Philae lent á halastjörnunni 67P/C-G

Sævar Helgi Bragason 11. nóv. 2014 Fréttir

Í dag, gangi allt að óskum, mun ómannað evrópskt geimfar lenda á halastjörnu i fyrsta sinn. Þessi síða verður uppfærð reglulega í allan dag og fyrstu myndirnar að sjálfsögðu birtar þegar þær berast til Jarðar.

  • Fyrsta myndin frá yfirborði halastjörnunnar 67P/C-G! Á myndinni sést hluti eins þriggja fóta geimfarsins. Mynd: ESA/Rosetta/Philae/CIVA

Í dag mun ómannað evrópskt geimfar lenda á halastjörnu i fyrsta sinn, gangi allt að óskum. Þessi síða verður uppfærð reglulega í allan dag og fyrstu myndirnar að sjálfsögðu birtar þegar þær berast til Jarðar.

Á Stjörnufræðivefnum er ítarleg umfjöllun um lendingu Philae og Rosetta geimfarið.

Bein vefútsending hjá ESA.

Fylgist einnig með Stjörnufræðivefnum á Twitter og Facebook.

Uppfært kl. 14:00 13. nóvember

Hamraveggur á halastjörnuPhilae liggur nánast á hliðinni með tvo fætur á halastjörnunni og einn upp í tómarúmið. Philae virðist hafa lent við hlið hamraveggs (sjá mynd til hægri), hugsanlega við austurhluta gígsins á höfði halastjörnunnar. Eins og staðan er núna er ólíklegt að reynt verði að færa það.

Eftir fyrstu snertingu skoppaði geimfarið á um 38 cm hraða á sekúndu upp í um 1 km hæð og lenti aftur 1 km frá upphaflegum lendingarstað, Þá stökk það aftur upp, sennilega á um 3 cm hraða á sekúndu í 7 mínútur, uns það staðnæmdist þar sem farið er nú. Það að farið skoppaði bendir til að yfirborðið hafi verið harðara en búist var við.

Philae snerti halastjörnuna á besta stað, innan við 100 metra frá fyrirhuguðum lendingarstað, vel innan þess svæðis sem miðað var á.

Loftnetið á CONSERT mælitækinu, sem á að skanna í gegnum kjarnann, virkar og var fyrsta skönnunin gerð síðastliðna nótt. Mælingarnar verða notaðar til að finna út hvar Phllae er.

Mælingar eru hafnar með flestum tækjunum. Í kvöld kl. 19:22 verða næstu skipanir sendar til geimfarsins.

Uppfært kl. 12:15 13. nóvember

Eins og sést á fyrstu myndinni sem send var til Jarðar virðist Philae liggja á hliðinni, að minnsta kosti halla mjög. Fóturinn er á hvolfi. Sennilega staðnæmdist Philae 1 km frá fyrirhuguðum lendingarstað, á stað sem kom ekki til greina því hann var of hrjúfur.

Líklega hafa sólarorkuþil á Philae skemmst við lendinguna (þetta reyndist ekki rétt), auk þess sem staðurinn sem kanninn er á nýtur sólarljóss í aðeins 90 mínútur á sólarhring (sem er 12 stundir á halastjörnunni), sem þýðir að líklega verður ekki hægt að endurhlaða rafhlöðurnar. Núna eru eftir um 50 klst af rafmagni í rafhlöðunum, nóg til að ljúka fyrirhuguðum fyrstu rannsóknum. Búið er að kveikja á 8 tækjum en tvö, APXS og MUPUS, hafa ekki verið virkjuð. Ef ekki er hægt að snúa farinu við og hlekkja það við yfirborðið verður að líkindum ekki hægt að bora eftir sýnu.

Uppfært kl. 10:08 13. nóvember

Fyrsta myndin frá yfirborðinu hefur borist. Philae virðist hafa skoppað upp í 1 km hæð eftir fyrstu lendingu. Sú ferð tók tvo tíma. Á myndinni sést að nokkuð skuggsamt er. Það gæti hugsanlega komið í veg fyrir að kanninn nái að endurhlaða rafhlöðurnar þegar á líður.

Fyrsta myndin frá yfirborði halastjörnunnar 67P/C-G! Á myndinni sést hluti eins þriggja fóta geimfarsins. Mynd: ESA/Rosetta/Philae/CIVA
Fyrsta myndin frá yfirborði halastjörnunnar 67P/C-G! Á myndinni sést hluti eins þriggja fóta geimfarsins. Mynd: ESA/Rosetta/Philae/CIVA

Uppfært kl. 09:05 13. nóvember

Góða daginn! Í gær lenti mannkynið róbóta á halastjörnu sem ferðast með 66.000 km/klst í 520 milljón km fjarlægð frá Jörðinni og snýst um sjálfa sig á 12 klukkustundum!

Í gær lærðum við líka að halastjörnur eru risavaxnir hoppukastalar! Seegulsviðsmælingar ROMAP mælitækisins í Philae sýna að geimfarið lenti þrisvar (!) og skoppaði tvisvar, klukkan 15:33 og 17:26, uns það staðnæmdist kl. 17:33. Fyrst skoppaði það upp í nokkur hundruð metra hæð (hugsanlega yfir 500 metra hæð) og var þá á lofti í tæpa tvo klukkutíma! Er þetta í samræmi við mælingar MUPUS tækisins.

Gögn berast nú frá Philae sem þýðir að geimfarið er heilt á húfi þrátt fyrir þetta. Farið er að senda myndir heim til Jarðar sem við sjáum líklega skömmu eftir hádegi í dag. Myndin sem hér sést var tekin rétt fyrir fyrstu snertingu úr sennilega 35 metra hæð. Svæðið er tæplega 40 metrar á breidd.

En hvað þetta er stórkostlega skemmtilegt!

Mynd frá ROLIS í Philae af fyrsta lendingarstaðnum
Mynd frá ROLIS myndavélinni í Philae af fyrsta lendingarstað geimfarsins.

Philae lent á halastjörnunni

Mynd frá ROLIS myndavélinni í Philae á niðurleið
ROLIS myndavélin í Philae tók þessa mynd úr 3 km hæð yfir lendingarstaðnum á 67P/C-G kl. 14:38 að íslenskum tíma miðvikudaginn 12. nóvember. Mynd: ESA/Rosetta/Philae/ROLIS/DLR
Uppfært kl. 15:00

Fyrstu kveðjumyndirnar frá Rosettu og Philae!

Kveðjumynd Navcam myndavélinni í Rosetta geimfarinu af Phile, skömmu eftir aðskilnað
Mynd frá OSIRIS myndavélinni í Rosetta af Philae, skömmu eftir aðskilnað.

Mynd frá CIVA myndavélinni í Philae af Rosettu skömmu eftir aðskilnað
Mynd frá CIVA myndavélinni í Philae af Rosetta, skömmu eftir aðskilnað. Mynd: ESA/Rosetta/Philae/CIVA
Uppfært kl. 09:05

Philae hefur losnað frá Rosetta! Kanninn mun nú falla niður að halastjörnunni næstu 7 klukkustundir. Lending fyrirhuguð skömmu eftir kl. 16 að okkar tíma!

Hvað er halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko stór?

Í meðfylgjandi myndum er búið að leggja halastjörnuna ofan á miðbæ Reykjavíkur, í Laugardalinn og á Kópavog, til að gera grein fyrir stærðinni. 

Hve stór er 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Perluna? Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Reykjavík (sjá Perluna). Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA/Stjörnufræðivefurinn

Hve stór er 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Reykjavík? Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Reykjavík. Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA/Stjörnufræðivefurinn

Hve stór er 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Reykjavík? Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko í samanburði við Reykjavík (sjá Perluna). Mynd: Hermann Hafsteinsson/ESA/Stjörnufræðivefurinn
  • Halastjarnan er um 4 km í þvermál, eins og fjórar Esjur raðaðar ofan á hver aðra (þó ekki jafn breið auðvitað).

  • Hún er um 25 km3 að rúmmáli, eins og 25 Surtseyjar eða 25 Nornahraun/Holuhraun.

  • Eðlismassi hennar er aðeins 0,4 g/cm3 sem þýðir að hún flyti eins og ísjaki í vatni.

  • Á svo litlum hnetti er þyngdarkrafturinn aðeins 100.000 af þyngdarkrafti Jarðar. Philae, sem vegur 100 kg á Jörðinni, vegur aðeins 1 gramm á halastjörnunni!

- Sævar Helgi Bragason