Mars Júpítertungla

Hubble fylgdist með þreföldum sólmyrkva á Júpíter

Sævar Helgi Bragason 04. feb. 2015 Fréttir

Nýjar ljósmyndir Hubblessjónaukans sýna það þegar þrjú af fjórum stærstu tunglum Júpíters marséruðu fyrir framan hann hinn 23. janúar síðastliðinn

  • Íó, Evrópa og Kallistó ganga fyrir Júpíter 23. janúar 2015

Á þessum nýju ljósmyndum frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést sjaldséð fyrirbæri þegar þrjú af fjórum stærstu tunglum Júpíters — Evrópa, Kallistó og Íó — marséruðu fyrir framan litríkan lofthjúp gasrisans hinn 23. janúar síðastliðinn og ollu þreföldum sólmyrkva. Atburður sem þessi gerist aðeins einu sinni til tvisvar á áratug.

Á sveimi um Júpíter eru 67 tungl. Af þeim eru Galíleótunglin fjögur — Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó — langstærst en þau eru nefnd eftir Galíleó Galílei sem fann þau fyrir rúmum 400 árum.

Tunglin eru frá tveimur og upp í sautján daga að hringsóla í kringum stærstu reikistjörnu sólkerfisins en til samanburðar er Máninn okkar tæpan mánuð að fara einn hring um Jörðina.

Annað slagið ganga tunglin fyrir Júpíter frá Jörðu séð og varpa þá skuggum á skýjaþykknið fyrir neðan í sólmyrkvum. Sjaldgæft er þó að sjá þrjú tungl ganga fyrir Júpíter í sama mund. Það gerist aðeins einu sinni til tvisvar á áratug.

Myndin hér undir var tekin í upphafi þvergöngunnar þreföldu. Vinstra megin er tunglið Kallistó en hægra megin er Íó. Skuggarnir frá Kallistó, Íó og Evrópu raðast upp frá vinstri til hægri. Evrópa er fyrir utan myndina.

Í upphafi þrefaldrar þvergöngu Júpíterstunglanna Íó, Evrópu og Kallistó
Skuggar þriggja tungla falla á Júpíter. Vinstra megin sést Kallistó en undir henni er skuggi frá Evrópu sem er utan myndarinnar. Hægra megin sést Íó upp við skuggann frá Kallistó en skuggi Íós er lengra til hægri. Sjá einnig merkta mynd. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team

Myndin hér fyrir neðan var tekin undir lok þvergöngunnar, um 40 mínútum síðar. Evrópa er komin inn á myndina neðarlega vinstra megin en Kallistó, sem ferðast hægar um Júpíter, er ofar og til hægri við Evrópu. Íó, sem er mun nær Júpíter en hin tunglin og ferðast þar af leiðandi miklu hraðar, nálgast austurjaðar reikistjörnunnar. Á sama tíma hefur skugginn frá Kallistó varla færst á meðan Íó er komið út fyrir austurjaðar Júpíters um leið og Evrópa hefur fært sig lengra í vesturátt.

Þreföld þverganga Júpítertungla
Þrjú tungl marséra fyrir Júpíter. Myndin var tekin undir lok atburðarins. Neðst til vinstri er Evrópa komin inn á myndina ,rétt fyrir neðan Kallistó. Undir Kallistó sést skugginn frá Evrópu. Lengst til hægri er Íó en innar sést skugginn frá Kallistó. Sjá einnig merkta mynd. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team
Þverganga þriggja tungla fyrir Júpíter
Samanburður á myndum sem Hubble tók í upphafi þvergöngunnar þreföldu og undir lok hennar. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team

Fjórða Galíleótunglið, Ganýmedes, sem jafnframt er stærsta tungl sólkerfisins, er hvergi sjáanlegt enda utan myndarinnar. Stutt er síðan Hubble fylgdist með Ganýmedesi setja svartan blett á auga Júpíters.

Þvergangan er enn glæsilegri að sjá í þessu myndskeiði.

Það er nánast eins og tunglin séu alveg ofan í Júpíter en í raun er fjarlægðin frá reikistjörnunni og til tunglanna mikil. Þannig er Íó lengra frá Júpíter en Máninn er frá Jörðinni, eða í um 421.000 km fjarlægð að meðaltali. Hin tunglin eru enn lengra í burtu.

Tungl Júpíters eru mjög mislit eins og sjá má. Slétt ísilagt yfirborð Evrópu hefur gulhvítan lit á meðan brennisteinsyfirborð eldfjallatunglsins Íós er appelsínugult. Yfirborð Kallistó, sem er eitt hið elsta og gígóttasta í sólkerfinu, er brúnleitt.

Gaman er að geta þess að tunglin fjögur sjást leikandi með litlum stjörnusjónaukum. Svo vill til að Júpíter er ægibjartur á kvöldhimninum þessa dagana. Hví ekki að skella sér út og skoða dans Júpíterstunglanna?

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason