Glæsilegar myndir af rauða blettinum

Sævar Helgi Bragason 25. nóv. 2010 Fréttir

Stjörnuáhugamaðurinn Björn Jónsson hefur útbúið glæsilegar myndir af rauða blettinum á Júpíter
  • raudi_bletturinn_vgr2_1280x960_19790708_pc

Björn Jónsson, stjörnuáhugamaður og geimlistamaður, hefur útbúið glæsilegar ljósmyndir af rauða blettinum á Júpíter. Myndirnar voru settar saman úr ljósmyndum sem Voyager 2. tók úr 1,45 milljón km fjarlægð frá Júpíter þann 8. júlí 1979. Þetta eru bestu myndir sem útbúnar hafa verið af rauða blettinum hingað til.

„Um er að ræða mynd samsetta úr 15 minni myndum þar sem hver þessara 15 mynda samanstendur af þremur myndum teknum í appelsínugulum, grænum og fjólubláum litsíum. Í heild eru þetta því 45 „hráar“ myndir“ segir Björn.

Björn birti aðra mynd af rauða blettinum fyrir nokkrum vikum sem vakti talsverða athygli en hefur nú bætt um betur. „Þessi mynd er talsvert nákvæmari en Voyager 1. myndin. Þessi munur í nákvæmni skiptir ekki svo miklu máli – öllu mikilvægari er sá munur að litirnir í þessari nýju mynd eru mun betri, því öfugt við Voyager 2. tók Voyager 1. ekki neinar grænar myndir sem ég gat notað.“

Myndirnar eru í tveimur útgáfum. Önnur er í nokkurn veginn réttum litum og birtuskilum (contrast) en hina er búið að skerpa talsvert.

Af reikistjörnum sólkerfisins hefur Júpíter lang litríkasta lofthjúpinn. Þrátt fyrir að heilmikil gögn frá gervitunglum liggi fyrir er ekki enn ljóst hvað veldur litbrigðum skýjanna. Kristallar ammóníaks og ammóníaks-vetnissúlfíðs eru hvítir á litinn og hljóta þar af leiðandi að vera ljósleitu skýin. Önnur efni, til dæmis fosfór, brennisteinn og hugsanlega vetniskolefni, skipta sennilega litum þegar útfjólublátt ljós frá sólinni skín á þau og valda þannig brúnu, rauðu og appelsínugulu litbrigðunum.

Við óskum Birni til hamingju með þessar glæsilegu myndir og bíðum spenntir eftir næsta listaverki frá honum.

Þetta er tilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1010.

Tengdar myndir

  • Samsett mynd Björns Jónssonar af rauða blettinum á JúpíterSamsett mynd Björns Jónssonar af rauða blettinum á Júpíter. Búið er að auka birtuskilin.
  • Samsett mynd Björns Jónssonar af rauða blettinum á JúpíterSamsett mynd Björns Jónssonar af rauða blettinum á Júpíter. Litir og birtuskil myndarinnar eru því sem næst rétt.

Tengt efni