Glitrandi stjörnur í Trumpler 14

Sævar Helgi Bragason 21. jan. 2016 Fréttir

Á nýrri mynd frá Hubblessjónaukanum sést stjörnuþyrpingin Trumpler 14 sem hýsir eina heitustu stjörnu sem vitað er um.

  • Lausþyrpingin Trumpler 14 í Kjalarþokunni

Á þessari nýju mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést stjörnuþyrpingin Trumpler 14. Þyrpingin er einn stærsti hópur heitra, efnismikilla og bjartra stjarna í Vetrarbrautinni okkar og geymir raunar sumar af björtustu og heitustu stjörnum Vetrarbrautarinnar.

Í Vetrarbrautinni er vitað um tæplega 1100 lausþyrpingar stjarna en ljóst að þær eru miklu fleiri. Trumpler 14 er ein þeirra. Hún er í um 8000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í Kjalarþokunni sem sést frá suðurhveli Jarðar.

Trumpler 14 er um 500.000 ára gömul stjörnuþyrping. Til samanburðar er Sjöstirnið, ein frægasta stjörnuþyrpingin á himninum, um 115 milljón ára. Trumpler 14 er því ekki aðeins stærsta þyrpingin í Kjalarþokunni heldur einnig sú yngsta.

Í þyrpingunni er eitt stærsta safn ungra, massamikilla, blá-hvítra bjartra stjarna í Vetrarbrautinni okkar. Stjörnurnar í henni brenna vetniseldsneyti sínu hratt og endast því í einungis nokkrar milljónir ára áður en þær deyja sem sprengistjörnur.

Þótt stjörnurnar endist stutt setja þær mark sitt á umhverfið. Frá þeim streymir öflugur hraðskreiður vindur sem rekst á efni í kring. Til verða höggbylgjur sem hita gasið í kring upp í milljónir gráða svo það geislar frá sér röntgengeislum. Stjörnuvindarnir geta jafnframt myndað eyður í nálægum gas- og rykskýjum og hrundið af stað myndun nýrra stjarna.

Talið er að bogadregna skýið neðst á myndinni hafi myndast af völdum stjörnuvinda. Skýið verður til þegar vindur blæs frá nálægri stjörnu, Trumpler 14 MJ 2018 sem þeysist um geiminn á 350.000 km hraða á klukkustund.

Stjörnufræðingar áætla að í Trumpler 14 séu um 2000 stjörnur. Sumar eru aðeins einn tíundi af massa sólarinnar á meðan aðrar eru mörgum sinnum massameiri en sólin.

Bjartasta stjarnan í Trumpler 14, sem jafnframt er bjartasta stjarnan á myndinni, kallast HD 93129Aa. Hún er tvístirni en stærri og bjartari stjarnan er af O-gerð og meira en tveimur milljón sinnum skærari en sólin og 80 sinnum massameiri. Yfirborðshitastig hennar er meira en 50.000°C. HD 93129Aa er því ein skærasta og heitasta stjarnan í Vetrarbrautinni okkar.

Trumpler 14 í Kjalarþokunni
Staðsetning Trumpler 14 stjörnuþyrpingarinnar í Kjalarþokunni. Mynd: ESO

– Sævar Helgi Bragason