Funi og Fold: Íslensk nöfn á fjarlægu sólkerfi formlega tilkynnt

Sævar Helgi Bragason 17. des. 2019 Fréttir

  • Funi og Fold

Ísland var ein þeirra þjóða sem var úthlutað fjarlægu sólkerfi til að nefna í tilefni 100 ára afmælis Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU). Íslensku nöfnin á stjörnuna HD 109246 og reikistjörnuna HD 109246b, sem eru í um 222 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, voru tilkynnt formlega á blaðamannafundi í París á hádegi í dag. Ásamt íslensku nöfnunum hlutu yfir 100 sólkerfi viðurkennd nöfn en fjölmargar þjóðir tóku þátt í verkefninu.

Sigurtillaga Íslands var Funi og Fold en afar mjótt var á munum milli tveggja efstu. Funi merkir eldur og Fold merkir jörð sem vísar til stjörnu og reikistjörnu. Stutt og falleg íslensk orð sem eru auðveld í framburði tungumála.

Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) hefur staðfest þessi nöfn sem stjarnan og reikistjarnan munu nú bera um ókomna tíð í stjörnufræðiskrám. Samtals voru veitt 420 þúsund atkvæði í úrslitakosningum um heim allan og þar af komu 3000 atkvæði í íslensku herferðinni. Verkefnið skilaði sér í áhrifaríkri vísindamiðlun um heim allan og viðurkenningu á menningarlegri arfleið fjölbreyttra þjóða.

Sá sem sendi inn sigurtillöguna er Guðmann Þorvaldsson, gamalreyndur náttúrufræðikennari á Eskifirði. Guðmann kynnti nafnasamkeppnina í grunnskóla Eskifjarðar og endaði sjálfur á að senda inn tillögu.

Yfir 300 tillögur bárust frá íslenskum almenningi í fyrstu umferð verkefnisins. Landsnefnd, skipuð sérfræðingum í stjarnvísindum og vísindasögu, valdi sjö tillögur til að taka þátt í úrslitakosningu. Þær voru eftirfarandi (í röðinni 1. stjarna og 2. reikistjarna):

  • Hekla og Katla: Tvö þekktustu eldfjöllin á Íslandi. Vísa til jarðfræði Íslands og samband manns og náttúru. Ef fleiri reikistjörnur finnast í þessu sólkerfi mætti nefna þær eftir öðrum eldstöðvum t.d. Öskju.

  • Funi og Fold: Stutt og falleg íslensk orð sem eru auðveld í framburði tungumála. Funi merkir eldur og Fold merkir jörð sem vísar til stjörnu og reikistjörnu.

  • Oddi og Flatey: Til heiðurs fyrsta íslenska stjörnufræðingnum, Stjörnu-Odda, sem mældi sólargang og reiknaði tímatal á 12. öld. Nafn reikistjörnunnar er kennt við annan þeirra staða á Norðausturlandi þar sem vitað er að hann hugði að stjörnum. Ef fleiri reikistjörnur finnast í þessu sólkerfi má nefna þær eftir öðrum eyjum við Ísland: Grímsey, Viðey, Surtsey o.s.frv.


  • Álfröðull og Hoddmímir: Álfröðull er fornt sólarheiti; nafnið vísar til álfa sem eru litlir og ósýnilegir þannig að sól sem ekki sést með berum augum er réttilega nefnd Álfröðull. Í holti Hoddmímis leynast tveir menn sem lifa af Surtaloga ragnaraka og „hafa morgundöggina fyrir mat“ eftir því sem segir í Gylfaginningu.

  • Sindri og Draupnir: Sindri er dvergur úr Eddukvæðum sem var mikill hagleikssmiður og smíðaði meðal annars Mjölni, Draupni og Gullinbursta. Sindri vísar einnig í sögnina að sindra (að glitra/tindra eins og stjörnur).



  • Edda og Gerpla: Sótt í bókmentaarf Íslendinga að fornu og nýju. Tileinkað Snorra Sturlusyni og Halldóri Kiljan Laxness. Ef fleiri reikistjörnur finnast í sólkerfinu mætti nefna þær eftir öðrum bókmenntaverkum.

  • Ljósmóðir og Ljósberi: Falleg íslensk orð. Stjarnan er móðir ljóssins og reikistjarnan fær ljós frá henni í gjöf. Einnig tilvísun í starf ljósmæðra og fegurðina sem er fólgin í fæðingu barns.  

Sólkerfið er að finna í stjörnumerkinu Drekanum í námunda við Karlsvagninn og Litla-Björn. Stjarnan er ekki sýnileg með berum augum en hægt að sjá hana í litlum handkíki. Það tæki 4 milljónir ára fyrir hraðskreiðasta faratæki mannkyns (Voyager 1 geimfarið) að ferðast 222 ljósár.

Fyrir skemmstu voru Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði veitt fyrir uppgötvun fyrstu fjarreikistjörnunnar, reikistjörnu sem hringsólar aðra stjörnu en Sólina okkar. Sprenging hefur orðið í leitinni að fjarreikistjörnum en um 4000 slíkar hafa fundist síðan 1995 þegar sú fyrsta var uppgötvuð. Nokkrar þessara eru bergreikistjörnur í heppilegri fjarlægð frá móðurstjörnu sinni til að vatn geti verið á fljótandi formi en ekki hafa ennþá fengist sönnunargögn fyrir vatni og lífvænlegum lofthjúpi.

Nánari upplýsingar veita:

Kári Helgason
Formaður landsnefndar
[email protected]
896 5274

Sævar Helgi Bragason
Tengiliður Íslands við IAU
[email protected]
896 1984