Hubble skoðar Slörþokuna á ný

Sævar Helgi Bragason 24. sep. 2015 Fréttir

Wide Field Camera 3 myndavél Hubbles var beint að sprengistjörnuleifinni Slörþokunni og sýna myndirnar hvernig gasþræðirnir hafa þanist út á síðastliðnum árum.

  • Nornakústurinn í Slörþokunni, NGC 6960

Árið 1997 tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA glæsilegar myndir af þremur hlutum Slörþokunnar. Nú hefur Wide Field Camera 3 myndavél Hubbles verið beint að sprengistjörnuleifinni á ný og sýna myndirnar hvernig gasþræðirnir hafa þanist lítillega út á síðastliðnum árum.

Slörþokan er ein þekktasta sprengistjörnuleifin á næturhimninum. Hún dregur nafn sitt af hárfínum gasþráðum sem mynduðust þegar stjarna, tuttugu sinnum efnismeiri en sólin, sprakk fyrir um 8000 árum. Slörþokan er í um 2.100 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum en leifarnar dreifast yfir um 110 ljósára breitt svæði.

Árið 1997 voru teknar glæsilegar myndir af Slörþokunni með Wide Field and Planetary Camera 3 á Hubble geimsjónaukanum. Nú hefur þessum gömlu myndum verið skeytt saman við nýjar myndir frá Wide Field Camera 3 sem gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka útþenslu þokunnar undanfarin 18 ár.

Þrátt fyrir mikla fjarlægð er hreyfing í skýinu greinileg — sér í lagi hreyfing daufu rauðu vetnisþráðanna. Á myndinni sést einn slíkur þráður þar sem hann liðast í gegnum miðju mun bjartari gasslæðu.

Stjörnufræðingar telja að áður en stjarnan sem myndaði Slörþokuna sprakk hafi hún gefið frá sér öfluga stjörnuvinda. Vindurinn blés stórt holrúm á miðgeimsgasið og -rykið í kring. Þegar höggbylgjan frá sprengistjörnunni þenst út, rekst hún á veggi holrúmsins og þá verða myndanirnar í gasskýinu til.

Björtu þræðirnir verða til þegar höggbylgjan rekst á þéttari hluta í veggjum holrúmsins á meðan daufari myndanirnar eru þar sem minna er af efni. Litadýrðina má rekja til misheitra frumefna í skýinu. Litirnir á myndinni eru þó ekki eins og mannsaugað næmi þá.

Bláu þræðirnir virka samfelldir en sveigðir í samanburði við grænu og rauðu þræðina. Ástæðan er sú að skemmra er síðan bláleita gasið varð fyrir höggbylgjunni og fylgir þar af leiðandi betur upphaflegri lögun framhluta höggbylgjunnar. Í þessum þráðum er gasið sömuleiðis heitara en í rauðu og grænu þráðunum.

Innan um björtu óreiðukenndu myndanirnar eru nokkrir rauðir þræðir, þunnir en með skarpar brúnir. Þeir verða til þegar gas sogast inn í höggbylgjuna — sem ferðast á næstum 1,5 milljón km hraða á klukkustund — svo vetnisgasið örvast við árekstra agna á fremsta hluta höggbylgjunnar sjálfrar.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team

- Sævar Helgi Bragason