Nýr Stjörnufræðivefur tekinn í notkun

Sævar Helgi Bragason 13. sep. 2010 Fréttir

Í dag opnaði Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, nýjan og stórlega endurbættan Stjörnufræðivef.

  • Stjörnufræðivefurinn

Í dag opnaði Katrín Jakobsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðherra, nýjan Stjörnufræðivef. Vefurinn var opnaður á sama tíma og Setbergsskóla var færður fyrsti Galíleósjónaukinn að gjöf. Vefurinn var útbúinn af Hugsmiðjunni og styðst við Eplica 2 vefumsjónarkerfið.

Stjörnufræðivefurinn er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun sem var settur á laggirnar í febrúar árið 2004. Vefurinn hefur síðan tekið heilmiklum og góðum breytingum.

Hugsmiðjan, fyrirtæki á sviði vefsvæða og veflausna, á veg og vanda að vefnum eins og hann lítur út nú. Vefinn hannaði Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir hjá Hugsmiðjunni og á hún allan heiður að þessu nýja og glæsilega útliti. Vefurinn styðst nú við Eplica 2 vefumsjónarkerfið frá Hugsmiðjunni sem einfaldar mjög alla vinnu við vefinn.

Ýmsar nýjungar fylgja opnun vefsins. Í hverri viku birtast fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjörnufræði frá ESO, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, sem er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð í Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Í sumar var opnaður íslenskur ESO vefur sem segja má að sé angi af Stjörnufræðivefnum. Einnig er okkur sönn ánægja að tilkynna að flestar evrópskar fréttir frá Hubble geimsjónaukanum birtast nú á sama tíma á Stjörnufræðivefnum og í Evrópu.

Hægt er að setja ummæli við fréttir á vefnum í gegnum athugasemdakerfi Facebook. Þannig vonumst við til þess að auka samskipti okkar við lesendur vefsins. Nýja vefnum fylgir líka stuðningur við \LaTeX{} sem er umbrotsmál og ritvinnsluforrit sem er mikið notað af háskólum og vísindastofnunum um allan heim.

Í hverjum mánuði birtum við nýtt Stjörnukort mánaðarins sem sýnir stjörnuhimininn eins og hann lítur út á kvöldin. Til viðbótar er alls konar fróðleikur um reikistjörnurnar, tunglið, stjörnur og vetrarbrautir. Hægt er að sækja nýjasta kortið hér og prenta það út.

Á vefinn hafa bæst fjölmargar nýjar greinar, meðal annars um könnun sólkerfisins, stjörnur, vetrarbrautir og heimsfræði. Einnig er búið að setja upp vefsíðu fyrir íslenska þýðingu á stjörnufræðiforritinu Stellarium. Hægt er að setja inn tíma og skoða himininn frá hvaða stað sem er á jörðinni og jafnvel frá öðrum hnöttum í sólkerfinu!

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason, B.Sc. nemi í jarðfræði við Háskóla Íslands
Sími: 896-1984
Tölvupóstfang: saevar [hjá] stjornuskodun.is

Sverrir Guðmundsson, B.Sc. í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands og nemandi við Menntavísindasvið
Tölvupóstfang: sverrirstjarna [hjá] gmail.com

Ottó Elíasson, B.Sc. nemi í eðlisfræði við Háskóla Íslands
Sími: 663-6867
Tölvupóstfang: ottoel [hjá] gmail.com

Tryggvi Kristmar Tryggvason, B.Sc. nemi í eðlisfræði við Háskóla Íslands
Sími: 847-5479
Tölvupóstfang: kibbi10 [hjá] gmail.com

Kári Helgason, doktorsnemi í stjarneðlisfræði við Marylandháskóla
Tölvupóstfang: karigeimfari [hjá] gmail.com