Rytjuleg þyrilþoka

Sævar Helgi Bragason 17. feb. 2011 Fréttir

NGC 2841 er óvenjuleg þyrilþoka. Hún hefur stutta arma og í henni er tiltölulega róleg stjörnumyndun í samanburði við aðrar þyrilvetrarbrautir.

  • NGC 2841, þyrilþoka, þyrilvetrarbraut, Hubblessjónaukinn

Hér sést vetrarbrautin NGC 2841 á ljósmynd sem tekin var með Wide Field Camera 3, nýjustu myndavél Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Í henni er stjörnumyndun óvenju róleg í samanburði við aðrar þyrilvetrarbrautir. Hún er ein nokkurra nálægra vetrarbrauta sem valdar voru eins og bland í poka til rannsókna á stjörnumyndunarsvæðum og myndunarhraða stjarna.

Stjörnumyndun er eitt þeirra ferla sem hefur hve mest áhrif á gerð alheimsins. Hún leikur lykilhlutverk í þróun vetrarbrauta og þá myndast sólkerfi iðulega á fyrstu stigum stjörnumyndunar.

En hvað hrindir stjörnumyndun af stað? Hvernig breytast eiginleikar stjörnuhreiðra með breytilegri efnasamsetningu og þéttleika gassins í skýinu? Þetta eru spurningar sem stjörnufræðingar eiga enn ekki svör við. Hvað það er sem drífur stjörnumyndun í rytjulegum þyrilþokum á borð við NGC 2841 er til dæmis hulin ráðgáta. Stuttir þyrilarmar í stað greinilegra útlima einkenna rytjulegar þyrilþokur.

Til að reyna að svara einhverjum þessara spurninga notar alþjóðlegur hópur stjarnfræðinga Wide Field Camera 3 (WFC3), nýjustu myndavél Hubblessjónauka NASA og ESA, í því skini að kanna hóp nálægra en mjög ólíkra stjörnumyndunarsvæða. Undir smásjá vísindamanna er myndunarhraði stjarna í stjörnuþyrpingum jafnt sem vetrarbrautum — allt frá hrinuvetrarbraut eins og Messier 82 niður í hægláta vetrarbraut eins og NGC 2841.

WFC3 var komið fyrir í Hubblessjónaukanum í maí árið 2009 í fjórða viðhaldsleiðangrinum sem gerður var til sjónaukans. Þessi nýja myndavél kom í stað Wide Field and Planetary Camera 2. Hún hentar eiknar vel í þessa nýju rannsókn enda hönnuð til að nema útbláa geislun frá nýfæddum stjörnum (bjartir, bláir klumpar á myndinni af NGC 2841) og á innrauðum bylgjulengdum. Þannig má líka skyggnast gegnum rykið sem annars felur hvítvoðungana.

Myndin sýnir fjölmargar heitar, ungar stjörnur í skífu vetrarbrautarinnar NGC 2841. Þrátt fyrir það er hin eiginlega stjörnumyndun ekki í gangi nema á stöku stað. Þar falla vetnisský saman og þéttast í nýjar stjörnur. Sennilega hafa hin ofsafengnu ungstirni eyðilagt eigin stjörnumyndunarsvæði.

NGC 2841 er í um 46 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Stórabirni (Karlsvagninum). Þessi mynd var tekin gegnum sex ólíkar ljóssíur á nýju myndavél Hubblessjónaukans: F657N, appelsínugult á mynd, sýnir svæði ljómaðs vetnis; F814W, rautt á mynd, sýnir rautt ljós og nær innrauða geislun; F547M, sýnir grænt ljós; F438W, blátt á mynd, sýnir blátt og fjólublátt ljós; F336W og F225W, dökk og ljós fjólublátt á myns, sýnir ólíkar bylgjulengdir útblás ljóss frá ungum heitum stjörnum.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Mynd: NASA & ESA

Tenglar

Tengiliðir

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands, Reykjavík

Sími: +354 663 6867

Tölvupóstur: ottoel[hjá]stjornuskodun.is

Oli Usher
Hubble/ESA, Garching, Þýskalandi

Sími: +49-89-3200-6855

Tölvupóstur: ousher[hjá]eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1104

Tengdar myndir

  • NGC 2841, þyrilþoka, þyrilvetrarbraut, HubblessjónaukinnHér sést þyrilþokan NGC 2841 á ljósmynd sem tekin var með Wide Filed Camera 3 á Hubble geimsjónauka NASA og ESA. NGC 2841 hefur stutta þyrilarma og er ólík flestum öðrum þyrilþokum að því leiti en þær hafa oftast mjög greinilega arma. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage (STScI/AURA)-ESA/Hubble samstarfið.
  • NGC 2841, þyrilþoka, rytjuleg þyrilvetrarbrautMyndin sýnir næsta nágrenni NGC 2841 sem er þyrilþoka sem litla þyrilarma. Hún er unnin úr myndum Digitised Sky Survey 2. Mynd: NASA, ESA og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin
  • Hubble geimsjónaukinn á braut um jörðuHubble geimsjónaukinn á braut um jörðu. Mynd: European Space Agency.