Halastjarnan Catalina á morgunhimninum

Sævar Helgi Bragason 29. nóv. 2015 Fréttir

Í desember og janúar er hægt að sjá halastjörnuna Catalina klífa upp himininn á morgnana. Hún er dauf (5. birtustig) og nýtur sín því best með handsjónauka eða stjörnusjónauka.

  • Halastjarnan Catalina. Mynd: Damian Peach

Um miðjan desember, þegar tunglið truflar ekki, er hægt að sjá hana með berum augum á morgunhimninum, ef maður veit hvert á að horfa.

Halastjarnan heitir formlega C/2013 US10 (Catalina). Hún fannst hinn 31. október árið 2013 með 27 tommu Schmdt-Cassegrain sjónauka í Catalina Sky Survey verkefninu.

Catalina er líklega komin langt að úr frystikistu sólkerfisins, Oortsskýinu, svo yfirborð hennar er ferskt og allt eins líklegt að hún verði aðeins bjartari en spár gera ráð fyrir.

Vísindabók Villa - Geimurinn og geimferðir eftir Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helga Bragason

Hinn 15. nóvember síðastliðinn var halastjarnan í sólnánd, þá í 122 milljón km fjarlægð (0,82 stjarnfræðieiningar) frá sólinni. Hún er nú að fjarlægast sólina en nálgast um leið Jörðina.

Halastjarnan ferðast nú norður á bóginn í gegnum Meyjarmerkið og sést á morgunhimninum þessa dagana, ef maður veit hvert á að horfa.

Í byrjun desember tunglið hins vegar enn tiltölulega bjart á morgunhimninum sem dregur lítillega úr sýnileika halastjörnunnar. Tunglið hverfur hins vegar af morgunhimninum 9. desember.

Að morgni 6. og 7. desember verður nokkuð auðvelt að finna halastjörnuna vinstra megin (austan) við Venus og tunglið, eins og kort hér undir sýnir. Skannaðu himininn með handsjónauka á þessum slóðum og leitaðu að daufum ljósleitum þokuhnoðra.

Halastjarnan Catalina austan við tunglið og Venus að morgni 7. desember 2015
Halastjarnan Catalina austan við Venus og tunglið að morgni 7. desember 2015.

Síðari hluta desember gengur Catalina úr Meyjarmerkinu yfir í Hjarðmanninn. Á morgni nýársdags verður hún hálfa gráðu suðvestur af appelsínugulu risastjörnunni Arktúrusi. Þá er auðvelt að finna hana með handsjónauka.

Halastjarnan Catalina og Arktúrus að morgni nýársdags 2016
Halastjarnan Catalina við Arktúrus að morgni nýársdags 2016.

Hinn 12. janúar verður Catalina næst Jörðinni, þá í 107 milljón km (0,72 stjarnfræðieiningar) fjarlægð. Til að finna hana þá er gott að nota „handfangið“ í Karlsvagninum.

Næstu daga á eftir siglir hún framhjá stjörnunni Mizar í Karlsvagninum en eftir það dofnar hún hratt. Þá ferðast hún ennfremur svo hratt yfir himininn að hægt er að taka eftir hreyfingunni ef fylgst er með halastjörnunni í hálftíma eða svo.

Eftir þetta hverfur halastjarnan Catalina sjónum okkar. Hún ferðast svo hratt að hún kemur aldrei til með að snúa aftur, heldur yfirgefa sólkerfið og ferðast milli stjarna.

Helstu atburðir

  • 7. desember 2015 — Halastjarnan Catalina austan við Venus og tunglið

  • 23. desember 2015 — Halastjarnan Catalina færist yfir í stjörnumerkið Hjarðmanninn

  • 1. janúar — Halastjarnan Catalina hálfa gráðu frá Arktúrusi í Hjarðmanninum

  • 9. janúar — Halastjarnan Catalina færist yfir í stjörnumerkið Veiðihundana

  • 12. janúar — Halastjarnan Catalina næst Jörðu

  • 14. janúar — Halastjarnan Catalina færist yfir í stjörnumerkið Stórabjörn (Karlsvagninn)

  • 16. janúar — Halastjarnan Catalina 2° suðvestur af vetrarbrautinni Messier 101

  • 17. janúar — Halastjarnan Catalina rúmar 3° norðaustur af tvístirninu Mizar í Karlsvagninum

  • 21. janúar — Halastjarnan Catalina færist yfir í stjörnumerkið Drekann

Tengt efni

– Sævar Helgi Bragason