Brimbrot í Lagarþokunni

Sævar Helgi Bragason 23. sep. 2010 Fréttir

Ný og glæsileg ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýnir hjarta Lagarþokunnar sem glóir fyrir tilstilli orkuríkar geislunar frá nýmynduðum stjörnum.
  • Lagarþokan, M8, Lagoon Nebula

Ný og glæsileg ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýnir hjarta Lagarþokunnar. Nafn þokunnar er látlaust en samt villandi því gasið og rykið í henni glóir fyrir tilstilli orkuríkar geislunar frá nýmynduðum stjörnum.

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys (ACS), einni af myndavélum Hubblessjónaukans, og sýnir stórbrotin mynstur gass og ryks sem sterk geislun frá heitum og ungum stjörnum í miðju Lagarþokunnar (M8) mótar. Þokan dregur nafn sitt af breiðri rykslæðu sem liggur fyrir glóandi gasi þokunnar og minnir um margt á stöðuvatn eða lón.

Þessi formgerð er greinileg á víðmyndum en sést ekki þegar þysjað er að þokunni. Nafn hennar er þrátt fyrir það einkar viðeigandi því í þokunni eru mynstur með sendna áferð.

M8 er feiknastór fæðingarstaður stjarna í fjögurra til fimm þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum og nær hún yfir um eitt hundrað ljósára breitt svæði. Í þokunni falla vetnisský hægt og rólega saman og mynda nýjar stjörnur. Útfjólubláir geislar þeirra ljá gasinu í kring rauðleitan blæ.

Þokunni svipar óneitanlega til sandstrandar þótt flóð og fjara sé ekki orsök rytjulegs útlits. Útfjólublátt ljós mótar þokuna og myndar í henni tignarleg mynstur.

Á undanförnum árum hafa stjörnufræðingar rýnt í leyndarmál Lagarþokunnar og fundið óyggjandi sönnunargögn fyrir því að stjörnur eru að myndast í skýinu.

Ungar stjörnur, sem enn hafa aðsópsskífur, senda endrum og eins frá sér mikla efnisstróka út frá skautum sínum. Þetta eru svonefnd Herbig-Haro fyrirbæri og hafa nokkur slík fundist í þokunni á síðustu árum. Herbig-Haro fyrirbæri styðja kenningar stjörnufræðinga um stjörnumyndun í vetnisskýjum sem þessu.

Lagarþokan er dauf en hana má þó greina með berum augum sem gráan þokuhnoðra skammt frá miðju Vetrarbrautarinnar á stjörnubjörtu kvöldi. Án sjónauka er þokan vart svipur hjá sjón því mannsaugað greinir ekki litadýrðina í því litla ljósi sem frá henni berst. Þokan sést því miður ekki frá Íslandi.

Á 18. öld beindi franski stjörnufræðingurinn Charles Messier sjónum sínum að þokunni. Hún er áttunda fyrirbærið í víðfrægri skrá sem hann hélt yfir þokukennd fyrirbæri á himinhvelfingunni og er því oft nefnd M8. Messier notaði lítinn linsusjónauka til að skoða þokuna en sá gat varla gefið honum meira en ógreinilegar vísbendingar um þau glæsilegu smáatriði sem Hubble geimsjónaukinn birtir okkur.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er samstarfsverkefni NASA og ESA

Tenglar

Tengiliðir

Oli Usher
Junior ESA/Hubble Public Information Officer
Garching bei München, Germany

Ottó Elíasson
Sími: 663 6867

Tölvupóstfang: ote1 [hjá] hi.is

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA heic1015