Jólagjafir stjörnuáhugafólks

Sævar Helgi Bragason 09. des. 2010 Fréttir

Hvað ætti ég að gefa stjörnuáhugamanni í jólagjöf? Hér er listi yfir góðar og gagnlegar gjafir sem ið mælum óhikað með.

  • NGC 2264 og Jólatrésþokan. Mynd: ESO

Um þetta leyti árs fáum við oft fyrirspurnir um hvað hægt sé að gefa stjörnuáhugafólki í jólagjöf. Hér höfum við tekið saman lista yfir góðar og gagnlegar jólagjafir sem við mælum óhikað með. Hér fyrir neðan er að finna góðar bækur, sjónauka og fylgihluti sem ættu að gleðja stjörnuáhugafólk á öllum aldri.

Stjörnusjónaukar

Galíleósjónaukinn

galileoscope
Galíleósjónaukinn

Stjörnusjónaukinn sem við gáfum öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi er kjörin jólagjöf. Galíleósjónaukinn er ódýr en vandaður linsusjónauki með 50mm ljósopi og 25x og 50x stækkun (með Barlow linsu). Með Galíleósjónaukanum er leikur einn að skoða gígótt landslag tunglsins, fjögur tungl á hringsóli umhverfis Júpíter, kvartilaskipti Venusar, hringa Satúrnusar, jafnvel stjörnuþokur, þyrpingar og vetrarbrautir í órafjarlægð.

Galíleósjónaukinn er ekki leikfangasjónauki, heldur alvöru stjörnusjóauki sem stjarnvísindamenn, stjörnuáhugamenn og raunvísindakennarar útbjuggu í sameiningu í tilefni Alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009. Sjónaukinn kemur ósamsettur en hér á Stjörnufræðivefnum eru íslenskar leiðbeiningar um samsetningu hans.

Hvar fæst hann? Sjónaukar.is

Verð kr.: 5.990,- (án þrífótar)
Verð kr.: 9.990,- (með þrífæti)

SkyWatcher Heritage

DOB-76Z
SkyWatcher Heritage stjörnusjónauki

Góður stjörnusjónauki fyrir unga sem aldna sem vilja sjá aðeins meira en Galíleósjónaukinn sýnir. Sérstaklega meðfærilegur 76mm spegilsjónauki á Dobsonstæði sem er sáraeinfaldur í notkun. Með sjónaukanum getur þú skoðað gíga og fjöll á tunglinu, Galíleótunglin við Júpíter og hringa Satúrnusar auk fjölda annarra forvitnilega fyrirbæra himingeimsins. Hafðu þó í huga að þú getur ekki notað hann sem útsýnissjónauka að degi til. Með sjónaukanum fylgir:

  • 5x24 leitarsjónauki

  • 25mm augngler (12x stækkun)

  • 10mm augngler (30x stækkun)

  • Tímaritið Undur alheimsins

Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness mæla heilshugar með þessum fína stjörnusjónauka. Við mælum líka með því að þú eignist eitt annað augngler með honum til að auka stækkunina, t.d. 6mm augngler sem gefur 50x stækkun.

Hvar fæst hann? Sjónaukar.is, Sjónvarpsmiðstöðin, Ljósgjafinn Akureyri

Verð kr.: 13.900,-

Celestron Travelscope 70

Travel-Scope-70-Portable-Telescope-Photo
Celestron Travelscope 70

Flottur linsusjónauki sem nýtist bæði í stjörnuskoðun og til fugla- og útsýnisskoðunar. Sjónaukinn er mjög meðfærilegur, enda hugsaður til að hafa með í ferðalög, og sáraeinfaldur í notkun. Með sjónaukanum eru tunglið, Júpíter og Satúrnus í seilingarfjarlægð, sem og bjartari djúpfyrirbæri eins og Sverðþokan í Óríon, Andrómeduvetrarbrautin og Sjöstirnið.

Sjónaukanum fylgir þrífótur og bakpoki auk tveggja augnglerja sem gefa 20x og 40x stækkun. Einnig fylgir sjónaukanum The Sky X hugbúnaðurinn og tímaritið Undur alheimsins (hjá söluaðilum Sjónaukar.is). Við mælum heilshugar með þessum fína sjónauka. Við mælum líka með því að þú eignist eitt annað augngler með honum til að auka stækkunina, t.d. 6mm sem gefur 67x stækkun. Án nokkurs vafa fín kaup.

Hvar fæst hann? Sjónaukar.is, Sjónvarpsmiðstöðin, Ljósgjafinn Akureyri

Verð kr.: 15.990,-

SkyWatcher Skyliner 150p

skywatcher_skyliner150p
SkyWatcher Skyliner 150p Dobsonsjónauki

Frábær stjörnusjónauki fyrir byrjendur sér í lagi unga stjörnuáhugamenn. Sjónaukinn er sáraeinfaldur í notkun og ótrúlega meðfærilegur, jafnvel þótt hann hafi 6 tommu ljósop. Fókusinn er einfaldur og þægilegur sem og leitarsjónaukinn sem er mjög góður. Sjónaukinn er mjög stöðugur og hægt er að sitja við hann þegar verið er að skoða himininn.

Með þessum frábæra sjónauka sérðu bjartar og skarpar myndir af tunglinu og reikistjörnunum. Auðvelt er að sjá tungl og skýjabelti Júpíters, hringakerfi Satúrnusar og fín smáatriði á Mars á borð við pólhettur, ský og dökk- og ljósleit svæði.

Djúpfyrirbæri eins og stjörnuþokur, stjörnuþyrpingar og vetrarbrautir sjást vel með þessum sjónauka þar sem hann hefur nokkuð stórt ljósop.

Með sjónaukanum fylgja tvö augngler sem gefa 48x og 120x stækkun. Við mælum með því að þau kaupir eitt annað augngler til viðbótar, t.d. 15mm eða 12,5mm auk tunglsíu.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn mæla sérstaklega með þessum frábæra byrjendasjónauka.

Þetta er besti byrjendasjónaukinn sem völ er á.

Hvar fæst hann? Sjónaukar.is, Sjónvarpsmiðstöðin

Verð kr.: 49.900,-

Bækur

Alheimurinn

Alheimurinn-175x208Alheimurinn er stórglæsileg, yfirgripsmikil en aðgengileg bók um undur alheimsins, skrifuð á mannamáli. Bókin er ríkulega skreytt flennistórum ljósmyndum frá stærstu stjörnusjónaukum heims og einföldum skýringarmyndum sem njóta sín vel og gleðja bæði augu og heila. Bókin er frábær fróðleiksnáma um allt sem viðkemur stjörnufræði. Við mælum heilshugar með henni.

Án efa flottasta jólagjöfin í ár (ásamt stjörnusjónauka auðvitað)!

Hvar fæst bókin? Í öllum bókaverslunum

Verð kr.: Á tilboðsverði fyrir jólin í bókaverslunum

Nútíma stjörnufræði

nutima_stjornufraediÞessi vinsæla bók um stjörnufræði er nú komin í 2. útgáfu, talsvert aukin og endurbætt og aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á hinum ýmsu fyrirbærum alheimsins, allt frá sólkerfinu og stjörnunum til svarthola, nifteindastjarna og reginþyrpinga vetrarbrauta. Hvers vegna eru reikistjörnurnar svo fjölbreyttar? Hvers vegna skína Sólin og stjörnurnar? Hvernig tengist Vetrarbrautin uppruna lífsins? Hversu algengir eru lífvænir hnettir? Hvað álíta stjarnfræðingar um upphaf og endalok alheimsins? Varpað er ljósi á allt þetta og fjölmargt fleira, auk þess sem einstakar stjörnuljósmyndir Snævarrs Guðmundssonar prýða bókina.

Hvar fæst bókin? Í öllum helstu bókaverslunum

Verð kr.: 5.900,-

Almanak Háskóla Íslands 2011

almanak_haskola_islands_2011Almanak Háskóla Íslands hefur komið út samfellt síðan 1837. Þar birtast margs konar upplýsingar sem tengjast stjörnufræði. Má þar nefna tímasetningar á gangi sólar og tungls, upplýsingar um göngu reikistjarnanna og hvenær þær sjást á himninum yfir Íslandi, upplýsingar um björtustu fastastjörnurnar, lítið stjörnukort og margt fleira.

Við hjá Stjörnufræðivefnum notum Almanakið mikið til þess að átta okkur á göngu sólar og tungls og hvaða reikistjörnur sjást á himninum hverju sinni.

Hvar fæst bókin? Í öllum bókaverslunum

Verð kr.: 1.590,-

Geimurinn

geimurinnSérstaklega vel heppnuð bók um stjörnufræði fyrir börn og unglinga úr ritröðinni Vísindaheimurinn sem bókaútgáfan Skrudda gefur út. Ef þú ert að leita eftir ódýrri og góðri bók fyrir yngsta stjörnuáhugafólkið er óhætt að mæla með þessari.

Hvar fæst bókin? Í öllum bókaverslunum

Verð kr.: 1.245,-

Tenglar