VST skoðar Ljónsþríeykið og enn fjarlægari fyrirbæri

Sævar Helgi Bragason 27. júl. 2011 Fréttir

ESO hefur birt nýja og stóra mynd VST sjónaukans af vetrarbrautaþríeyki í stjörnumerkinu Ljóninu.
  • VST, VLT Survey Telescope, OmegaCAM, M65, M66, Messier 65, Messier 66

ESO hefur birt nýja og stóra mynd sem tekin var með OmegaCAM á VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO. Á henni sést bjart vetrarbrautaþríeyki í stjörnumerkinu Ljóninu en daufu fyrirbærin í bakgrunni vekja þó meiri athygli stjörnufræðinga en vetrarbrautirnar í forgrunni. Mynd VST af þessum daufu fyrirbærum er til vitnis um getu sjónaukans og OmegaCAM til að kortleggja fjarlæg fyrirbæri í alheiminum.

VST [1] er nýjasti sjónaukinn sem tekinn var í notkun í Paranal stjörnustöð ESO (eso1119). Hann er 2,6 metra breiður sjónauki í hæsta gæðaflokki, útbúinn stórri 268 megapixla myndavél sem nefnist OmegaCAM [2]. Sjónaukinn sér sýnilegt ljós og er stærsti sjónauki veraldar sem hannaður er sérstaklega til kortleggja himinninn í sýnilegu ljósi. Þessi stóra mynd af Ljónsþríeykinu ber gæðum VST og myndavél hans glöggt vitni.

Ljónsþríeykið er vetrarbrautahópur í um 35 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Allar eru þær þyrilþokur eins og vetrarbrautin okkar, jafnvel þótt það sé ekki augljóst á myndinni vegna mismunandi halla. Auk þess hafa þær áhrif hver á aðra með þyngdarkrafti sínum. Vinstra megin er NGC 3628, þyrilþoka á rönd með þykkum rykslæðum í fleti þokunnar. Hægra megin eru Messierfyrirbærin M65 (efri) og M66 (neðri) og eins og sjá má halla þær nóg til þess að við greinum þyrilarma þeirra.

Venjulega geta stórir sjónaukar aðeins ljósmyndað eina af þessum vetrarbrautum í einu (sjá til dæmis potw1026a og eso0338c). Sjónsvið VST er hins vegar nógu vítt — tvöfalt breiðara en fullt tungl á himninum — til þess að ramma allar þrjár á eina mynd. Á myndinni sést líka fjöldi daufari og fjarlægari vetrarbrauta sem ljósir þokublettir í bakgrunni.

Í forgrunni sjást fjölmargar misbjartar stjörnur í vetrarbrautinni okkar. Eitt af markmiðum VST er að leita að mjög daufum fyrirbærum í Vetrarbrautinni eins og reikistjörnum, brúnum dvergum, nifteindastjörnum og svartholum. Talið er að finna megi þessi fyrirbæri í hjúpi hennar en þau eru oft of dauf til að sjást, jafnvel í gegnum stærstu sjónauka heims. VST mun því leita eftir daufum fyrirbrigðum sem kallast örlinsuhrif [3] til að finna þessi fyrirbæri óbeint og rannsaka hjúpinn þannig.

Búist er við að þessar rannsóknir bæti skilning okkar á hulduefni en þetta dularfulla efni er talið mynda stærstan hluta hjúpsins. Vonast er til að vísbendingar um eðli hulduefnis og einnig hulduorku finnist við kortlagningar VST á hinum fjarlæga alheimi. Sjónaukinn mun finna fjarlægar vetrarbrautaþyrpingar og dulstirni með hátt rauðvik sem munu hjálpa stjörnufræðingum að skilja alheiminn í árdaga hans og finna svör við mikilvægum spurningum í heimsfræði.

Á mynd VST koma fram slóðir eftir smástirni í sólkerfinu okkar sem hafa færst yfir sviðið þegar myndin var tekin. Smástirnin birtast sem stuttar litaðar línur [4] en á myndinni sjást að minnsta kosti tíu. Ljónsmerkið er stjörnumerki í dýrahringnum og liggur þess vegna við sólbauginn á himninum. Þess vegna er algengt að sjá þar fjölda smástirna.

Þessi mynd var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum þrjár mismunandi síur. Ljós sem barst í gegnum nær-innrauða síu var litað rautt, ljós í rauða hluta litrófsins var litað grænt og grænt ljós var litað blárautt.

Skýringar

[1] VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu og ESO.

[2] OmegaCAM, myndavél VST, var hönnuð og smíðuð í samvinnu hollenskra, þýskra og ítalskra stofnana sem nutu þó mikillar aðstoðar ESO.

[3] Örlinsuhrif verða þegar dauft en massamikið fyrirbæri er fyrir tilviljun í sömu sjónlínu og fjarlægari stjarna í bakgrunni. Þyngdarkraftur fremra fyrirbærisins magnar upp ljósið frá stjörnunni í bakgrunni sem leiðir til mælanlegrar birtuaukningar á bakgrunnsstjörnunni. Örlinsuatburðir eru handahófskenndir og greinast því venjulega í stórum kortlagningarverkefnum þar sem fylgst er með miklum fjölda stjarna í einu.

[4] Slóðirnar eru annað hvort grænar eða blárauðar/rauðar. Ástæðan er sú að grænu myndirnar voru teknar aðra nótt en þær rauðu og blárauðu sem teknar voru í röð sömu nótt.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1126.

Tengdar myndir

  • Ljónsþríeykið, Messier 65, Messier 66Þríeyki bjartra vetrarbrauta í stjörnumerkinu Ljóninu. Í forgrunni eru daufar stjörnur í Vetrarbrautinni okkar en í bakgrunni eru daufar og fjarlægar vetrarbrautir. Myndin var tekin með VST og er til vitnis um getu sjónaukans og OmegaCAM til að kortleggja fjarlæg fyrirbæri í alheiminum. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute.
  • Ljónsþríeykið, Messier 65, Messier 66Kort sem sýnir staðsetningu þríeykisins Messier 65, Messier 66 og NGC 3628 í stjörnumerkinu Ljóninu. Kortið sýnir flestar þær stjörnur sem sjást með berum augum við góðar aðstæður. Allar vetrarbrautirnar þrjár sjást í gegnum litla áhugamannasjónauka. Mynd: IAU, S&T og Stjörnufræðivefurinn
  • Ljónsþríeykið, Messier 65, Messier 66Mynd sem sýnir svæðið í kringum Ljónsþríeykið. Myndin var unnin úr gögnum frá Digitized Sky Survey 2. Vetrarbrautirnar þrjár eru rétt fyrir neðan miðju hægra megin. Bjarta stjarnan ofarlega hægra megin er þeta Leonis. Sjónsviðið er 4,4 gráður á breidd. Mynd: ESO og Digitzed Sky Survey 2.