Faldir fjársjóðir ESO líta dagsins ljós

Sævar Helgi Bragason 12. jan. 2011 Fréttir

Nærri 100 ljósmyndir bárust í ljósmyndakeppni ESO og er nú tilkynnt um vinningshafa.

 • Hidden Treasure ljósmyndakeppni ESO 2010

Nærri 100 ljósmyndir bárust í Hidden Treasures 2010 stjörnuljósmyndakeppni ESO. Það gleður okkur mjög að tilkynna nú vinningshafa. Í Hidden Treasures gafst stjörnuáhugafólki kostur á að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði. Rússneski stjörnuáhugamaðurinn Igor Chekalin varð hlutskarpastur og hlýtur hann að launum ferð að Very Large Telescope ESO í Paranal í Chile.

Í fréttatilkynningum ESO sjást oftar en ekki glæsilegar ljósmyndir af alheiminum. Hver mynd krefst hins vegar margra klukkustunda yfirlegu hæfileikaríkra myndvinnslumanna sem setja litríkar myndirnar saman úr hráum gögnum sem sjónaukarnir afla. Þeir leiðrétta bjögun og skekkjur sem fylgja mælitækjunum og draga fram fínustu smáatriði. Hjá ESO starfar hópur atvinnumanna í myndvinnslu en fyrir Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppnina var ákveðið að gefa stjörnu- og ljósmyndaáhugafólki færi á að sýna hvað í því bjó og vinna myndir úr stóru gagnasafni ESO.

Fjölmargir áhugasamir svöruðu kallinu og sendu inn nærri 100 myndir – langt umfram upphaflegar væntingar, en myndvinnsla sem þessi er ekki á allra færi. „Fjöldi og gæði myndanna sem bárust kom okkur mjög á óvart. Þessi keppni var heldur ekki fyrir hvern sem er því hún krafðist bæði góðrar þekkingar á gagnavinnslu og listræns auga. Það er okkur mikil ánægja að hafa fundið svona margt hæfileikafólk“ sagði Lars Lindberg Christensen, yfirmaður Education and Public Outreach Department hjá ESO.

Þátttakendur urðu að kafa djúpt ofan í mörg terabæti af gögnum ESO í leit að svarthvítum myndum af fyrirbærum sem mundu leiða í ljós hina leyndu fegurð alheimsins.

Möguleiki á veglegum verðlaunum fyrir heppinn vinningshafa nægði til þess að kveikja í þátttakendum; í fyrstu verðlaun var ferðalag til Very Large Telescope ESO í Paranal í Chile undir leiðsögn og tækifæri til að taka þátt í stjörnuathugunum í eina nótt. Í önnur verðlaun voru iPod, bækur og DVD myndir. Ennfremur verða bestu myndirnar birtar í fréttatilkynningum eða sem myndir vikunnar á www.eso.org.

Dómnefndin mat myndirnar með gæði myndvinnslu, frumleika og heildar yfirbragð í huga. Sömu aðilarnir sendu nokkrar bestu myndirnar inn í keppnina svo dómnefndin ákvað að verðlauna tíu hæfileikaríkustu þátttakendurna svo fleiri ættu möguleika á verðlaunum fyrir vinnu sína og hæfileika.

Vinningshafarnir tíu eru:

 • Fyrstu verðlaun, ferðalag til Paranal + glaðningur: Igor Chekalin (Rússland). 

 • Önnur verðlaun, iPod Touch + glaðningur: Sergey Stepanenko (Úkraína). 

 • Þriðju verðlaun, VLT líkan + glaðningur: Andy Strappazzon (Belgía). 

 • Fjórðu til tíundu verðlaun, Eyes on the Skies bókin + DVD + glaðningur: Joseph (Joe) DePasquale (Bandaríkin), Manuel (Manu) Mejias (Argentína), Alberto Milani (Ítalíu), Joshua (Josh) Barrington (Bandaríkin), Oleg Maliy (Úkraína), Adam Kiil (Bretlandi), Javier Fuentes (Chile).

Vinngshafarnir tíu sendu inn tuttugu bestu myndirnar:

 1. M78 eftir Igor Chekalin 

 2. NGC 3169 & NGC 3166 og SN 2003cg eftir Igor Chekalin 

 3. NGC 6729 eftir Sergey Stepanenko 

 4. Tunglið eftir Andy Strappazzon 

 5. NGC 3621 eftir Joseph (Joe) DePasquale 

 6. NGC 371 eftir Manuel (Manu) Mejias 

 7. Ryk Sverðþokunnar í Óríon (2,2 metra sjónauki ESO) eftir Igor Chekalin 

 8. NGC 1850 EMMI eftir Sergey Stepanenko 

 9. Abell 1060 eftir Manuel (Manu) Mejias 

 10. Celestial Prominences NGC 3582 eftir Joseph DePasquale 

 11. Kúluþyrpingin NGC 288 eftir Alberto Milani 

 12. Loftnetið eftir Alberto Milani 

 13. Fyrirbæri Sakurais eftir Joshua (Josh) Barrington 

 14. NGC 1929, N44 Superbubble eftir Manuel (Manu) Mejias 

 15. NGC 3521 eftir Oleg Maliy 

 16. NGC 6744 eftir Andy Strappazzon 

 17. NGC 2217 eftir Oleg Maliy 

 18. VIMOS.2008-01-31T07_16_47j eftir Adam Kiil 

 19. NGC 2647 - númer 2 eftir Josh Barrington 

 20. Haffner 18 og 19 eftir Javier Fuentes

„Þetta var góð reynsla og ég hafði mikla ánægju af að vinna úr svona frábærum gögnum“ segir Igor Chekalin, vinningshafi ferðarinnar til Paranal. „Sem áhugastjörnuljósmyndari var þetta erfiðasta myndvinnsla sem ég hef nokkurn tímann gert. Það var ný áskorun að taka þátt í Hidden Treasures keppninni því ég varð að setja upp og læra á nýjan hugbúnað og jafnvel stýrikerfi sem ég kunni ekki á fyrir.“

Árangurinn af Hidden Treausres 2010 ljósmyndakeppni ESO og áhugi hæfileikaríkra þátttakanda tryggði að auðvelt var að ákveða að önnur keppni skyldi haldin í kjölfar þessarar. Fylgstu með www.eso.org fyrir fréttir af Hidden Treasures 2011.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengdar myndir

 • Rússneski stjörnuáhugamaðurinn Igor ChekalinRússneski stjörnuáhugamaðurinn Igor Chekalin. Mynd: I. Chekalin/ESO
 • Messier 78Verðlaunamynd Igors Chekalin af Messier 78. Mynd: I. Chekalin/ESO.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Olivier R. Hainaut
ESO, Astronomer and Science Liaison for the Education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6752
Cell: +49 151 2262 0554
Email: ohainaut[hjá]eso.org

Oana Sandu
ESO, Community Coordinator for the Education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Cell: +49 176 943 942 20
Email: osandu[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1102.