Stjörnusjónauki í alla skóla landsins

Átak sem miðar að eflingu raunvísinda í skólum

Sævar Helgi Bragason 13. sep. 2010 Fréttir

Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og landsnefnd um ár stjörnufræðinnar 2009 hafa ákveðið að færa öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf.
  • mynd19

Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og landsnefnd um ár stjörnufræðinnar 2009 hafa, með aðstoð góðra aðila, ákveðið að færa öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf. Tilgangurinn er að efla áhuga íslenskra nemenda á raunvísindum og gera þeim kleift að sjá undur alheimsins með eigin augum. Með sjónaukanum fylgir heimildarmynd með íslenskum texta um 400 ára sögu stjörnusjónaukans. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti fyrsta sjónaukann við athöfn í Setbergsskóla í dag. Á sama tíma var nýr Stjörnufræðivefur tekinn í notkun.

Hvatinn að því að sjónaukarnir eru gefnir skólum er Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 [1]. Í tilefni þess tók alþjóðlegur hópur stjarnvísindamanna, stjörnuáhugamanna og raunvísindakennara sig til og útbjó sérstakan stjörnusjónauka með það í huga að gera undur alheimsins aðgengileg fyrir sem flesta. Sjónaukinn er nefndur Galíleósjónaukinn eftir ítalska vísindamanninum Galíleó Galílei sem hratt af stað vísindabyltingu þegar hann beindi sínum heimasmíðaða sjónauka til himins.

„Þetta er eitt stærsta vísindamiðlunarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi“ segir Sævar Helgi Bragason, umsjónarmaður verkefnisins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. „Markmiðið er að gefa öllum íslenskum skólabörnum færi á að sjá það sem Galíleó Galílei sá fyrir 400 árum og meira til. Með því getum við vonandi eflt áhuga íslenskra skólabarna á raunvísindum.“

Galíleósjónaukinn er miklu betri sjónauki en sá sem Galíleó smíðaði. Hann er 50mm linsusjónauki sem gefur ýmist 25-falda eða 50-falda stækkun. Sjónsvið hans er nokkuð vítt sem gerir hann þægilegan og einfaldan í notkun. Með sjónaukanum geta íslensk skólabörn staðfest sólmiðjukenninguna, virt fyrir sér gígótt landslag tunglsins, séð tungl á sveimi um Júpíter og greint hringa Satúrnusar en þeir ullu Galíleó miklum heilabrotum á sínum tíma. Auk þess er hægt að skoða fæðingarstaði stjarna, stjörnuþyrpingar og vetrarbraut í milljóna ljósára fjarlægð.

Galíleósjónaukinn fer ósamsettur í skólana. Hægt er að taka hann í sundur og setja saman aftur. Sjónaukinn er þess vegna framúrskarandi kennslutæki sem hægt er að nýta til kennslu í stærðfræði, eðlisfræði, sögu, heimspeki og stjörnufræði. „Það er óneitanlega lærdómsríkara og skemmtilegra að skoða himininn með sjónauka sem maður hefur sjálfur sett saman“ segir Sævar. „Um leið gefst nemendum færi á að læra um það hvernig sjónaukinn virkar.“

Auk sjónaukans fá allir skólar landsins að gjöf heimildarmyndina Horft til himins (Eyes on the Skies) sem fjallar um 400 ára sögu stjörnusjónaukans. Myndin var gefin út af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga í tilefni stjörnufræðiársins. Myndin er með íslenskum texta.

Námsefni og leiðbeiningar um notkun sjónaukans hefur verið útbúið og er það aðgengilegt á Stjörnufræðivefnum en nýuppgerður vefur var opnaður í dag (stj1002). Nýi vefurinn er glæsilegur en hann var hannaður af Hugsmiðjunni og notast við Eplica 2 vefkerfið. Á vefnum er ítarlegur fróðleikur um stjörnufræði og stjörnuskoðun sem kennarar, nemendur og almenningur getur nýtt sér.

Verkefnið er stórt í sniðum og hefði aldrei verið mögulegt án ómetanlegs stuðnings nokkurra stofnana, fyrirtækja og einkaaðila. Þessir aðilar [2] hafa lagt verkefninu til það fé sem þurfti til að það yrði að veruleika. Meðal stuðningsaðila eru Alcoa Fjarðaál, Menntamálaráðuneytið og tölvuleikjafyrirtækið CCP.

„Við hjá CCP eigum vísindalegri menntun íslenska skólakerfisins mikið að þakka og teljum aukinn skilning á efnisheiminum og vísindum einn af máttarstólpum framfara og velmegunar á 21. öldinni“ segir Torfi Frans Ólafsson listrænn stjórnandi hjá CCP. „Við fögnum tækifærinu að fá að taka þátt í að efla áhuga barna á raunvísindum á þennan hátt og vonum að meðal þeirra leynist fólk sem seinna mun í gegnum menntun sína og störf, hjálpa okkur að heimsækja þessa hnetti sem sjónaukarnir gera þeim kleift að sjá.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti fyrstu sjónaukana við athöfn í Setbergsskóla í dag. „Að skoða stjörnurnar hjálpar okkur að skilja undur alheimsins en færir okkur líka nær sannleikanum um okkur sjálf“ sagði Katrín að þessu tilefni.

Næstu vikur og mánuði verður sjónaukanum dreift til allra grunn- og framhaldsskóla landsins [3]. Kennurum býðst jafnframt að sækja námskeið á vegum Stjörnuskoðunarfélagsins og Stjörnufræðivefsins um stjörnufræði, stjörnuskoðun og notkun Galíleósjónaukans.

Skýringar

[1] Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 var haldið að frumkvæði Alþjóðasambands stjarnvísindamanna og UNESCO undir kjörorðinu Undur alheimsins. Á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 voru liðin 400 ár frá því Galíleó Galíleí gerði sínar fyrstu stjörnuathuganir með aðstoð sjónauka.

[2] Stuðningsaðilar verkefnisins eru: CCP, Alcoa Fjarðaál, Menntamálaráðuneytið, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, Stjörnufræðivefurinn, Sjónaukar.is, Þorsteinn Ingi Sigfússon, Rannís og Háskóli Íslands.

[3] Áhugasamir geta einnig keypt sjónaukann gegnum vefsíðuna Sjónaukar.is.

Frekari upplýsingar

Stjarnvísindafélag Íslands er félag sérfræðinga og kennara í stjarnvísindum. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er stærsta félag áhugafólks um stjörnufræði og stjörnuskoðun á Íslandi.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Umsjónarmaður verkefnisins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Raunvísindastofnun Háskólans

Dunhaga 3, 107 Reykjavík

Sími: 896-1984

Tölvupóstfang: saevar [hjá] stjornuskodun.is

Sverrir Guðmundsson
Umsjónarmaður verkefnisins og ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Tölvupóstfang: sverrirstjarna [hjá] gmail.com

Einar H. Guðmundsson
Formaður Stjarnvísindafélags Íslands

Raunvísindastofnun Háskólans

Dunhaga 3, 107 Reykjavík.

Símar: 525-4800 og 862-6192

Tölvupóstfang: einar [hjá] raunvis.hi.is

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1001