Fyrstu myndir VLT Survey Telescope

VST og 268 megapixla OmegaCAM tekin í notkun

Sævar Helgi Bragason 08. jún. 2011 Fréttir

Fyrstu myndir nýjasta sjónaukans í stjörnustöð ESO á Paranal hafa verið birtar og eru óhemju glæsilegar!

  • Messier 17, VST, Omegaþokan, Svansþokan

Fyrstu myndir VLT Survey Telescope (VST), nýjustu viðbótarinnar við stjörnustöð ESO á Paranal, hafa verið birtar og eru óhemju glæsilegar. VST er 2,6 metra breiður sjónauki í hæsta gæðaflokki. Hann er útbúinn stórri 268 megapixla myndavél, OmegaCAM, sem gerir honum kleift að kortleggja himininn hratt en jafnframt eru gæði myndanna mikil. Sjónaukinn greinir sýnilegt ljós og bætir þess vegna upp athuganir VISTA, innrauða kortlagningarsjónauka ESO. Nýjar myndir af Omegaþokunni og kúluþyrpingunni Omega Centauri bera gæðum VST fagurt vitni.

Nýr sjónauki og ný myndavél

VLT Survey Telescope (VST) er nýjasti sjónaukinn sem tekinn er í notkun í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í norður Chile. Sjónaukinn er við hlið VLT sjónaukanna fjögurra undir ósnortnum stjörnuhimni Cerro Paranal sem er einn besti staður heims til rannsókna í stjarnvísindum. VST er stærsti sjónauki veraldar sem er hannaður sérstaklega til að kortleggja himininn í sýnilegu ljósi. Á komandi árum fara nokkur mjög ítarleg kortlagningarverkefni á suðurhimninum fram með VST og OmegaCAM myndavél sjónaukans og verða öll gögn gerð opinber.

„Það gleður mig mjög sjá þessar fyrstu og stórglæsilegu myndir VST og OmegaCAM. Samvinna VST og innrauða kortlagningarsjónaukans VISTA veitir okkur einstakt tækifæri til að finna fjölmörg ný og áhugaverð fyrirbæri til frekari rannsókna með hinum öfluga VLT sjónauka“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

„VST sjónaukinn hefur staðið af sér margar hindranir og endurgeldur okkur nú með stórfenglegum myndum. Hann stenst fyllilega allar væntingar stjarnvísindamanna, þökk sé óeigingjörnu starfi fjölda fólks hjá INAF sem tók þátt í smíði hans. Ég er alsæll að sjá VST tekinn í notkun“ segir Tommaso Maccacaro, forseti ítölsku stjarneðlisfræðistofnunarinnar (INAF).

VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu [1] og ESO. Hönnun og smíði sjónaukans var í höndum INAF, með þátttöku ítalskra fyrirtækja en ESO lagði til húsið undir hann og og sá um verkfræðilega stjórnun á byggingarsvæðinu. OmegaCAM, myndavél VST, var hönnuð og smíðuð í samvinnu hollenskra, þýskra og ítalskra stofnana [2] sem nutu þó mikillar aðstoðar ESO. ESO sér um viðhald og rekstur sjónaukans en líka gagnasöfnun og -dreifingu frá sjónaukanum.

VST er 2,6 metra breiður sjónauki í hæsta gæðaflokki. Hann er útbúinn virkum sjóntækjum sem tryggja að speglarnir eru á öllum stundum samstilltir. Á bakvið stórar linsur, sem leiðrétta skekkjur og tryggja bestu mögulegu myndgæði [3], er 770 kg OmegaCAM myndavélin sem smíðuð er umhverfis 32 CCD myndflögur [4] sem geymdar eru í lofftæmi svo úr verða 268 megapixla ljósmyndir [5].

Fyrstu myndirnar

Bæði sjónaukinn og myndavélin voru smíðuð til að fullnýta gæði himinsins yfir Paranal.

„Þessar frábæru myndir sem koma nú frá VST og OmegaCAM eru afrakstur mikillar vinnu sem fjölmargir hópar hafa innt af hendi um árabil. Við hlökkum til að njóta ríkulegra ávaxta VST sjónaukans, nýrra vísinda og óvæntra uppgötvana“ segir Massimo Capaccioli, verkefnisstjóri VST.

Fyrsta myndin sem birtist frá sjónaukanum er af stjörnumyndunarsvæðinu Messier 17, einnig þekkt sem Omegaþokan eða Svansþokan. Þetta tilþrifamikla svæði gass, ryks og ungra stjarna er í stjörnumerkinu Bogmanninum í hjarta vetrarbrautarinnar okkar. Sjónsvið VST er svo vítt að þokan næst í heild sinni á eina hnífskarpa mynd, líka daufari ytri hlutar hennar.

Seinni myndin er af kúluþyrpingunni Omega Centauri í stjörnumerkinu Mannfáknum. Þetta er stærsta kúluþyrping himins en þökk sé víðu sjónsviði VST og OmegaCAM sjást meira að segja ystu og daufustu svæði þessa glæsilega fyrirbæris. Myndin sýnir vel hve góða upplausn VST hefur en hér sjást um 300.000 stjörnur.

Kortlagningin

Á næstu fimm árum verða unnin þrjú opinber kortlagningarverkefni með VST [6]. KIDS kortlagningin verður unnin á nokkrum svæðum himins sem liggja utan við Vetrarbrautina. Sú kortlagning snýr að ítarlegum rannsóknum á hulduefni, hulduorku og þróun vetrarbrauta en búist er við að fjölmargar áður óþekktar vetrarbrautaþyrpingar finnist í leiðinni sem og fjölmörg ný dulstirni með hátt rauðvik. VST ATLAS kortlagningin þekur stórt svæði af himninum en markmið hennar er að auka skilning okkar á hulduorku og veita stuðning við nákvæmari rannsóknir með VLT og öðrum sjónaukum. Í þriðja verkefninu, VPHAS+, verður miðflötur Vetrarbrautarinnar kortlagður svo draga megi upp nákvæma mynd af skífu hennar og stjörnumyndunarsögu. Með VPHAS+ verður til skrá yfir meira en 500 milljón fyrirbæri og búist er við að ný dæmi um óvenjulegar stjörnur á öllum þróunarstigum sínum finnist.

OmegaCAM framleiðir gríðarlegt gagnamagn. Ár hvert verða til um 30 terabæti af hráum gögnum en þeim verður miðlað í gagnaver í Evrópu til frekari úrvinnslu [7]. Í Groningen og Napólí hefur nýr og mjög vandaður hugbúnaður verið þróaður svo hægt sé að höndla þetta mikla gagnamagn. Að lokum verður útbúinn stór listi yfir þau fyrirbæri sem fundist hafa og hann, ásamt myndum, verður allt gerður aðgengilegur stjörnufræðingum um heim allan til frekari rannsókna.

„VST mun skila feikilegu gagnamagni þökk sé víðu sjónsviði, frábærum myndgæðum og miklum afköstum sjónaukans sem á eflaust eftir að auka framgang margra sviða í stjarneðlisfræði“ segir Kondrad Kuijken, yfirmaður OmegaCAM samstarfsins að lokum.

Skýringar

[1] VST var hannaður í Stjörnustöð INAF í Capodimonte í Napóli. Ítölsk fyrirtæki sáu um smíði allra hluta hans fyrir utan sjóntækjanna sjálfra sem komu frá rússneska fyrirtækinu LZOS. Smíði og samsetning sjónaukans í Paranal stjörnustöðinni var líka í höndum INAF með framlagi frá verkefnastjóranum G. De Paris og D. Fierro, framkvæmdarstjóra AIV, og starfsmönnum INAF Department of National Projects í Monte Mario í Róm á Ítalíu. Núverandi verkefnisstjóri er P. Schipani frá INAF-Capodimonte stjörnustöðinni. Hann er fyrrum verkfræingur við VST og leiðir nú hóp fólks frá stjörnustöðvunum í Napólí og Padúa. A. Grado þróaði VST-Tube hugbúnaðinn sem sér um gögnin í Napólí.

[2] Í OmegaCAM samstarfinu eru stofnanir frá Hollandi (NOVA, sér í lagi Kapteyn-stofnunin / OmegaCEN Groningen og Leiden stjörnustöðin), Þýskalandi (sér í lagi stjörnustöðvar háskóla í München, Göttingen og Bonn) og Ítalíu (INAF, sér í lagi stjörnustöðvarnar í Padúa og Napólí). Skynjarar eða nemarnir koma frá ESO Optical Detector Team. OmegaCAM er í umsjá K. Kuijken (Háskólunum í Groningen og Leiden), R. Bender (USM/MPE í München) og R. Häfner (Stjörnustöð Ludwig-Maximilians háskóla í München) en gagnastjórnunarkerfið, AstroWISE, var þróað af OmegaCEN-NOVA undir forystu E.A. Valentijn (Groningen).

[3] Sjóntæki sjónaukans leiðrétta líka fyrir ljósdreifingu sem verður í lofthjúpi jarðar.

[4] Í myndavélinni eru fleiri CCD flögur sem sjá um stýringu sjónaukans og virku sjóntækin.

[5] Til að mæla liti fyrirbæra á himninum eru mjög stórar glersíur settar fyrir framan CCD flögurnar. Hver sía er meira en 30 sentímetrar á alla kanta og flestar sérstaklega húðaðar til að sem mest ljós berist í gegnum þær. Einnig er stór loki sem samanstendur af tveimur blöðum sem hægt er nota til að hindra að ljós berist inn á meðan nemarnir lesa upplýsingarnar.

[6] Frekari upplýsingar um VST kortlagningarnar er að finna á http://www.eso.org/sci/observing/policies/PublicSurveys/sciencePublicSurveys.html.

[7] VST/OmegaCAM nýtur góðs af nýrri háhraðatengingu milli Paranal og Evrópu sem sett var upp með stuðningi Evrópusambandsins (eso1043).

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Prof. Massimo Capaccioli
University of Naples Federico II and INAF-Capodimonte Astronomical Observatory
Naples, Italy
Tel: +39 081 557 5601
Cell: +39 335 677 6940
Email: [email protected]

Prof. Koen Kuijken
Leiden Observatory
The Netherlands
Tel: +31 71 527 5848
Email: [email protected]

Prof. Edwin A. Valentijn
University of Groningen
The Netherlands
Tel: +31 50 363 4011/4036 (secretary)
Cell: +31 6 482 76416
Email: [email protected]

Prof. Ralf Bender
University Observatory of the Ludwig-Maximilians-University Munich, and Max-Planck-Institute for Extraterrestrial Physics
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 2180 5999
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1119.

Tengdar myndir

  • Messier 17, VST, Omegaþokan, Svansþokan, BogmaðurinnFyrsta mynd VST er af stjörnumyndunarsvæðinu Messier 17 sem einnig er þekkt sem Omegaþokan eða Svansþokan í stjörnumerkinu Bogmanninum. Gögnin voru unninn með Astro-WISE hugbúnaðinum sem E.A. Valentijn og samstarfsfólk hannaði í Groningen og annars staðar. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
  • Omega Centauri, VST, Mannfákurinn, kúluþyrpingÖnnur mynd VST er besta mynd sem birt hefur verið að kúluþyrpingunni Omega Centauri í stjörnumerkinu Mannfáknum. Omega Centauri er stærsta kúluþyrping himins en með víðu sjónsviði VST og hinni öflugu OmegaCAM myndavélinni sést hún í heild sinni. Á myndinni eru 300.000 stjörnur. Gögnin voru unnin með VST-Tube hugbúnaðinum sem A. Grado og samstarfsfólk hannaði hjá INAF-Capodimonte Observatory. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: A. Grado/INAF-Capodimonte Observatory
  • VST, VLT Survey Telescope, Paranal, OmegaCAMVLT Survey Telescope (VST), nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO, er 2,6 metra breiður kortlagningarsjónauki. VST er samvinnuverkefni ESO og INAF, INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítali. Mynd: ESO/G. Lombardi
  • VST, VLT Survey Telescope, Paranal, OmegaCAMOmegaCAM myndavélin í VST hefur 32 CCD myndflögur sem saman mynda 268 megapixla ljósmyndir. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM/O. Iwert
  • Messier 17, VST, Omegaþokan, Svansþokan, BogmaðurinnSex brot úr nýrri mynd VST af stjörnumyndunarsvæðinu Messier 17 í Bogmanninum. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
  • Omega Centauri, VST, Mannfákurinn, kúluþyrpingNíu hlutar úr mynd VST af kúluþyrpingunni Omega Centauri. Hver þeirra er sýnir aðeins 0,3% af heildarmyndinni. Efst til vinstri sést kjarni Omega Centauri, þar sem stjörnurnar eru þéttast, en hinir hlutarnir sýna strjálli svæði þyrpingarinnar. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: A. Grado/INAF-Capodimonte Observatory