Yngsta sprengistjörnuleifin lýsist upp

Sævar Helgi Bragason 14. jún. 2011 Fréttir

Hubble geimsjónaukinn hefur fylgst með yngstu sprengistjörnuleifinni lýsast upp og breytast.

  • SN 1987A, sprengistjarna, sprengistjörnuleif, Stóra Magellanskýið

Árið 1987 barst ljós frá sprunginni stjörnu í Stóra Magellanskýinu, nágrannavetrarbraut okkar, til jarðar. Sprengistjarnan hlaut nafnið SN 1987A og er hún sú nálægasta sem sést hefur frá jörðinni í næstum 400 ár. Um leið gafst stjarnvísindamönnum ómetanlegt tækifæri til að rannsaka sprengistjörnu og fylgjast með þróun hennar betur en nokkru sinni fyrr.

Hópur stjarneðlisfræðinga hefur komist að því að leifar sprengistjörnunnar 1987A, sem hafa dofnað undanfarin ár, eru smám saman að lýsast upp. Þetta markar breytinguna úr sprengistjörnu yfir í sprengistjörnuleif og sýnir að annar orkugjafi er byrjaður að lýsa upp leifarnar.

„Sprengistjarnan 1987A er yngsta sprengistjörnuleifin sem við sjáum frá jörðinni“ segir Robert Kirshner, stjarneðlisfræðingur við Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics (CfA) í Bandaríkjunum.

Kirshner hefur umsjón með langtímarannsókn Hubble geimsjónauka NASA og ESA á SN 1987A. Hubble var skotið á loft árið 1990 og hefur síðan veitt okkur stöðugar upplýsingar um þær breytingar sem orðið hafa á sprengistjörnunni.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er SN 1987A umlukin efnishring sem upphaflega stjarnan varpaði frá sér nokkrum árþúsundum áður en hún sprakk. Hringurinn er um eitt ljósár í þvermál (10 trilljón km) en innan hans eru innviðir stjörnunnar sem var, að þenjast út og við sjáum sem stórt ský.

Stærstan hluta ljóssins frá sprengistjörnunni má rekja til hrörnunar geislavirkra efna sem urðu til við sprenginguna en hafa dofnað með tímanum. Leifar SN 1987A eru hins vegar byrjaðar að lýsast upp af völdum nýs orkugjafa.

„Nálægð SN 1987A og haukfránar sjónir Hubbles gera okkur kleift að sjá þessa birtuaukningu“ segir Kirshner.

Í sprengistjörnuleifinni eru efni sem þeytast út frá stjörnunni sem sprakk en líka miðgeimsefni sem hún hefur dregið að sér. Leifar SN 1987A eru farnar að rekast á efnishringinn í kringum sprengistjörnuna og við það myndast höggbylgjur. Við höggið hitnar efnið í hringnum sem veldur því að það byrjar að glóa og gefa frá sér röntgengeislun sem Chandra röntgensjónauki NASA getur greint. Sama ferli býr að baki öðrum þekktum sprengistjörnuleifum í vetrarbrautinni, til dæmis Kassíópeiu A.

Sökum þess hve sprengistjarnan er ung eru síðustu árþúsundin í ævi stjörnunnar enn skráð í gaskekkjunum í hringnum. Stjarneðlisfræðingar hyggjast reyna ráða í þessa sögu með frekari rannsóknum.

Þegar sjálfar leifarnar rekast á hringinn, rofnar hann og um leið glatast þessi saga að eilífu. Þangað til veitir SN 1987A okkur ómetanlegt tækifæri til að fylgjast með stjarneðlisfræðilegu fyrirbæri taka miklum breytingum á einni mannsævi. Fáir stjarneðlisfræðilegir atburðir breytast jafn ört á svo skömmum tíma.

Greint er frá þessari rannsókn í nýjasta tölublaði Nature sem kom út þann 9. júní 2011. Aðalhöfundur greinarinnar er Josefin Larsson við Stokkhólmsháskóla.

Frekari upplýsingar

Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics (CfA) er samstarf Smithsonian Astrophysical Observatory og Harvard College Observatory. Stjarnvísindamenn CfA starfa í sex deildum við rannsóknir á upphafi, þróun og endalokum alheims.

Tengiliðir

Tryggvi Kristmar Tryggvason
Stjörnufræðivefnum
Sími: 847-5479
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1109 sem byggir á fréttatilkynningu 2011-18 frá CfA.

Tengdar myndir

  • SN 1987A, sprengistjarna, sprengistjörnuleif, Stóra MagellanskýiðMynd Hubblessjónaukans af SN 1987A sem sýnir fisklaga sprengistjörnuleif sem byrjuð er að lýsast. Birtuaukningin er af völdum röntgengeisla frá hringnum sem umlykur hana og markar breytinguna úr sprengistjörnu yfir í sprengistjörnuleif. Hringurinn varð til áður en stjarnan sprakk. SN 1987A er í Stóra Magellanskýinu og því nálægasta sprengistjarna sem sést hefur frá jörðinni í næstum 400 ár. Mynd: NASA, ESA og Pete Challis.