Myndir af halastjörnunni Siding Spring þjóta framhjá Mars

Sævar Helgi Bragason 23. okt. 2014 Fréttir

Myndir hafa borist frá Hubble geimsjónaukanum, Mars Reconnaissance Orbiter, MAVEN og Opportunity af halastjörnunni Siding Spring þjóta hársbreidd framhjá Mars sunnudagskvöldið 19. október síðastliðinn

  • Halastjarnan Siding Spring og Mars á mynd Hubble geimsjónaukans

Sunnudagskvöldið 19. október síðastliðinn þaut halastjarnan C/2013 A1 Siding Spring hársbreidd framhjá Mars. Fjarlægðin varð minnst 139.500 km frá miðju Mars, eða sem nemur einum þriðja af fjarlægðinni milli Jarðar og tunglsins. Þessi mikla nálægð gerði vísindamönnum í fyrsta sinn kleift að beina myndavélum og mælitækjum geimsjónauka og gervitungla að frumstæðri halastjörnu úr Oortsskýinu. Halastjarnan reyndist öllu smærri en búist var við.

Hér undir sést samsett mynd sem Hubble geimsjónaukinn tók af halastjörnunni Siding Spring og Mars 18. og 19. október síðastliðinn. Kjarni halastjörnunnar, sem er úr ís og ryki, er of lítill til að sjást á myndinni en ís- og rykhjúpurinn sem umvefur hann (hjúpurinn myndast við uppgufun íss af kjarnanum) er áberandi, sem og stuttur rykhali. Þótt halastjarnan sé innan við 1 km að stærð er hjúpur hennar mörg þúsund kílómetrar í þvermál, mun stærri en Mars.

Halastjarnan Siding Spring og Mars á mynd Hubble geimsjónaukans
Halastjarnan Siding Spring og Mars á samsettri mynd frá Hubble geimsjónaukanum. Mynd: NASA, ESA, J.-Y. Li (PSI), C.M. Lisse (JHU/APL) og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Þegar myndirnar voru teknar var Mars í rúmlega 238 milljón km fjarlægð frá Jörðinni. Myndin er samsett vegna þess að Mars var 10.000 sinnum bjartari en halastjarnan, svo útilokað var að ná báðum hnöttum á eina mynd án þess að Mars yrði yfirlýstur.

Þegar halastjarnan Siding Spring var næst Mars náði HiRISE myndavélin í Mars Reconnaissance Orbiter myndum í mestri upplausn (138 metrar á myndeiningu (díl)). Mælingar frá Jörðinni bentu fyrirfram til að kjarni halastjörnunnar væri aðeins um 1 kílómetri á breidd eða svo en myndir HiRISE sýndu að hún var enn minni, sennilega innan við 500 metrar að stærð.

Halastjarnan Siding Spring á mynd HiRISE myndavélarinnar í Mars Reconnaissance Orbiter
Halastjarnan Siding Spring á mynd HiRISE myndavélarinnar í Mars Reconnaissance Orbiter. Myndin sýnir kjarna halastjörnunnar sem reyndist innan við 500 metrar að stærð. Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

MAVEN geimfar NASA gerði meðal annars útfjólubláar mælingar af halastjörnunni. Á myndinni hér undir, sem sýnir útfjólublátt ljós frá vetni í kringum Siding Spring hinn 17. október, tveimur dögum fyrir Marsnánd. Halastjarnan var þá 8,5 milljón km í burtu frá Mars.

Útfjólublátt ljós frá vetniastómum í hjúpnum í kringum kjarna halastjörnunnar Siding Spring
MAVEN geimfarið mældi útfjólublátt ljós frá vetniastómum í hjúpnum í kringum kjarna halastjörnunnar Siding Spring. Mynd: NASA/Laboratory for Atmospheric and Space Physics/Univ. of Colorado

Þegar vatn gufar upp af kjarna halastjarna klýfur útfjólublátt ljós frá sólinni það í vetni og súrefni. Vetnisatómin dreifa útfjólubláu ljósi og var það það sem IUVS mælitækið í MAVEN náði myndum af.

Mælingar MAVEN sýna að vetnisskýið var um hálf gráða af umfangi á himninum í bakgrunni eða álíka víðfemt og stærð tunglsins séð á himninum frá Jörðinni. Vetni mældist allt að 150.000 km frá kjarnanum og er sú fjarlægð sambærileg við fjarlægðina sem halastjarnan var í við Marsnánd. Gas frá halastjörnunni hefur því líklega rekist á Mars á um 56 km hraða á sekúndu og haft áhrif á lofthjúpinn.

Á yfirborði Mars náði Opportunity jeppinn mynd af halastjörnunni á Mars-himninum. Myndin var tekin á um 50 sekúndum um tveimur og hálfri klukkustund áður en halastjarnan var næst Mars. Þá var himinninn enn tiltölulega dimmur skömmu fyrir birtingu á lendingarstað Opportunity. Þegar halastjarnan komst næst Mars var morgunhiminninn of bjartur til þess að halastjarnan sæist.

Halastjarnan Siding Spring næturhimninum yfir Mars á lendingarstað Opportunity jeppans
Halastjarnan Siding Spring á Marshimninum yfir Opportunity á Meridiani Planum. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Cornell Univ./ASU/TAMU

Halastjarnan og nokkrar nálægar stjörnur sem og fáeinir geimgeislar sem skullu á myndflögunni koma fram á myndinni. Rykstormur vestur af Opportunity hafði einnig nokkur áhrif á tærleika himinsins.

Þegar þetta er skrifað hafa myndir hvorki borist frá indverska geimfarinu Mars Orbiter Mission né evrópska geimfarinu Mars Express.

Tengt efni

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984