Svermur gamalla stjarna

Sævar Helgi Bragason 08. des. 2010 Fréttir

Á nýrri mynd frá ESO sést svermur gamalla stjarna í smáatriðum.

  • Kúluþyrpingin Messier 107 (M107) eða NGC 6171. Mynd: ESO

Um það bil 150 stórar þyrpingar gamalla stjarna, svonefndar kúluþyrpingar, hringsóla í kringum Vetrarbrautina okkar. Á þessari mynd, sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile, sjást smáatriði í kúluþyrpingunni Messier 107. Rannsóknir á þessum svermi gamalla stjarna gerir stjörnufræðingum kleift að skrifa þróunarsögu Vetrarbrautarinnar og átta sig á þróun stjarna.

Kúluþyrpingin Messier 107, einnig þekkt sem NGC 6171, er þétt þyrping gamalla stjarna í um 21.000 ljósára fjarlægð. Í Messier 107 eru þúsundir stjarna samankomnar á svæði í geimnum sem er rétt rúmlega tuttugu sinnum breiðara en sem nemur fjarlægðinni milli sólarinnar og Alfa Centauri, nálægustu fastastjörnunnar. Nú þegar hefur nokkur fjöldi stjarna í þyrpingunni þróast í rauða risa, eitt af lokastigunum í ævi stjarna og sýnast þær gulleitar á þessari mynd.

Kúluþyrpingar eru meðal elstu fyrirbæra alheims. Stjörnurnar í henni urðu allar til úr sömu geimþokunni, nokkurn veginn samtímis, líklega fyrir ríflega 10 milljörðum ára. Allt eru þetta lágmassastjörnur því þær brenna vetnisforðanum sínum mun hægar en risastjörnur. Kúluþyrpingar mynduðust sennilega á sama tíma og hýsilvetrarbrautir sínar og geta því rannsóknir á þeim veitt okkur nokkra innsýn í þróun vetrarbrauta og stjarna.

Stjörnufræðingar hafa rannsakað Messier 107 gaumgæfilega. Þyrpingin var ein af 160 þéttum stjörnusvæðum sem kortlögð voru í Pre-FLAMES kortlagningunni milli 1999 og 2002 með 2,2 metra sjónauka ESO í stjörnustöðinni í La Silla í Chile. Sú kortlagning snerist um leit að heppilegum stjörnum til að rannsaka nánar með FLAMES litrófsritanum á VLT [1]. Með FLAMES er hægt að rannsaka 130 viðfangsefni í einu sem gerir mælitækið sérstaklega heppilegt til litrófsrannsókna á þéttum stjörnusvæðum eins og kúluþyrpingum.

M107 sést ekki með berum augum en sýndarbirtustig hennar er um það bil átta, svo hún sést leikandi með handsjónauka eða litlum stjörnusjónauka. Kúluþyrpingin er 13 bogamínútur í þvermál sem samsvarar 80 ljósárum miðað við fjarlægð hennar. Þyrpingin er í stjörnumerkinu Naðurvalda sem stendur yfir klóm Sporðdrekans á himinhvolfinu. Rúmlega helmingur allra kúluþyrpinga sem tilheyra Vetrarbrautinni okkar eru í þeim stjörnumerkjum sem eru nærri miðju Vetrarbrautarinnar, þ.e. Bogmanninum, Sporðdrekanum og Naðurvalda. Ástæðan er sú að allar kúluþyrpingar eru á ílöngum sporbrautum í kringum miðsvæðið og þar eru mestar líkur á að sjá þær.

Frakkinn Pierre Méchain uppgötvaði Messier 107 í apríl árið 1782 og bætti henni við lista yfir sjö önnur fyrirbæri sem voru ekki í lokaútgáfu Messiersskrárinnar sem birst hafði árið áður. Þann 12. maí árið 1793 fann William Herschel þyrpinguna aftur og tókst þá fyrstum manna að greina sundur stakar stjörnur í þyrpingunni. Það var svo ekki fyrr en árið 1947 sem þyrpingin rataði loks í Messiersskrána og varð 107. fyrirbærið í skránni og nýlegasta stjörnuþyrpingin sem bætt var í hana.

Ljósmyndinni var skeytt saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager í gegnum bláa, græna og nær–innrauðar síur á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Skýringar

[1] Fibre Large Array Multi-Element Spectrograph

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1048.