Gefðu fjarlægu sólkerfi íslenskt nafn

Hvað á sólkerfið HD 109246 að heita?

Sævar Helgi Bragason 24. sep. 2019 Fréttir

Íslendingum gefst nú kostur á að gefa reikistjörnu í öðru sólkerfi íslenskt nafn. Reikistjarnan er gasrisi í um 222 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

  • Fjarreikistjarna

Íslendingum gefst nú kostur á að gefa reikistjörnu í öðru sólkerfi íslenskt nafn. Finna þarf tvö nöfn: Eitt fyrir sólina sólkerfið sjálft og annað fyrir reikistjörnuna.

Reikistjarnan ber í dag skráarheitið HD 109246b. Hún gengur umhverfis stjörnu sem er sömu gerðar og sólin okkar – álíka stór, heit og björt og stjarnan okkar.

Sólkerfið er í 222 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Það þýðir að það tæki 2 milljarða ára að keyra þangað, 248 milljónir ára að fljúga og 4 milljónir ára á þeim hraða sem Voyager 1 geimfarið ferðast (en stefnir ekki þangað). Svo við erum ekki á leið í heimsóikn í bráð.

Stjarnan sést ekki með berum augum en hægt er að koma auga á hana með stjörnusjónauka í stjörnumerkinu Drekanum (sjá kort hér undir).

Hd-109246Sólkerfið fannst árið 2010 í mælingum sem gerðar voru með sjónauka í Haute-Provence stjörnustöðinni í Frakklandi.

HD 109246b er gasrisi, álíka stór og Júpíter en miklu heitari. Það er vegna þess að hún er þrisvar sinnum nær sólinni sinni en Jörðin er frá sólinni okkar, svo árið hennar er aðeins 68,3 dagar. Því eru engar líkur á að líf leynist á reikistjörnunni.

Stjarnvísindafélag Íslands og Stjörnufræðivefurinn halda utan um verkefnið á Íslandi fyrir hönd Alþjóðasambands stjarnfræðinga.

Allir mega taka þátt og verður íslenska vinningstillagan lögð til nafnanefndar Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) sem veitir svo (vonandi) samþykki sitt.

Tillagan þarf að samanstanda af tveimur nöfnum: einu fyrir stjörnuna og einu fyrir fjarreikistjörnuna. Þó hugmyndaflugið skuli ráða för er æskilegt að nöfnin tvö vísi til sama uppruna eða hafi sama þema og hafi skírskotun í sögu, tungumál eða menningu. Samkvæmt reglum Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) mega nöfnin ekki vera pólitísk, niðrandi, vísa til hernaðar, trúarbragða eða fyrirækja o.s.frv.

Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á heimasíðu Stjarnvísindafélags Íslands. Þar er einnig hægt að senda inn tillögu að nafni. Athugið að aðeins þær tillögur sem uppfylla nafnareglur IAU verða teknar til greina.

Tengiliður verkefnisins á Íslandi er Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og gjaldkeri Stjarnvísindafélags Íslands, og formaður íslensku nafnanefndarinnar er Kári Helgason, formaður Stjarnvísindafélags Íslands og veita þeir nánari upplýsingar. Skólar eru sérstaklega hvattir til að taka þátt.

NameExoWorlds verkefnið er haldið í tilefni af 100 ára afmæli Alþjóðasambands stjarnfræðinga.

Senda inn tillögu