Andrómeda í háskerpu

Hubble tekur skýrustu myndina til þessa af nágranna okkar í geimnum

Sævar Helgi Bragason 08. jan. 2015 Fréttir

Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur tekið skörpustu og stærstu myndina til þessa af Andrómeduvetrarbrautinni

  • Andrómeda í háskerpu

Myndin er sú stærsta sem Hubble hefur tekið en á henni sjást meira en 100 milljónir stakra stjarna og mörg þúsund stjörnuþyrpingar á svæði í skífu Andrómedu sem er um 40.000 ljósár á breidd.

Andrómeduvetrarbrautin (Messier 31) er stór þyrilvetrarbraut eins og Vetrarbrautin okkar. Hún er í 2,5 milljón ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar en er ríflega tvöfalt stærri. Talið er að hún innihaldi yfir 1000 milljarða stjarna.

Andrómeduþokan er því miklu stærra viðfangsefni á himninum en vetrarbrautirnar sem Hubble rannsakar alla jafna, sem margar hverjar eru í margra milljarða ljósára fjarlægð. Andrómeduþokan er raunar svo stór á himinhvolfinu að sex full tungl kæmust fyrir þvert yfir hana.

Panchromatic Hubble Andromeda Treasury (PHAT) verkefnið snýst um rannsóknir á Andrómedu og er þessi mynd hluti af því. Myndir voru teknar af vetrarbrautinni í nær-útfjólubláu, sýnilegu og nær-innrauðu ljósi en afraksturinn sem hér sést sýnir Andrómedu í náttúrulegu sýnilegu ljósi.

Á myndinni sést um einn þriðji af Andrómeduvetrarbrautinni eða svæði sem er rúmlega 40.000 ljósár á breidd. Myndin var sett saman úr 411 ljósmyndum sem Hubble tók en samanlagt er hún 1,5 milljarðar pixla (69.536 x 22.230 pixlar), sem þýðir að meira en 600 háskerpusjónvörp þyrfti til að sýna myndina alla.

PHAT svæðið í Andrómedu
Víðmynd sem sýnir Andrómeduvetrarbrautina (Messier 31) ásamt fylgivetrarbrautunum M32 (fyrir neðan miðju) og NGC 205 (uppi hægra megin). Myndin sýnir umfang PHAT myndarinnar sem er sú skarpasta sem tekin hefur verið af Andrómeduvetrarbrautinni til þess. Mynd: NASA, ESA, J. Dalcanton (University of Washington), B. F. Williams (University of Washington, USA), L. C. Johnson (University of Washington, USA), the PHAT team, og R. Gendler. Bakgrunnsmynd: © 2008 R. Gendler, notuð með leyfi

Myndin sýnir svæði í vetrarbrautinni sem nær frá miðbungunni vinstra megin, þar sem stjörnur eru þétt saman, yfir í gisnari og rykugar i svæði í útjaðri skífunnar hægra megin. 

Ótrúleg smáatriði blasa við. Í skífunni sjást stjörnumyndunarsvæði og stórir hópar blárra stjarna, þ.e. ungar stjörnuþyrpingar. Sumar stjörnur eru kadari og því rauðleitar en þær sýna okkur þróunarsögu vetrarbrautarinnar. Dökkar skuggaþokur byrgja sýn hér og þar en sumstaðar sést í gegnum skífuna á enn fjarlægari vetrarbrautir.

Sneið úr PHAT mynd af Andrómedu
Sneið úr PHAT myndinni af Andrómeduvetrarbrautinni, sem er sú skarpasta sem tekin hefur verið af henni til þess. Hér sjást smáatriði í skífunni, svo sem stjörnuþyrpingar, geimþokur, rauðar og kaldar stjörnur og aðrar vetrarbrautir í enn meiri fjarlægð. Mynd: NASA, ESA/Hubble, og Z. Levay (STScI/AURA), J. Dalcanton (University of Washington), B. F. Williams (University of Washington, Bandaríkjunum), L. C. Johnson (University of Washington, Bandaríkjunum) og PHAT teymið

Á myndinni sjást yfir 100 milljónir stjarna — einn tíu þúsundasti af heildarfjölda stjarna í Andrómeduþokunni. Myndin er svo skörp að hún mun hjálpa stjörnufræðingum að lesa í ljós frá mörgum sambærilegum vetrarbrautum í mun meiri fjarlægð.

Myndin er of stór til að hægt sé að sýna hana á þægilegan máta í fullri upplausn. Við mælum þess vegna með því að þú skoðir hana hér í (næstum því) öllu sínu veldi.

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason