Atóm fyrir frið: Árekstur vetrarbrauta

Sævar Helgi Bragason 10. nóv. 2010 Fréttir

Stjörnufræðingar við ESO hafa útbúið nýja og glæsilega ljósmynd af vetrarbrautinni NGC 7252 sem stundum er nefnd Atóm fyrir frið.

  • Atóm-fyrir-frið: árekstur vetrarbrauta

Stjörnufræðingar við European Southern Observatory hafa útbúið nýja og stórglæsilega ljósmynd af vetrarbrautinni NGC 7252 sem stundum er nefnd Atóm-fyrir-frið (Atoms-for-Peace). Þessi sérkennilega vetrarbraut er afleiðing áreksturs tveggja vetrarbrauta. Hún er kjörið viðfangsefni stjörnufræðinga sem rannsaka hvernig samrunar vetrarbrauta hafa áhrif á þróun alheims.

Atóm-fyrir-frið er heiti á tveimur vetrarbrautum sem renna nú saman í 220 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Vatnsberanum. Vetrarbrautin er líka þekkt undir skráarheitunum NCG 7252 og Arp 226 og sést naumlega í stórum áhugamannasjónaukum sem agnarsmár og daufur þokublettur. Myndin sem hér sést var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Árekstrar vetrarbrauta hafa mikil áhrif á það hvernig alheimurinn þróast. Rannsóknir á þeim gefur auk þess mikilvægar vísbendingar um uppruna vetrarbrauta. Árekstarnir gerast mjög hægt og standa yfir í hundruð milljónir ára. Stjörnufræðingar hafa þess vegna nægan tíma til að fylgjast með þeim.

Þessi mynd af vetrarbrautinni sýnir glöggt þá ringulreið sem ríkir í árekstrinum. Í bakgrunni glittir í fjölda fjarlægari vetrarbrauta. Frá vetrarbrautinni liggur hali stjarna, gass og ryks sem er afleiðing flókins samspils þyngdartogsins milli vetrarbrautanna. Á myndinni sjást líka tignarlegar skeljar sem urðu til þegar gas og stjörnur köstuðust út úr vetrarbrautunum og hreiðruðu um sig í kringum sameiginlegan kjarna vetrarbrautanna. Heilmikið efni þaut út í geiminn en á öðrum svæðum þjappaðist efnið saman og hratt af stað mikilli hrinu stjörnumyndunar. Í kjölfarið mynduðust hundruð ungra stjörnuþyrpinga, milli 50 og 500 milljón ára gamlar, sem taldar eru undanfarar kúluþyrpinga.

Samskonar örlög bíða okkar eigin vetrarbrautar. Eftir um þrjá til fjóra milljarða ára munu vetrarbrautin okkar og Andrómeduvetrarbrautin rekast saman á svipaðan hátt og Atóm-fyrir-frið vetrarbrautirnar. Þó er engin ástæða til að örvænta. Vegalengdir milli stjarna í vetrarbrautum eru svo gífurlegar að nánast er útilokað að sólin okkar rekist á aðra stjörnur í samrunanum.

Í desember 1953 hélt Dwight Eisenhower þáverandi Bandaríkjaforseti ræðu sem kölluð var „Atoms for peace“. Í ræðunni mælti forsetinn fyrir notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, sem þá var sérstaklega viðkvæmt og umdeilt mál. Ræðan og ráðstefna sem haldin var í kjölfarið olli straumhvörfum í vísindasamfélaginu og víðar og var vetrarbrautin NGC 7252 nefnd eftir henni. Nafnið er að mörgu leyti mjög viðeigandi. Lögun hennar er afleiðing samruna tveggja vetrarbrauta sem hafa myndað eitthvað nýtt og mikilfenglegt, ekki ósvipað því sem gerist í þegar tveir atómkjarnar renna saman. Risalykkjurnar í kringum vetrarbrautina líkjast líka óneitanlega rafeindaskýi umhverfis atómkjarna.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germnay
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1044.

Tengd myndskeið