Stjarnfræðileg risabóla

Sævar Helgi Bragason 20. júl. 2011 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa tekið fallega mynd af geysistórri risabólu í Stóra Magellansskýinu.
  • LHA 120-N 44, N 44, NGC 1929, risabóla, Stóra Magellanskýið

Þessi fallega mynd er af geimþoku umhverfis stjörnuþyrpinguna NGC 1929 í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Myndin var tekin með Very Large Telescope. Þokan sem yfirgnæfir þetta stjörnumyndunarsvæði er geysistórt dæmi um það sem stjörnufræðingar nefna risabólur. Bólan myndaðist af völdum vinda frá ungum, björtum stjörnum og höggbylgna frá sprengistjörnum.

Í Stóra Magellansskýinu, lítilli nágrannavetrarbraut okkar, eru fjölmörg svæði þar sem gas- og rykský eru mynda stöðugt nýjar stjörnur. Á þessari nýju nærmynd Very Large Telescope ESO sést eitt slíkt svæði sem umlykur stjörnuþyrpinguna NGC 1929. Þessi geimþoka er þekkt sem LHA 120-N 44 eða einfaldlega N 44. Í NGC 1929 eru heitar, ungar stjörnur sem gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós sem fær gasið til að glóa og veldur því að risabólan, stór efnisskel sem er um 325 sinnum 250 ljósár í þvermál, verður sýnileg. Til samanburðar er næsta stjarna við sólina okkar í rétt rúmlega fjögurra ljósára fjarlægð.

Tvær ástæður eru fyrir myndun N 44 risabólunnar: Í fyrsta lagi senda mjög heitar og massamiklar stjörnur í miðri þyrpingunni frá sér strauma hlaðinna agna — stjörnuvinda — sem hreinsuðu svæðið í miðjunni. Í öðru lagi þrýstu höggbylgjur frá sprengistjörnum gasinu lengra út svo úr varð glóandi risabóla.

Þótt eyðileggingarmáttur móti risabóluna eru nýjar stjörnur að myndast þar sem gas þjappast saman við jaðar hennar. Með tímanum munu þessi nýja kynslóð stjarna glæða NGC 1929 nýju lífi eins og í stjarnfræðilegri endurvinnslustöð.

ESO vann myndina út frá gögnum sem Argentínumaðurinn Joe DePasquale [1] fann, en hann tók þátt í Hidden Treasures 2010 stjörnuljósmyndakeppni ESO [2]. Keppnin fór fram á vegum ESO í október og nóvember 2010 og var opin öllum þeim sem njóta þess að útbúa fallegar myndir af næturhimninum sem teknar voru með atvinnumannasjónaukum.

Skýringar

[1] Joe fann gögnin sem hann notaði í sína útgáfu af NGC 3582 í gagnasafni ESO. Mynd hans lenti í tíunda sæti í keppninni en næstum 100 myndir bárust. Upprunalega myndin hans sést hér.

[2] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði sem þurfti á myndvinnslu þátttakenda að halda. Hægt er að kynna sér betur Hidden Treasures áhttp://www.eso.org/public/outreach/hiddentreasures/.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Douglas Pierce-Price
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6759
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1125.

Tengdar myndir

  • LHA 120-N 44, N 44, NGC 1929, risabóla, Stóra MagellanskýiðMynd Very Large Telescope ESO sem sýnir geimþokuna LHA 120-N 44 umlykja stjörnuþyrpinguna NGC 1929 í Stóra Magellanskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Risabólan er úr efni sem þenst út vegna vinda frá ungum stjörnum í þyrpingunni og höggbylgjum frá sprengistjörnum. Mynd: ESO/Manu Mejias
  • LHA 120-N 44, N 44, NGC 1929, risabóla, Stóra MagellanskýiðKort sem sýnir staðsetningu geimþokunnar LHA 120-N 44 og stjörnuþyrpingarinnar NGC 1929 í stjörnumerkinu Höfrungnum. Kortið sýnir flestar þær stjörnur sem sýnilegar eru með berum augum við góðar aðstæður. Þokan sést naumlega með litlum áhugamannasjónaukum. Mynd: IAU/S&T/Stjörnufræðivefurinn
  • LHA 120-N 44, N 44, NGC 1929, risabóla, Stóra MagellanskýiðMynd sem sýnir svæðið í kringum LHA 120-N44 og NGC 1929 unnin úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Risabólan er við miðja mynd en allt í kring sjást önnur stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellanskýinu. Mynd: ESO og Digitized Sky Survey 2