Afleiðing vetrarbrautasamruna

Sævar Helgi Bragason 25. jan. 2015 Fréttir

Hubble geimsjónauki hefur tekið þessa glæsilegu mynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 7714 sem sýnir vel afleiðingu vetrarbrautasamruna

  • Þyrilvetrarbrautin NGC 7714 í stjörnumerkinu Fiskunum

Fyrir um 100 til 200 milljónum ára gerðist hún of nærgöngul við nágranna sinn og ber hún þess augljós merki. Þyrilarmarnir hafa aflagast, hrina stjörnumyndunar hefur átt sér stað og liggur straumur stjarna og efnis sömuleiðis út í geiminn.

NGC 7714 er þyrilvetrarbraut í um 100 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Fiskunum — tiltölulega nálægt á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Fyrir um 100 til 200 milljónum ára urðu miklar hamfarir í NGC 7714. Merki um þær sjást í þyrilörmunum og gylltu þokunni sem stefnir frá miðju vetrarbrautarinnar.

Hvað olli hamförunum?

Sökudólgurinn er lítil fylgivetrarbraut sem kallast NGC 7715 og liggur rétt fyrir utan myndina en sést á víðmyndum. Vetrarbrautarinar tvær, sem saman eru kallað Arp 284, gerðust of nærgöngular fyrir um 100 til 200 milljónum ára.

Við þetta aflöguðust vetrarbrautirnar og liggja nú tveir langir halar og hringur úr stjörnur úr NGC 7714 yfir í NGC 7715 eins og nokkurs konar brú. Brúin verkar eins og pípulögn sem flytur efni úr NGC 7715 yfir í miðju stóra nágranna síns. Þar á sér nú mikil stjörnumyndunarhrina sér stað, jafnvel þótt öll vetrarbrautin glitri af nýfæddum stjörnum.

Stjörnufræðingar flokka NGC 7714 sem dæmigerða Wolf-Rayet hrinuvetrarbraut. Ástæðan er sú að stór hluti nýju stjarnanna eru Wolf-Rayet stjörnur — sérstaklega hetiar og bjartar stjörnur sem í upphafi ævinnar eru mörgum sinnum massameiri en sólin en glata síðan stærstum hluta efnisins með öflugum vindum.

Myndin sýnir ekki aðeins glæsileg smáatriði í NGC 7714, heldur líka fjölmörg enn fjarlægari fyrirbæri. Þessar bakgrunnsvetrarbrautir líkjast flestar daufum ljóshnoðrum en sumar hafa þó augljósa þyillögun.

- Sævar Helgi Bragason