Hubble skyggnist 10.000 ár inn í framtíðina

Sævar Helgi Bragason 28. okt. 2010 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa nú notað Hubblessjónaukann til að kortleggja hreyfingar stjarna 10.000 ár fram í tímann.

  • heic1017a

Stjörnufræðingar eru vanir því að líta milljónir ára aftur í tímann. Nú hafa stjarnvísindamenn hins vegar notað Hubble geimsjónauka NASA og ESA til að skyggnast þúsundir ára inn í framtíðina. Með því að kafa djúpt inn að miðju kúluþyrpingarinnar Omega Centauri tókst þeim að reikna út hvernig stjörnurnar þar, munu færast um þyrpinguna næstu 10.000 árin.

Allt frá því að Ptólemaíos skrásetti Omega Centauri fyrir um 2.000 árum hefur kúluþyrpingin vakið athygli stjörnuáhugafólks. Ptólemaíos taldi að Omega Centauri væri stök stjarna og hefði sennilega aldrei getað ímyndað sér að „stjarnan“ var í raun og veru sveimur nærri 10 milljóna stjarna sem allar snerust umhverfis sameiginlega þyngdarmiðju.

Í þyrpingunni eru stjörnurnar svo þétt saman að stjörnufræðingar urðu að hinkra eftir því að Hubble geimsjónaukanum yrði skotið á loft, áður en þeir gátu skyggnst djúpt í kjarna þyrpingarinnar og greint þar stakar stjörnur. Hubble hefur svo skarpa sjón að hægt er að mæla hreyfingar margra þessara stjarna yfir fremur stutt tímabil.

Með því að mæla nákvæmlega hreyfingar stjarna í stórum þyrpingum er hægt að draga upp mynd af því hvernig slíkir hópar stjarna urðu til snemma í sögu alheims og einnig hvort meðalstórt svarthol, um það bil 10.000 sinnum massameira en sólin okkar, gæti leynst innan um stjörnumergðina.

Stjarnvísindamennirnir grannskoðuðu ljósmyndir sem teknar voru yfir fjögurra ára tímabili með Advanced Camera for Surveys í Hubble geimsjónaukanum. Um leið tókst þeim að gera nákvæmustu mælingar sem gerðar hafa verið á hreyfingum stjarna í þyrpingunni. Þetta er lang umfangsmesta kortlagning á hreyfingum stjarna í stjörnuþyrpingu sem hefur verið framkvæmd hingað til. (Sjá myndskeið.)

„Mælingar á hárfínum færslum stjarna yfir aðeins fjögurra ára tímabil krefst háþróaðs hugbúnaðar“ segir Jay Anderson stjörnufræðingur við Space Telescope Science Institute í Baltimore í Bandaríkjunum sem stóð að rannsókninni ásamt samstarfsmanni sínum Roeland van der Marel. „Þegar allt kemur til alls er það þó fyrst og fremst skörp sjón Hubblessjónaukans sem er lykillinn að mælingum á hreyfingum stjarna í þyrpingunni.“

„Með Hubble getum við mælt hreyfingar stjarnanna í þrjú eða fjögur ár með meiri nákvæmni en hægt er að gera með sjónaukum á jörðu niðri, jafnvel þótt við mældum í 50 ár“ bæti Van der Marel við.

Stjörnufræðingarnir notuðu ljósmyndir frá Hubble geimsjónaukanum sem teknar voru á milli áranna 2002 og 2006 til að útbúa líkan af hreyfingum stjarna í þyrpingunni. Hreyfimyndin sýnir færslu stjarnanna næstu 10.000 árin.

Árið 1867 komust menn að raun og sanni um að Omega Centauri væri kúluþyrping, ein af ríflega 150 slíkum sem svífa umhverfis Vetrarbrautina okkar. Þyrpingin er sú stærsta og bjartasta sem fylgir Vetrarbrautinni og ein fárra sem sjást með berum augum. Omega Centauri er í stjörnumerkinu Mannfáknum sem er á suðurhveli himins. Hún sést því miður ekki frá Íslandi.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA, J. Anderson og R. van der Marel (STScI)

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA heic1017