 2009 en mælist nú árið 2014 um það bil 16 000 km í þvermál. Mynd: NASA, ESA og A. Simon (Goddard Space Flight Center), G. Orton (Jet Propulsion Laboratory), J. Rogers (University of Cambridge í Bretland) og M. Wong og I. de Pater (University of California, Berkeley). Þakkir: H. Hammel (SSI og AURA) og R. Beebe (NMSU)