New Horizons sendir nýjar myndir af Plútó til Jarðar

Sævar Helgi Bragason 10. sep. 2015 Fréttir

New Horizons geimfar NASA er byrjað að senda nýjar myndir og gögn til Jarðar eftir rúmlega mánaðar hlé.

  • Plútó úr 80.000 km fjarlægð

Óhætt er að segja að nýju myndirnar sýni ótrúlega fjölbreytt landslag og áhugaverðar jarðmyndanir hvert sem litið er sem  vísindamenn klóra sér í kollinum yfir næstu misseri. 

Á nýju myndunum sjást hugsanlegir skaflar, jöklar eða einhvers konar straumar úr niturís sem virðast hafa runnið úr ísfjöllunum ofan á Sputnik Planum sléttuna og jafnvel dalakerfi. Á myndunum sást einnig stór óreiðukennd fjallasvæði sem minna um margt á samskonar svæði á Júpíterstunglinu Evrópu. Þessi fjöll gætu verið stórir ísjakar úr vatnsís ofan á sléttu úr niturís.

Nýju myndirnar sýna líka gígóttustu og þar af leiðandi elstu svæðin sem New Horizons hefur komið auga á til þessa. Á yfirborðinu virðast líka vera myndanir sem minna á sandskafla en slíkt væri mjög merkilegt þar sem lofthjúpur Plútós er næfurþunnur og ætti ekki að geta myndað slíka skafla. Það gæti bent til að Plútó hafi á einhverjum tímapunkti í fortíðinni haft þykkari lofthjúp, eða að einhver óþekkt ferli eigi sér stað í dag sem myndi skaflana.

Uppgötvanirnar takmarkast ekki við Plútó. Betri myndir af Karon, Nix og Hýdra verða birtar á föstudaginn (11. september) og sýna þær að öll tunglin eru einstök. Myndir af Karoni bendir einnig til að þar hafi orðið miklar hamfarir.

Myndir hafa einnig leitt ljós að mistrið í lofthjúpi Plútós er mun lagskiptara en vísindamenn bjuggust við. Mistrið skapar birtuskilyrði sem lýsir dauflega upp myrkvað landslag við skuggaskilin. Það gerir vísindamönnum kleift að rannsaka landslag sem þeir bjuggust aldrei við að geta sjá.

Sputnik Planum á Plútó
Samsett mynd frá New Horizons af Sputnik Planum íssléttunni og flóknum jarðmyndunum í kring, meðal annars fjöllum. Smæstu smáatriði á myndinni eru 0,8 km að stærð en svæðið sem sést er um 1.600 km breitt. Myndirnar voru teknar úr 80.000 km fjarlægð hinn 14. júlí 2015. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Fjallgarður við Sputnik Planum
Óreiðukennt landslag við norðvesturbrún Sputnik Planum íssléttunnar. Smæstu smáatriði á myndinni eru 0,8 km að stærð en svæðið sem sést er um 1.600 km breitt. Myndirnar voru teknar úr 80.000 km fjarlægð hinn 14. júlí 2015. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Jarðfræði á Plútó
Á þessari mynd sést vel hve ótrúlega fjölbreytt landslagið á Plútó er. Svæðið er 350 km á breidd. Dökka svæðið er mjög gígótt og gamalt en ljósa sléttan er jarðfræðilega ung. Vísindamenn klóra sér í kollinum yfir því sem virðist vera fjöll og dökkleitir hryggir sem líkjast sandsköflum. Smæstu smáatriði á myndinni eru 0,8 km að stærð en svæðið sem sést er um 1.600 km breitt. Myndirnar voru teknar úr 80.000 km fjarlægð hinn 14. júlí 2015. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Karon
Karon úr 470.000 km fjarlægð, tíu klukkustundum áður en New Horizons flaug næst tunglinu. Yfirborð Karons bendir til þess að jarðsaga þess hafi verið óvenju flókin. Sjá má merki um sprungur, skorpuhreyfingar og sléttur auk fjalla og slétta. Sumir gígar hafa ljósar rákir og á pólnum sést hin dularfulla dökka pólhetta. Smæstu smáatriði á myndinni eru 4,6 km á breidd. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Skuggaskil á Plútó
Hér sést hvernig mistur í lofthjúpi Plútós bregður daufri birtu á myrk svæði við skuggaskilin. Þessi daufa birta gerir myndavél geimfarsins kleift að sjá smáatriði á næturhliðinni sem annars væru ósýnileg. Búið er að auka birtu myndarinnar hægra megin til muna til að draga fram smáatriði. Myndin var tekin úr 80.000 km fjarlægð. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Lofthjúpur Plútós
Sextán klukkustundum eftir að New Horizons flaug framhjá Plútó, leit geimfarið til baka og fylgdist með sólinni lýsa upp næfurþunnan lofthjúpinn. Myndin var tekin úr 770.000 km fjarlægð. Myndin vinstra megin hefur verið unnin mun minna en myndin hægra megin og koma misturlögin þar mun betur í ljós. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute

- Sævar Helgi Bragason