V774104: Fjarlægasta fyrirbæri sem fundist hefur í sólkerfinu

Sævar Helgi Bragason 11. nóv. 2015 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa komið auga á fjarlægasta fyrirbæri sem sést hefur í sólkerfinu okkar til þess: Hrollkaldan hnött, sennilega um 800 km í þvermál, sem er um 103 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin - þrisvar sinnum fjarlægari en Plútó.

  • Teikning af Oortsskýinu

Fyrirbærið nýfundna slær þar með fjarlægðarmet sem dvergreikistjarnan Eris átti en þegar hún fannst var hún 90 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin.

Fyrirbærið, sem kallast til bráðabirgða V774104, er útstirni sem fannst með Subaru sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii í október síðastliðnum. Út frá löturhægri hreyfingu þess yfir himinhvolfið gátu stjörnufræðingar reiknað út að það er 103 stjarnfræðieiningar eða 15,5 milljarða km frá sólinni.

V774104. Mynd: Subaru Telescope, Scott Sheppard, Chad Trujillo, and David Tholen
V774104. Mynd: Subaru Telescope, Scott Sheppard, Chad Trujillo, and David Tholen

Aldrei áður hefur jafn fjarlægt fyrirbæri fundist í sólkerfinu. Mælingar benda til þess að það sé um 800 km í þvermál eða rúmlega helmingi minna en Plútó.

„Við vitum ekkert um braut fyrirbærisins, aðeins að um er að ræða fjarlægasta fyrirbæri sem fundist hefur í sólkerfinu,“ segir Scott Shepard, stjörnufræðingur við Carnegie stofnunina í Washington DC í Bandaríkjunum, sem tilkynnti um uppgötvun fyrirbærisins hinn 10. nóvember á fundi reikistjörnufræðinga í bandaríska stjarnvísindafélaginu (American Astronomical Society) sem fram fer í Maryland.

Staðsetning fyrirbærisins í sólkerfinu — handan Kuipersbeltisins í innri hluta Oortsskýsins — bendir til þess að um sé að ræða mjög áhugavert fyrirbæri.

Aðeins tvö önnur fyrirbæri eru þekkt úr sama ranni sólkerfisins: Sedna sem fannst árið 2003 og 2012 VP113 sem fannst árið 2012. Hvorki Sedna né VP113 komast nær sólinni en 50 stjarnfræðieiningar. Hnettir í þessum fjarlæga hluta sólkerfisins hafa haldist algerlega ósnortin í milljarða ára.

Stjörnufræðingar hafa ekki náð að fylgjast nógu lengi með fyrirbærinu til að átta sig vel á braut þess. Hugsanlegt er að það komist mun nær sólinni en það er nú. Ef svo er er fyrirbærið dæmigerður Kuipersbeltishnöttur og þá ekki alveg jafn áhugavert.

„Það er engin ástæða til að vera of spennt strax,“ segir Michael Brown, reikistjörnufræðingur við Caltech í Pasadena í Kaliforníu. „Ég þori að veðja að fyrirbærið eigi sér mun hversdagslegri skýringu en krosslegg fingur um að það sé enn áhugaverðara.“

Sedna kemst aldrei nær sólu en 76 stjarnfræðieiningar á meðan VP113 kemst næst henni í 80 stjarnfræðieininga fjarlægð. Ef V774104 er um það bil eins nálægt sólinni og það kemst, fer það í flokk með Sednu og VP113 sem fyrirbæri í innra Oortsskýinu. Og væri þá virkilega áhugavert.

Hnettir í innri hluta Oortsskýsins þykja áhugaverðari því þeir eru of langt í burtu til þess að þyngdarkraftur Neptúnusar geti haft áhrif á brautir þeirra. Að sama skapi eru þeir of nálægt sólinni til þess að stjörnur sem eiga leið hjá sólkerfinu okkar geti haft áhrif á þá.

Í dag geta stjörnufræðingar ekki útskýrt brautir þessara hnatta. Ein skýringin á sérkennilegum brautum þeirra er sú, að stór reikistjarna, sem ekki hefur fundist enn, stýri brautunum.

Líklegri skýring er sú að innra Oortsskýið varðveiti aðstæðurnar sem ríktu þegar sólkerfið okkar var í mótun, þegar sólin og reikistjörnurnar urðu til í þéttri stjörnuþyrpingu. Hnettir í Oortsskýinu gætu því endurspeglað aðstæðurnar sem ríktu í sólkerfinu þegar það myndaðist fyrir tæplega 4,6 milljörðum ára.

Stjörnufræðingar hyggjast rannsaka fyrirbærið betur með Magellanssjónaukunum í Chile. Að ári liðnu verður fleiri sjónaukum beint að fyrirbærinu svo unnt sé að reikna út braut þess og kemur þá í ljós hvort um sé að ræða hnött í innra Oortsskýinu eða ekki.

– Sævar Helgi Bragason