ESO færist skrefi nær stærsta auga jarðar

Sævar Helgi Bragason 15. jún. 2011 Fréttir

ESO er einu skrefi nær því að hefja smíði fyrsta risasjónauka jarðar. Sjónaukinn verður 39,3 metrar í þvermál!

  • E-ELT, European Extremely Large Telescope

ESO er einu skrefi nær því að hefja smíði European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones, 3.060 metra háum fjallstindi skammt frá Very Large Telescope (VLT) ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Í kjölfar endurskoðunar nefndar um hönnun sjónaukans, sem fram fór í september árið 2010, og með inngöngu Brasilíu í ESO (eso1050), er fjármögnun sjónaukans tryggð og fátt sem stendur í vegi fyrir að smíði hans hefjist.

Milli ársloka 2010 og sumarsins 2011 var hönnunarstig verkefnisins framlengt svo taka mætti athugasemdir nefndarinnar með í reikninginn. Markmiðið var fyrst og fremst að fá sem mest út úr fjármagninu og setja tímamörk á verkefnið til þess að tryggja að ESO verði áfram leiðandi samtök í stjarnvísindum með smíði fyrsta risasjónauka jarðar.

Í júní 2011 féllst stjórn ESO á breytta hönnun E-ELT og er búist við að lokaákvörðun um smíði sjónaukans verði tekin í desember 2011. Á sama tíma ákváðu aðildarríki ESO að leggja fram viðbótarframlag að upphæð 250 milljónir evra samanlagt og auka auk þess árlegt framlag sitt um 2% [1]. Nú þegar hafa nokkur aðildarríki lagt fram sinn skerf til fjármögnunar E-ELT (sjá ann11030). Áætlað er að smíði sjónaukans hefjist í janúar 2012 og að hann verði tekinn í notkun snemma næsta áratug sem hluti af Paranal stjörnustöðinni.

Hugmyndin um 40 metra sjónauka helst óbreytt en safnspegillinn verður minnkaður niður í 39,3 metra. Það þýðir að sjónaukinn mun hafa hraðara f-hlutfall og að hægt verður að byggja smærra hvolfþak yfir hann því umfangið minnkar. Kostnaður lækkar sömuleiðis umtalsvert sem og áhættan fyrir aðra stóra hluta sjónaukans eins og aukaspegilsins. Áætlaður kostnaður minnkar því úr 1275 milljónum evra niður í 1050 milljónir evra (mælitæki eru innifalin í þessari fjárhæð en einnig er gert ráð fyrir öðrum óvæntum kostnaði). Kostnaðurinn er miðaður við verðgildi evru árið 2011 og verður hann endurskoðaður haustið 2011. Þrátt fyrir þessa skerðingu á safnspegli sjónaukans mun E-ELT safna 15 sinnum meira ljósi en stærstu sjónauka á jörðinni í dag.

„Við stjörnufræðingar sækjumst alltaf eftir stærri sjónaukum en megintilgangur jafn byltingarkennds verkefnis eins og E-ELT er að finna réttu blönduna milli vísindalegrar getu og kostnaðar. ESO heur alltaf tekist að vera leiðandi á sviði stjarnvísinda og smíðað sjónauka í hæsta gæðaflokki“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO. „Nýja hönnunin tryggir að við getum mætt metnaðarfullum vísindalegum markmiðum okkar en líka lokið við smíði hans á 10 til 11 árum. Það gerir E-ELT kleift að starfa samhliða James Webb geimsjónaukanum“ bætir hann við.

Kostnaður við mælitæki sjónaukans er óbreyttur. Upplausn sjónaukans minnkar um 9% en það hefur ekki mikil áhrif á eiginleika E-ELT. Þökk sé nýstárlegri fimm spegla hönnun og innbyggðri aðlögunarsjóntækni verður E-ELT leiðandi á fjölmörgum sviðum stjarnvísinda, þar á meðal í leitinni að fjarreikistjörnum á stærð við jörðina, ljósmyndun og mælingum á lofthjúpum þeirra.

Skýringar

[1] Brasilía er undanþegið viðbótarframlagi aðildarríkjanna eins og getið er til um í aðildarsamningnum.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Lars Lindberg Christensen
Head of ESO education and Public Outreach
ESO, Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6761
Cellular: +49-173-3872-621
E-mail: [email protected]

Þetta er þýðing á tilkynningu frá ESO ann11034

Tengdar myndir

  • E-ELT, European Extremely Large TelescopeSýn listamanns á European Extremely Large Telescope, „stærsta auga jarðar“.