2015: Spennandi stjörnufræðiár framundan

Reikistjörnur, dvergreikistjörnur og sól- og tunglmyrkvar

Sævar Helgi Bragason 29. des. 2014 Fréttir

Árið 2015 sjáum við sólmyrkva og tunglmyrkva, bjartar reikistjörnur á himni og fyrstu heimsóknir ó til dvergreikistjarnanna Plútó og Ceresar

  • Deildarmyrkvi á sólu 20. mars 2015

Það er óhætt að segja stjörnuáhugafólk sé spennt fyrir árinu 2015. Árið 2015 er ekki aðeins Alþjóðlegt ár ljóssins, heldur er þetta ár dvergreikistjarna, tveggja myrkva og þrettán fullra tungla.

Sólmyrkvi 20. mars 2015

Sjá nánar: Sólmyrkvi 20. mars 2015

Föstudagsmorguninn 20. mars 2015 verður verulegur deildarmyrkvi á sólu sem sést frá Íslandi öllu, ef veður leyfir. Í Reykjavík myrkvar tunglið rúmlega 97% af skífu sólar en 99% á Austurlandi. Rétt fyrir austan landið er almyrkvi en til að sjá hann þarf að fara í flugferð eða siglingu. 

Deildarmyrkvi á sólu 20. mars 2015
Deildarmyrkvinn 28. september 2015 í hámarki. Mynd: Hermann Hafsteinsson/Gunnlaugur Björnsson/Stjörnufræðivefurinn

Ýmislegt spennandi er í bígerð fyrir myrkvann og verður sagt nánar frá því þegar nær dregur. 

Tunglmyrkvi 28. september 2015

Sjá nánar: Tunglmyrkvi 28. september 2015

Aðfaranótt mánudagsins 28. september verður almyrkvi á tungli. Myrkvinn hefst klukkan 00:12, nær hámarki klukkan 02:45 og lýkur klukkan 05:22. Þetta er annar tunglmyrkvi ársins 2015 en fyrsti almyrkvinn sem sést að öllu leyti frá Íslandi síðan 21. desember 2010.

Tunglmyrkvinn aðfaranótt mánudagsins 28. september 2015 í hámarki. Mynd: Stjörnufræðivefurinn
Tunglmyrkvinn aðfaranótt mánudagsins 28. september 2015 í hámarki. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

Reikistjörnurnar 2015

Reikistjörnur á himni 2015
Mynd: Emil Hannes Valgeirsson/Sævar Helgi Bragason

Merkúríus er mjög lágt á kvöldhimni fyrri part janúar. Hann verður kvöldstjarna seint í apríl og fram í maí er hann fer að nálgast sólina. Sést sem morgunstjarna í október.

Venus er kvöldstjarna, mjög björt, fram í júní en er þá vart sjáanleg vegna sumarbirtunnar. Fer svo að sjást á ný sem morgunstjarna seint í ágúst og er vel sýnileg eftir það út árið.

Mars sést á kvöldin frá janúar og þar til hann hverfur í birtu sólar undir lok apríl. Aftur sýnilegur sem morgunstjarna upp úr miðjum ágúst og út árið.

Júpíter er á lofti á kvöld- og næturhimninum uns hann hverfur í vorbirtuna. Sést á ný á morgnana í september og út árið.

Satúrnus sést á morgunhimni fyrstu mánuði ársins, lágt á suðurhimni fyrir birtingu. Er í Sporðdrekanum. Birtist síðan mjög lágt á lofti í árslok.

Úranus er vart sjáanlegur nema með sjónauka á kvöldhimninum frá janúar og fram að miðjum mars. Sést á ný þegar dimma fer í ágúst og út árið.

Neptúnus er sjáanlegur með stjörnusjónauka á kvöldin í janúar og fyrstu daga febrúarmánaðar. Sést síðan með sjónauka frá lokum ágústmánaðar og það sem eftir lifir árs.

Full tungl 2015 — Þrettán tungla ár

Á tveggja til þriggja ára fresti verða þrettán full tungl á einu ári. Seinast gerðist það árið 2012 og þar áður árið 2009. Þrettán tungla ár verða ef fyrsta fulla tungl ársins verður fyrstu 11 daga janúarmánaðar. Þá verður 13. fulla tungl ársins alltaf eftir 21. desember.

Dagsetning
Klukkan
Athugasemdir
5. janúar
04:53
 
3. febrúar
23:09
 
5. mars
18:06
Fullt tungl í jarðfirrð, þ.e. tungl lengst frá Jörðu
4. apríl
12:06
Fyrsta fulla tunglið eftir vorjafndægur svo sunnudagurinn 5. apríl er páskadagur
4. maí
03:42

2. júní
16:19
„Hunangstungl“.
2. júlí
02:20

31. júlí
10:43
Blátt tungl, þriðja fulla tunglið í árstíð sem hefur fjögur full tungl og annað fulla tungl sama mánaðar
29. ágúst
18:35

28. sept.
02:50
Tunglmyrkvi og fullt tungl í jarðnánd, þ.e. nálægasta og stærsta fulla tungl ársins, stundum kallað „ofurmáni“. Fullt tungl í september er stundum kallað „Uppskerumáni“.
27. október
12:05
 
25. nóv.
22:44
 
25. des.
11:11
Aukatungl, 13. fulla tungl ársins

Geimferðir

Dawn heimsækir Ceres

Fyrir rúmum tveimur árum yfirgaf Dawn geimfar NASA smástirnið Vesta eftir árangursríkan rannsóknarleiðangur. Förinni var heitið til stærsta hnattarins í smástirnabeltinu, dvergreikistjörnunnar Ceresar. Í byrjun mars fer Dawn fer á braut um Ceres og verður þá fyrsta geimfarið til að heimsækja dvergreikistjörnu. Dawn var skotið á loft árið 2007.

Dawn, geimfar, smástirni, smástirnabeltið, Vesta, Ceres
Teikning listamanns af Dawn geimfarinu. Mynd: NASA/JPL-Caltech/UCLA/McREL

New Horizons flýgur framhjá Plútó

Um miðjan júlí árið 2015 flýgur New Horizons geimfarið framhjá dvergreikistjörnunni Plútó, níu árum eftir að geimfarinu var skotið á loft. Sökum fjarlægðar verða allar upplýsingar frá New Horizons rúmlega 5 klukkustundir að berast til Jarðar.

Hinn 15. janúar byrjar geimfarið að gera rannsóknir á Plútó og tunglum hans. Um miðjan maímánuð verða myndir geimfarsins af Plútó betri en ljósmyndir Hubblessjónaukans, sem eru hinar bestu sem teknar hafa verið til þess.

Eftir flugið framhjá Plútó heldur New Horizons áfram út í Kuipersbeltið.

New Horizons, Plútó
Teikning listamanns af New Horizons fljúga framhjá Plútó. Mynd: Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute (JHUAPL/SwRI)

- Sævar Helgi Bragason