Hubble skoðar vetrarbrautina NGC 6503

Sævar Helgi Bragason 10. jún. 2015 Fréttir

Á nýrri mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést vetrarbrautin NGC 6503 sem er skammt frá galtómu svæði í geimnum.

  • Þyrilvetrarbrautin NGC 6503 í stjörnumerkinu Drekanum

Þótt alheimurinn sé stór safnast flestar vetrarbrautir saman í hópa eða þyrpingar, svo nágrannar eru aldrei langt undan. Vetrarbrautin sem hér sést, NGC 6503, er hins vegar ein á báti, við jaðar svæðis sem kallast Grenndargapið.

NGC 6503 er þyrilvetrarbraut í aðeins um 18 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum. Hún er því meðal næstu nágranna Grenndarhópsins. NGC 6503 er einungis þriðjugur af stærð Vetrarbrautarinnar okkar eða um 30.000 ljósár.

NGC 6503 er við jaðar svæðis í geimnum sem kallast Grenndargapið en það er talið um 150 milljón ljósár í þvermál og virðist óvenju snautt vetrarbrautum. Stjörnufræðingar sem notuðu Hubble komust að því að þótt svæðið sé tómt hefur það samt sem áður töluverð áhrif á geiminn í kringum okkur. Til dæmis stefnir Vetrarbrautin okkar burt frá svæðinu vegna lítils en stöðugs þyngdartogs frá öðrum nálægum vetrarbrautum.

Í NGC 6503 hefur mjög litla miðbungu ólíkt flestum öðrum þyrilvetrarbrautum. Út frá miðjunni berst lítilsháttar geislun, sennilega frá hungruðu svartholi sem þó helst virkt vegna þess litla gass sem það gleypir.

Björtu rauðu svæðin á víð og dreif um þyrilarmana eru fæðingarstaðir stjarna, svipaðir Sverðþokunni í Óríon. Ljósbláu svæðin eru stjörnuþyrpingar, nýskriðnar úr rauðum stjörnumyndunarskýjum. Í örmunum ber einnig á dökkbrúnu ryki sem er hráefnið í nýjar stjörnur.

Myndin var tekin með Wide Field Camera 3 (WFC3) á Hubble geimsjónauka NASA og ESA fyrir Hubble Legacy ExtraGalactic UV Survey (LEGUS) verkefnið. LEGUS verkefnið snýst um rannsóknir á lögun, uppbyggingu, eiginleikum og hreyfingum stjarna í nálægum vetrarbrautum.

Mynd: NASA, ESA, D. Calzetti (University of Massachusetts) og H. Ford (Johns Hopkins University)

- Sævar Helgi Bragason