Dularfullir blettir við miðbaug Plútós

Sævar Helgi Bragason 02. júl. 2015 Fréttir

Á nýjum litmyndum frá New Horizons geimfari NASA sjást tvö gerólík hvel dvergreikistjörnunnar. Á öðru hvelinu eru að minnsta kosti fjórir tæplega 500 km breiðir blettir, hver rúmlega eitt og hálft Ísland að flatarmáli, sem raðast upp með jöfnu millibili eftir miðbaug Plútós.

  • Tvö gerólík hvel Plútós

Uppruni þessara dökku bletta er á huldu en eðli þeirra og uppruni mun eflaust koma í ljós þegar geimfarið flýgur framhjá Plútó þriðjudaginn 14. júlí næstkomandi.

Önnur ráðgáta er lita- og útlitsmunurinn á Plútó og stærsta tungli hans, Karon, sem er mun dekkra og grárra og skartar forvitnilegri dökkri pólhettu. Plútó er ferskjulitaður vegna metans sem verður rauðleitt í sólarljósinu.

Tvö gerólík hvel Plútós og Karon
Nýjar litmyndir frá New Horizons sýna tvö gerólík hvel Plútós. Á myndinni vinstra megin sést hvelið sem snýr að geimfarinu við framhjáflugið 14. júlí en hægra megin sést gagnstætt hvel. Litli grái hnötturinn er Karon, stærsta tungl Plútós, sem skartar dularfullri dökkri pólhettu. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute

Litmyndirnar voru settar saman úr svarthvítum myndum sem LORRI myndavél New Horizons tók af Plútó og Karon og litagögnum í lægri upplausn frá Ralph mælitækinu. Plútó og Karon sjást í því sem næst náttúrulegum lit, þ.e. eins og þau myndu birtast mannsauganu.

Báðar fyrrnefndar myndavélar eru byrjaðar að leita að hugsanlegum skýjum í lofthjúpi Plútós. Ský verða notuð til að mæla vindhraða og vindáttir í lofthjúpi Plútós.

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason