VISTA finnur 96 stjörnuþyrpingar faldar á bakvið ryk

Innrauður kortlagningarsjónauki ESO skyggnist djúpt inn í stjörnumyndunarsvæði í vetrarbrautinni okkar

Sævar Helgi Bragason 03. ágú. 2011 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið 96 nýjar lausþyrpingar í vetrarbrautinni okkar með innrauðum kortlagningarsjónauka ESO
  • lausþyrpingar

Í gögnum VISTA sem er innrauður kortlagningarsjónauki ESO í Paranal stjörnustöðinni, hefur alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga fundið 96 nýjar lausþyrpingar faldar á bakvið ryk í vetrarbrautinni okkar. Þyrpingarnar eru allar litlar og daufar og sáust því ekki í eldri kortlagningum. Þær sáust hins vegar greinilega með næmum innrauðum mælitækjum stærsta kortlagningarsjónauka heims. Þetta er í fyrsta sinn sem svo margar litlar og daufar þyrpingar hafa fundist í einu vetfangi.

Niðurstöðurnar koma aðeins einu ári eftir að VISTA Variables in the Via Lactea verkefnið (VVV) [1] hófst en það er eitt af sex opinberum kortlagningarverkefnum sjónaukans. Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

„Þessi uppgötvun sýnir vel getu VISTA og VVV kortlagningarinnar til að finna stjörnuþyrpingar, sér í lagi þær sem eru faldar á rykugum stjörnumyndunarsvæðum í skífu vetrarbrautarinnar. VVV kafar mun dýpra en eldri kortlagningarverkefni“ segir Jura Borissova, aðalhöfundur greinar um rannsóknina.

Stærstur hluti stjarna með meira en helming af massa sólar myndast í hópum sem kallast lausþyrpingar. Slíkar þyrpingar eru byggingareiningar vetrarbrauta eins og þeirrar sem við byggjum og því nauðsynlegar fyrir myndun og þróun þeirra. Lausþyrpingar myndast á mjög rykugum svæðum en rykið dreifir og gleypir stóran hluta af því sýnilega ljósi sem ungar nýmyndaðar stjörnur gefa frá sér. Þær birtast þess vegna ekki í flestum kortlagningarverkefnum en sjást greinilega með innrauða sjónaukanum VISTA sem er 4,1 metra breiður.

„Við beindum athyglinni að þekktum stjörnumyndunarsvæðum í vetrarbrautinni til að finna yngstu stjörnuþyrpingarnar. Í eldri kortlagningum á sýnilegu ljósi virðast þessi svæði tóm en innrauðu mælitækin í VISTA sýna að þar leynast fjölmörg áður óþekkt fyrirbæri“ segir Dante Minniti sem gegndi forystuhlutverki í VVV kortlagningunni.

Með sérstökum hugbúnaði gátu stjörnufræðingarnir fjarlægt stjörnur í forgrunni sem tilheyra ekki þyrpingunum og þannig talið stjörnurnar í þyrpingunum. Síðan mældu stjörnufræðingarnir stærðir þyrpinganna og í tilviki hinna stærstu voru líka gerðar mælingar á fjarlægð, aldri og geimroðnun, þ.e. hve mikið ljósið frá þyrpingunum roðnar þegar það ferðast í gegnum ryk í geimnum.

„Við fundum út að langflestar þyrpingarnar eru mjög smáar og innihalda aðeins 10-20 stjörnur. Þær eru því mjög daufar og litlar í samanburði við dæmigerðar lausþyrpingar. Rykið fyrir framan þær veldur því líka að þær sýnast 10.000 til 100 milljón sinnum daufari í sýnilegu ljósi. Það kemur þess vegna ekki á óvart hvers vegna þar hafa ekki fundist fyrri“ segir Radostin Kurtev þátttakandi í rannsókninni.

Frá upphafi hafa aðeins fundist 2.500 lausþyrpingar í vetrarbrautinni okkar en stjörnufræðingar áætla að allt að 30.000 gætu leynst á bakvið gas og ryk. Bjartar og stórar lausþyrpingar sjást auðveldlega en þetta er í fyrsta sinn sem svo margar daufar og litlar þyrpingar finnast í einu vetfangi.

Hugsanlega eru þessar 96 nýju lausþyrpingar því aðeins toppurinn á ísjakanum. „Við erum rétt að byrja að nota betri sjálfvirkan hugbúnað í leit að eldri og gisnari þyrpingum. Ég er sannfærður um að fleiri munu finnast fyrr en síðar“ bætir Borissova við.

Skýringar

[1] VISTA Variables in the Via Lactea verkefnið (VVV) gengur út á að skanna miðhluta vetrarbrautarinnar og suðurhluta vetrarbrautaskífunnar í innrauðu ljósi. Verkefnið hófst árið 2010 og fékk í heild úthlutuðum 1929 klukkutímum til mælinga á fimm ára tímabili. Via Lactea er latneska heitið á vetrarbrautinni okkar.

Frekari upplýsingar

Skýrt er frá þessari rannsókn í greininni „New Galactic Star Clusters in the VVV Survey“ sem birt er í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Að rannsókninni stóðu J. Borissova (Universidad de Valparaíso í Chile), C. Bonatto (Universidade Federal do Rio Grande do Sul í Brasilíu), R. Kurtev (Universidad de Valparaíso), J. R. A. Clarke (Universidad de Valparaíso), F. Peñaloza (Universidad de Valparaíso), S. E. Sale (Universidad de Valparaíso; Pontificia Universidad Católica í Chile), D. Minniti (Pontificia Universidad Católica, Chile), J. Alonso-García (Pontificia Universidad Católica), E. Artigau (Département de Physique og Observatoire du Mont Mégantic, Université de Montréal í Kanada), R. Barbá (Universidad de La Serena í Chile), E. Bica (Universidade Federal do Rio Grande do Sul), G. L. Baume (Instituto de Astrofísica de La Plata í Argentínu), M. Catelan (Pontificia Universidad Católica), A. N. Chenè (Universidad de Valparaíso; Universidad de Concepción í Chile), B. Dias (Universidade de Sao Paulo í Brasilíu), S. L. Folkes (Universidad de Valparaíso), D. Froebrich (The University of Kent í Bretlandi), D. Geisler (Universidad de Concepción), R. de Grijs (Peking University í Kína; Kyung Hee University í Suður Kóreu), M. M. Hanson (University of Cincinnati), M. Hempel (Pontificia Universidad Católica), V. D. Ivanov (European Southern Observatory), M. S. N. Kumar (Universidade do Porto í Portúgal), P. Lucas (University of Hertfordshire í Bretlandi), F. Mauro (Universidad de Concepción), C. Moni Bidin (Universidad de Concepción), M. Rejkuba (European Southern Observatory), R. K. Saito (Pontificia Universidad Católica), M. Tamura National Astronomical Observatory of Japan í Japan) og I. Toledo (Pontificia Universidad Católica).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Jura Borissova
Universidad de Valparaíso
Valparaíso, Chile
Tel: +56 32 299 5550
Cell: +56 9 82454638
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1128.

Tengdar myndir

  • VISTA, lausþyrpingarÍ gögnum frá VISTA hafa stjörnufræðingar fundið 96 nýjar lausþyrpingar faldar á bakvið ryk í vetrarbrautinni okkar. Á þessari mynd sjást þrjátíu þeirra. Mynd: ESO/J. Borissova