VISTA kannar leyndardóm Einhyrningsins

Sævar Helgi Bragason 06. okt. 2010 Fréttir

Ný og glæsileg innrauð ljósmynd frá VISTA sjónauka ESO sýnir stjörnumyndunarsvæðið Monoceros R2 í stjörnumerkinu Einhyrningnum.

  • Einhyrningurinn, Monoceros R2, VISTA

Á nýrri innrauðri ljósmynd frá VISTA kortlagningarsjónauka ESO sjást tignarlegir glóandi gasþræðir, skuggaþokur og ungar nýmyndaðar stjörnur í stjörnumerkinu Einhyrningnum. Stjörnumyndunarsvæðið nefnist Monoceros R2 og er greypt inn í risastóra skuggaþoku. Séð í sýnilegu ljósi er svæðið að mestu leyti falið á bak við miðgeimsryk en í ínnrauðu ljósi er það stórfenglegt að sjá.

Innan í stórri rykugri skuggaþoku í stjörnumerkinu Einhyrningnum liggur virkt stjörnuhreiður falið. Á himinhvelfingunni virðist hún nálægt Sverðþokunni í Óríon en er í raun tvöfalt lengra frá jörðinni eða í um 2.700 ljósára fjarlægð. Í sýnilegu ljósi sést að hópur massamikilla og heitra stjarna myndar fallegt safn endurskinsþoka þar sem blátt ljós dreifist frá mismunandi hlutum dökku, þokukenndu ytri lögum sameindaskýsins. Flestar nýmyndaðar massamiklar stjörnur eru hins vegar huldar sjónum okkar því þykkt miðgeimsryk gleypir útfjólubláa og sýnilega ljósið sem þær geisla frá sér.

Þessa glæsilegu innrauðu ljósmynd tók VISTA [1], Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (eso0949), frá stjörnustöð ESO í Paranal í norðurhluta Chile. VISTA skyggnist í gegnum þykk ryklög og sýnir ótrúleg smáatriði í rykskýinu sem sterk geislun og öflugur stjörnuvindur frá heitum ungum stjörnum hefur mótað.

„Þegar ég sá þessa mynd fyrst sagði ég bara „Vá!“. Það kom mér á óvart að sjá svo greinilega alla rykþræðina í kringum Monoceros R2 þyrpinguna og strókana sem stafa frá ungum rykþöktum stjörnum“segir Jim Emerson, stjörnufræðingur við Queen Mary háskóla í Lundúnum og yfirmaður VISTA samvinnuverkefnisins.

eso1039c
Nokkur svæði í Monoceros R2. Mynd: ESO/J. Emerson/VISTA

Monoceros R2 hefur þéttan kjarna sem er tæplega tvö ljósár í þvermál. Þar eru ungar og mjög massamiklar stjörnur þétt saman sem og þyrping bjartra uppspretta innrauðs ljóss, sennilega nýmyndaðra stjarna sem enn eru umluktar rykskífum. Þetta svæði er á miðri mynd. Við nánari athugun sést að þar eru fjölmargar stjörnur og líka áberandi rauðleit svæði sem benda til útgeislunar frá vetnissameindum.

Bjarta skýið, hægra megin við miðju er NGC 2170. Hún er bjartasta endurskinsþokan á þessu svæði. Í sýnilegu ljósi er þokan björt og birtist sem ljósblá eyja í svörtu hafi. Á innrauða sviðinu sést að þar leynist ofsafengin stjörnuverksmiðja þar sem hundruð massamikilla stjarna eru í mótun. NGC 2170 sést naumlega í gegnum lítinn stjörnusjónauka. Hana fann William Herschel árið 1784 frá Englandi. Þokan sést frá Íslandi.

Stjörnur verða til í stórum gas- og rykskýjum, oft hundruð ljósára í þvermál. Þau ferli taka venjulega nokkrar milljónir ára. Miðgeimsryk er ógegnsætt í sýnilegu ljósi svo nauðsynlegt er að gera athuganir með innrauðu ljósi og útvarpsbylgjum til að öðlast skilning á fyrstu stigum stjörnumyndunar. Á hverri nóttu kortleggur VISTA himinhvolfið á kerfisbundinn hátt og safnar í senn um 300 gígabætum af gögnum til úrvinnslu. Þessi stjörnumyndunarsvæði verða svo könnuð nánar með Very Large Telescope (VLT), Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og European Extremely Large Telescope (E-ELT) í framtíðinni.

Skýringar

[1] VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar. Safnspegill hans er 4,1 metrar í þvermál. Á sjónaukanum er 67 milljón pixla innrauð myndavél, sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Sjónaukanum er tileinkaður kortlagningu himins og hófst hún snemma árs 2010. VISTA er staðsettur skammt frá Very Large Telescope ESO og býr þess vegna við sömu framúrskarandi aðstæður sem þar ríkja til stjörnuathugana. Á þessu svæði í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum þurrasta stað jarðar, verður E-ELT sjónaukinn reistur á Cerro Armazones í aðeins um 20 km fjarlægð frá Cerro Paranal.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, Paranal, La Silla, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: rhook[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1039.