Mátturinn við fæðingu stjörnu

Sævar Helgi Bragason 16. des. 2015 Fréttir

Í tilefni af sjöundu Stjörnustríðsmyndinni, Star Wars Episode VII: The Force Awakens, hafa stjörnufræðingar birt mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA af tvíeggja geimgeislasverði.

  • Herbig-Haro 24

Á myndinni er ung stjarna, falin á bakvið einskonar Jedi rykskykkju, að skjóta tveimur máttugum strókum út í geiminn.

Geimgeislasverðið sem hér sést er ekki að finna í vetrarbraut í órafjarlægð, heldur í okkar eigin Vetrarbraut, nánar tiltekið í Óríon B sameindaskýinu sem er í aðeins um 1350 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Óríon.

Strókarnir minna um margt á tvíeggja geislasverð Darth Maul í Star Wars Episode I. Þeir eru ólgandi efnisstrókar sem nýmynduð stjarna inni í gas- og rykhulunni skýtur frá sér út í geiminn.

Mátturinn er æði öflugur í strókunum. Þeir þjóta burt frá stjörnunni á gríðarlegum hraða og rekast á nærliggjandi efni svo höggbylgja myndast sem hitar gasið í kring upp í mörg þúsund gráður.

Strókar sem þessir eru kallaðir Herbig-Haro fyrirbæri en það sem hér sést er nefnt HH 24.

Þeir verða til þegar stjarna er að fæðast. Þá dregst efnið niður í átt að stjörnufóstrinu sem snýst svo skífa myndast í kringum hana. Úr þessari skífu verða til reikistjörnur.

Á þessu þroskastigi er stjarnan með matarlyst á við Jabba the Hutt. Hún dregur til sín gas úr skífunni á slíkum hraða að hluti þess streymir upp að pólsvæðum stjörnunnar og skýst þaðan í sitt hvora áttina út í geiminn.

Hægra megin við földu stjörnuna sjást tvö önnur ungstirni í myndun, báðar með sína eigin geislastróka.

Herbig-Haro 24

- Sævar Helgi Bragason