Stjörnufræðingar finna einstaka vetrarbrautaþyrpingu

Hubble, Spitzer og Canada-France-Hawaii sjónaukinn koma auga á sjaldséð fyrirbæri

Sævar Helgi Bragason 10. sep. 2015 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa komið auga á öfluga stjörnumyndunarhrinu í miðju risavaxinnar vetrarbrautaþyrpingar

  • Vetrarbrautaþyrpingin SpARCS1049 á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA

Alþjóðlegur hópur stjarnvísindamanna hefur komið auga á öfluga stjörnumyndunarhrinu í miðju risavaxinnar vetrarbrautaþyrpingar. Uppgötvun af þessu tagi, sem gerð var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA, er sárasjaldgæf og sýnir, í fyrsta sinn, að risavetrarbrautir í hjarta efnismikilla vetrarbrautaþyrpinga geta vaxið með því að nærast á gasi sem þær ræna frá öðrum vetrarbrautum.

Vetrarbrautaþyrpingar eru stærstu hóparnir í alheiminum sem þyngdarkrafturinn bindur saman. Vetrarbrautin okkar tilheyrir litlum hópi sem kallast Grenndarhópurinn en hann er aðeins lítill hluti af annarri risavaxinni ofurþyrpingu vetrarbrauta.

Risavetrarbrautir í miðju þyrpinga eru alla jafna óvirkar og innihalda gamlar, rauðleitar eða dauðar stjörnur. Nú hafa stjörnufræðingar hins vegar fundið vetrarbraut í miðju þyrpingar sem kallast SpARC1049+56 sem framleiðir nýjar stjörnur með miklum krafti, sennilega eftir að hafa runnið saman við aðra smærri vetrarbraut. Gasið sem hratt af stað stjörnumyndunarhrinunni kom líklega úr smærri vetrarbrautinni.

Vetrarbrautin fannst upphaflega með Spitzer geimsjónauka NASA og Canada-France-Hawaii sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii. Báðir þessir sjónaukar námu innrauða geislun sem berst frá rykugum stjörnumyndunarsvæðum í vetrarbrautinni. Hubble geimsjónauki NASA og ESA var síðan notaður til að fylgja uppgötvuninni eftir og rannsaka vetrarbrautina í smáatriðum.

SpARCS1049+56 þyrpingin er svo langt í burtu að ljósið frá henni er 9,8 milljarða ára að berast til Jarðar. Í þyrpingunni eru að minnsta kosti 27 vetrarbrautir sem samanlagt eru um 400 trilljón sinnum efnismeiri en sólin.

Þyrpingin er sérstök að því leyti að hún hefur bjarta miðju með nýjum stjörnum. Bjartasta vetrarbrautin í þyrpingunni framleiðir um það bil 800 stjörnur á ári. Til samanburðar myndast í besta falli tvær stjörnur í Vetrarbrautinni okkar á ári.

Sagt er frá uppgötvuninni í greininni „An Extreme Starburst In The Core Of a Rich Galaxy Cluster At z = 1.7“ sem birtist í tímaritinu The Astrophysical Journal hinn 21. águst 2015.

Mynd: NASA/STScI/ESA/JPL-Caltech/McGill

- Sævar Helgi Bragason