Úrslitakosning hafin fyrir nafn á sólkerfinu HD 109246

Kári Helgason 23. okt. 2019 Fréttir

Íslendingum gefst nú kostur á að gefa reikistjörnu í öðru sólkerfi íslenskt nafn. Netkosning verður opin til kl 23:59 14. nóvember.

  • Bg-banner02

Fjölmargar tillögur bárust í fyrri umferð verkefnisins. Landsnefnd hefur rýnt tillögurnar og valið sjö þeirra til að taka þátt í netkosningu sem verður opin til miðnættis 14. nóvember. Sigurtillagan verður send til Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) til staðfestingar. Tilkynnt verður formlega um ný nöfn sólkerfa í desember en margar þjóðir tóku þátt í verkefninu. Eftirfarandi tillögur taka þátt í úrslitakosningu:

Hekla og Katla: Tvö þekktustu eldfjöllin á Íslandi. Vísa til jarðfræði Íslands og samband manns og náttúru. Ef fleiri reikistjörnur finnast í þessu sólkerfi mætti nefna þær eftir öðrum eldstöðvum t.d. Öskju.

Funi og Fold: Stutt og falleg íslensk orð sem eru auðveld í framburði tungumála. Funi merkir eldur og Fold merkir jörð sem vísar til stjörnu og reikistjörnu.

Oddi og Flatey: Til heiðurs fyrsta íslenska stjörnufræðingnum, Stjörnu-Odda, sem mældi sólargang og reiknaði tímatal á 12. öld. Nafn reikistjörnunnar er kennt við annan þeirra staða á Norðausturlandi þar sem vitað er að hann hugði að stjörnum. Ef fleiri reikistjörnur finnast í þessu sólkerfi má nefna þær eftir öðrum eyjum við Ísland: Grímsey, Viðey, Surtsey o.s.frv.

Álfröðull og Hoddmímir: Álfröðull er fornt sólarheiti; nafnið vísar til álfa sem eru litlir og ósýnilegir þannig að sól sem ekki sést með berum augum er réttilega nefnd Álfröðull. Í holti Hoddmímis leynast tveir menn sem lifa af Surtaloga ragnaraka og „hafa morgundöggina fyrir mat“ eftir því sem segir í Gylfaginningu.

Sindri og Draupnir: Sindri er dvergur úr Eddukvæðum sem var mikill hagleikssmiður og smíðaði meðal annars Mjölni, Draupni og Gullinbursta. Sindri vísar einnig í sögnina að sindra (að glitra/tindra eins og stjörnur).

Edda og Gerpla: Sótt í bókmentaarf Íslendinga að fornu og nýju. Tileinkað Snorra Sturlusyni og Halldóri Kiljan Laxness. Ef fleiri reikistjörnur finnast í sólkerfinu mætti nefna þær eftir öðrum bókmenntaverkum.

Ljósmóðir og Ljósberi: Falleg íslensk orð. Stjarnan er móðir ljóssins og reikistjarnan fær ljós frá henni í gjöf. Einnig tilvísun í starf ljósmæðra og fegurðina sem er fólgin í fæðingu barns. 

Smelltu hér til að kjósa


Stjarnvísindafélag Íslands og Stjörnufræðivefurinn halda utan um verkefnið á Íslandi fyrir hönd Alþjóðasambands stjarnfræðinga en verkefnið er haldið í tilefni af 100 ára afmæli sambandsins.