Bókin Alheimurinn komin út

Sævar Helgi Bragason 22. okt. 2010 Fréttir

Út er komin stórglæsileg, yfirgripsmikil og aðgengileg bók um alheiminn sem ætti að vera til á hverju heimili.

  • Alheimurinn_leidsogn_i_mali_og_myndum

Forlagið hefur gefið út bókina Alheimurinn – Leiðsögn í máli og myndum. Í bókinni er gríðarlega mikill fróðleikur, settur fram á aðgengilegan og aðlaðandi hátt fyrir lesendur á öllum aldri.

Alheimurinn er úr vinsælli og eigulegri ritröð bóka á borð við Jörðina og Dýrin. Bókin er þrískipt. Í Inngangi er fjallað um um grunnhugtök í stjörnufræði og eðlisfræði og eru þar fjölmargir góðir kaflar. Sérstaklega er kaflinn um eðlis- og efnafræðileg hugtök eins og efni, orku, krafta og rúm og tíma vel heppnaður, aðgengilegur og með góðum skýringarmyndum.

Vegvísir um alheiminn er annar hluti bókarinnar. Þar er fjallað um sólkerfið okkar, stjörnur, stjörnuþokur, Vetrarbrautina okkar og allt sem leynist handan hennar. Auðvelt er að sökkva sér ofan í landslag reikistjarna sólkerfisins og tungla þeirra – nokkuð sem hvergi er hægt að lesa sér til um annars staðar á íslensku, nema ef til vill hér á Stjörnufræðivefnum. Kaflinn sem skýrir frá myndun, þróun og ævi stjarna er sérlega skemmtilegur og hið sama má segja um þann sem fjallar um Vetrarbrautina okkar og aðrar vetrarbrautir.

Næturhiminninn er þriðji og síðasti hluti bókarinnar. Þar er fjallað um öll stjörnumerki himinhvolfsins og himinhvolfið sýnt á stjörnukortum. Bókin er dálítið stór og þung og því ekki beinlínis heppileg til að hafa með út í stjörnuskoðun. Til þess er Íslenskur stjörnuatlas mun betri kostur. Kortin eru engu að síður gagnleg til þess að læra á himinhvolfið og stjörnumerkin .

Bókina þýddi Karl Emil Gunnarsson og tókst vel til. Útgáfa bókarinnar markar ákveðin tímamót því í bókinni er fjallað um marga þætti stjarnvísinda sem aldrei hafa verið gerð skil á íslensku. Alheimurinn er því sannkallaður hvalreki á fjörur stjörnuáhugafólks.

Alheimurinn er stórglæsileg, yfirgripsmikil en aðgengileg bók um undur alheimsins, skrifuð á mannamáli. Bókin er ríkulega skreytt flennistórum ljósmyndum frá stærstu stjörnusjónaukum heims og einföldum skýringarmyndum sem njóta sín vel og gleðja bæði augu og heila. Þessar myndir gera bókina sérstaklega aðlaðandi og fallega.

Alheimurinn – Leiðsögn í máli og myndum er frábær fróðleiksnáma um allt sem viðkemur stjörnufræði. Við mælum heilshugar með henni. Án efa flottasta jólagjöfin í ár (ásamt stjörnusjónauka auðvitað)!

Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum á Íslandi. Hún er á tilboði til áramóta og kostar 12.990 kr.

Tenglar