Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2010

Sævar Helgi Bragason 26. des. 2010 Fréttir

Ár hvert eru þúsundir glæsilegra ljósmynda teknar af undrum alheimsins. Hér eru tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2010.

  • mars_skridur_sandoldur

Stjörnufræði er einstaklega myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða sendiherrum jarðarbúa úti í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2010. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síður vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

Njótið!

10. Leyndardómur Einhyrningsins

Einhyrningurinn, Monoceros R2, VISTA

Þetta glæsilega stjörnumyndunarsvæði er í stjörnumerkinu Einhyrningnum. Á þessari innrauðu ljósmynd frá VISTA kortlagningarsjónauka ESO sjást tignarlegir glóandi gasþræðir, skuggaþokur og ungar nýmyndaðar stjörnur sem venjulega eru okkur hulin sjónum í sýnilegu ljósi en stórfengleg á að líta í innrauðu ljósi.

Þokan er í um það bil 2.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þetta er mjög virkt svæði þar sem nýjar stjörnur verða til. Ungar og heitar stjörnur gefa frá sér orkuríka geislun sem mótar skýið og gefur því þetta fagra en sérkennilega yfirbragð.

Mynd: ESO/J. Emerson/VISTA

9. Teþýs á bak við tignarlegan Títan

tethys_titan

Cassini geimfarið hefur hringsólað umhverfis Satúrnus frá árinu 2004 og hefur frá þeim tíma tekið fjölda stórkostlegra ljósmynda. Hér sést ein glæsileg af tunglunum Teþýs og Títan. Ef vel er að gáð sést Ódysseifur, stærsti gígurinn á Teþýs, á bak við þykkan lofthjúp Títans.

Teþýs var í 2,2 milljóna km fjarlægð frá Cassini þegar þessi mynd var tekin en Títan næstum tvöfalt nær eða um 1 milljón km í burtu. Ljósmyndirnar voru teknar með 18 mínútna millibili.

Mynd: NASA/JPL/Space Science Institute

8. Tunglið ber við sól

transit_FD

Á himinhvolfinu eru sólin og tunglið nánast jafn stór. Í rauninni er sólin 400 sinnum stærra en tunglið en líka 400 sinnum lengra í burtu frá jörðinni. Fyrir kemur að tunglið gengur fyrir sólina, hylur hana að hluta eða í heild og veldur þá sólmyrkva.

Þann 7. október varð óvenjulegur deildarmyrkvi á sólu, aðeins sjáanlegur frá sjónarhóli Solar Dynamics Observatory gervitunglsins. Á þessari óvenjulegu mynd sést mjög heit og orkurík útblá geislun frá sólinni á bak við myrkvað tungl. Ef vel er að gáð sjást gígar og fjöll á brún tunglskífunnar.

Solar Dynamics Observatory hefur stundum verið nefnt Hubblessjónauki fyrir sólina enda útbúin öflugustu myndavélum sem notaðar hafa verið til rannsókna á sólinni. Hér er hægt að sjá kvikmynd af atburðinum.

Mynd: NASA/Goddard Space Flight Center

7. Leysigeisla skotið á miðju Vetrarbrautarinnar

vlt_leisigeisli_yuri_beletsky

Hér sést leysigeisla skotið upp með einum af Very Large Telescope ESO í Paranal-stjörnustöðinni í Chile. Í 90 km hæð örvar leysigeislin natríumatóm efst í lofthjúpi jarðar. Þetta natríum er talið leifar loftsteina sem brenna upp í lofthjúpnum. Við örvunina byrja natríumatóm að glóa og mynda lítinn ljósblett. Sjónaukinn getur fylgst með hvernig ljósbletturinn bjagast vegna ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og leiðrétt lögun speglanna í samræmi við bjögunina.

Þessi tækni nefnist aðlögunarsjóntækni og er eitt mikilvægasta töfrabragð nútíma stjarnvísinda. Með aðlögunarsjóntækni er unnt að draga úr áhrifum lofthjúpsins á gæði athugana og auka þar með greinigetuna. Án aðlögunarsjóntækninnar væri lítið vit í að reisa risasjónauka. Án hennar sæjum við alheiminn í móðu en með henni er mynd okkar af alheiminum hnífskörp.

Yuri Beletsky tók þessa glæsilegu mynd um miðjan ágúst 2010. Þessa nótt var hópur stjarnvísindamanna að rannsaka miðju Vetrarbrautarinnar með hjálp aðlögunarsjóntækni.

Mynd: ESO/Y. Beletsky

6. Vetrarbraut á rönd

potw1029a

Þessa mögnuðu mynd tók Hubble geimsjónaukinn. Hér sérðu hundruð milljarða stjarna frá óvenjulegu sjónarhorni, reyndar svipuðu sjónarhorni og við sjáum okkar eigin Vetrarbraut. Þetta er vetrarbrautin NGC 4452 sem liggur nánast fullkomlega á rönd frá okkur séð. Í miðri skífunni glittir í bjartan kjarna vetrarbrautarinnar en umhverfis ræmuna svífa fleiri milljarðar stjarna í hjúpnum. En ekki er allt sem sýnist. Þarna er líka hellingur af hulduefni sem heldur vetrarbrautinni saman, þótt við sjáum það ekki beint.

Vetrarbrautir koma í ýmsum stærðum og gerðum. Þær eru yfirleitt aldrei stakar í geimnum heldur mynda þær hópa og þyrpingar. Þessi tiltekna vetrarbraut tilheyrir þyrpingu tæplega 2000 vetrarbrauta sem kennd er við stjörnumerkið Meyjuna. Fjarlægðamælingar á sefítum benda til þess að Meyjarþyrpingin sé í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Grenndarhópurinn sem Vetrarbrautin okkar tilheyrir er við ytri mörk Meyjarþyrpingarinnar og mun dag einn, eftir einhverja milljarða ára, sameinast henni.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

5. Þyrillaga hringþoka

potw1020a

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést óvenjulegur undanfari hringþoku sem kallast IRAS 23166+1655 í kringum stjörnuna LL Pegasi í stjörnumerkinu Pegasusi. Hér sést ótrúlega reglulegt þyrilmynstur, eitt fullkomnasta rúmfræðilega form sem finnst í geimnum, úr þykku ryki sem umlykur stjörnu.

Þyrillinn er talinn myndast vegna þess að LL Pegasi er tvístirni. Önnur stjarnan er deyjandi og varpar frá sér efni sem breiðist út með 50.000 km hraða á klukkustund. Stjörnufræðingar hafa reiknað út að útkastið er lotubundið og að meðaltali líði 800 ár milli þess að hver skel í þyrlinum verði til. Þessi tími er einnig talinn endurspegla umferðartíma stjarnanna.

Myndun og mótun hringþoka er spennandi rannsóknarsvið í þróun stjarna. Stjörnur sem eru helmingi massaminni en sólin og allt að átta sinnum massameiri enda ævi sína á þennan hátt. Þær springa ekki heldur þenjast út og þeyta burt ytri efnislögum sínum út í geiminn, hægt og rólega, og mynda þessi glæsilegu mynstur eins og þetta sem hér sést. IRAS 23166+1655 er stjarna í andarslitrunum. Dánarferli hennar er rétt nýhafið.

Mynd: ESA/NASA og R. Sahai

4. Suðurljósin utan úr geimnum

ISS023-E-58455_lrg

Geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni njóta vægast sagt góðs útsýnis yfir jörðina. Sennilega er ógleymanlegt að upplifa norður- og suðurljós á þann hátt sem hér sést.

Norður- og suðurljós verða til þegar hlaðnar agnir frá sólinni streyma meðfram segulsviði jarðar inn að norður- og suðurpólnum. Þar rekast þær á sameindir lofthjúpsins og gefa frá sér ljós. Litur ljóssins er háður efninu sem agnirnar rekast á í um 80-160 km hæð yfir jörðinni. Þannig má rekja græna litinn til árekstra við súrefni.

Þessi glæsilega mynd var tekin þegar segulstormur geysaði af völdum kórónuskvettu frá sólinni þann 24. maí á þessu ári. Þá var geimstöðin í 350 km hæð yfir sunnanverðu Indlandshafi, töluvert hærra en suðurljósin sjálf. Myndina tók áhöfn númer 23 með Nikon D3 myndavél.

Mynd: NASA/Expedition 23

3. Þyrilþokan NGC 4911

ngc4911

Hér sést einstaklega lagleg þyrilþoka sem nefnist NGC 4911. Hana er að finna djúpt í Haddþyrpingunni sem er þyrping vetrarbrauta í 320 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Haddþyrpingin er eitt þéttasta safn vetrarbrauta í nágrenni okkar í alheiminum en hún telur líklega um eða yfir 1000 vetrarbrautir.

Myndina tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA. Heildarlýsingartími hennar var 28 klukkustundir sem gerði stjörnufræðingum kleift að greina mögnuð smáatriði í þessari fjarlægu vetrarbraut. Í örmum hennar sjást greinilega dökk ryksvæði og bleik vetnisský innan um nýmyndaðar stjörnuþyrpingar sem gefa frá sér bláleitt ljós. Öll þessi fyrirbæri benda til þess að töluverð stjörnumyndun eigi sér stað í vetrarbrautinni.

Þyngdartog nærliggjandi vetrarbrauta hefur þó nokkur áhrif á lögun NGC 4911 sem sést best á því að ytri armar hennar eru að aflagast. Á myndinni sjást líka ytri þyrilarmar NGC 4911 og bakgrunninn prýða þúsundir annarra fjarlægari vetrarbrauta.

Mynd: NASA/ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

2. Stjörnumyndunartindar í Kjalarþokunni

heic1007a

Árið 2010 var haldið upp á 25 ára afmæli Hubble geimsjónaukans. Af því tilefni var þessi fallega ljósmynd birt. Á henni sjást þau sérkennilegu form sem gas- og rykský taka á sig í stjörnumyndunarsvæðum Vetrarbrautarinnar. Þessi tiltekna geimþoka tilheyrir risastóru stjörnuhreiðri sem kallast Kjalarþokan og er í 7.500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Kilinum.

Í tindi hæsta stólpsins á myndinni, sem er þrjú ljósár á hæð, er nýmynduð stjarna. Frá henni skaga tveir gasstrókar út hvor í sína áttina; greinilegt merki um að í kringum stjörnuna er gas- og rykskífa sem stjarnan er smám saman að draga til sín. Þetta eru svonefnd Herbig-Haro fyrirbæri. Innan í skýinu er fjöldi annarra ungra og nýmyndaðra stjarna sem geisla frá sér orkuríku ljósi og móta skýið með veðrunarmætti sínum.

Mynd Hubble geimsjónaukans var tekin 1.-2. febrúar 2010. Litirnir á myndinni svara til þess ljóss sem súrefni (blátt), vetni og nitur (grænt) og brennisteinn (rautt) gefa frá sér.

Mynd: NASA, ESA, M. Livio og Hubble 20th Anniversary Team (STScI)

1. „Skógur“ á Mars

mars_skridur_sandoldur

Mynd ársins 2010! Hér sést yfirborð rauðu reikistjörnunnar Mars á ansi listrænan hátt. Myndin er vísvitandi í fölskum litum til að draga fram smáatriði sem ella sæjust illa eða alls ekki. Á henni sést risavaxið sandöldusvæði á norðlægri breiddargráðu, á stað sem ef til vill var á bólakafi í vatni fyrir milljörðum ára.

Á veturnar verður svo kalt á þessum slóðum að koldíoxíðið í lofthjúpnum frýs og þurríslag legst yfir sandöldurnar og bindur ryk í hlíðum þeirra. Með vorinu hækkar sólin á lofti og hitastigið um leið. Við það þurrgufar þurrísinn svo rykið losnar úr krumlum hans og fossar niður hlíðarnar. Við það myndast dökku rákirnar í hlíðum sandaldanna sem minna einna helst á trjágróður.

Ef þú skoðar myndina í stærri útgáfu sjást fyrirbæri sem við þekkjum vel í íslenskri náttúru: frosttiglar. Tiglarnir verða til þegar ísinn undir þiðnar. Þegar ísinn frýs þenst hann út en þegar hann þiðnar dregst hann saman og skilur eftir sig augljóst tiglamynstur.

Myndin var tekin með HiRISE myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter geimfarinu sem hringsólar um Mars.

Mynd: NASA/JPL/Arizonaháskóli