VLT horfir í augu meyjunnar

Sævar Helgi Bragason 24. ágú. 2011 Fréttir

ESO hefur birt fyrstu myndina í Cosmic Gems verkefninu sem er af óvenjulegu vetrarbrautapari
  • eso1131a

Þessa glæsilegu mynd af fallegu en óvenjulegu vetrarbrautapari sem kallað hefur verið Augun, var tekin með Very Large Telescope ESO. Stærri vetrarbrautin, NGC 4438, var eitt sinn þyrilþoka en hefur afmyndast vegna árekstra við aðrar vetrarbrautir á síðustu nokkur hundruð milljónum ára. Þetta er fyrsta myndin í Cosmic Gems verkefni ESO, framtaki sem ESO hefur veitt tíma í sjónaukum samtakanna í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings.

Augun eru í um 50 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Meyjunni. Aðeins um 100.000 ljósár skilja milli þeirra. Viðurnefnið má rekja til þess að í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka minna ljósleitar sporöskjulaga vetrarbrautirnar á augu.

Þótt kjarnar beggja vetrarbrauta séu keimlíkir gætu útjaðrar þeirra vart verið ólíkari. Vetrarbrautin niðri hægra megin kallast NGC 4435 og er þétt en gas- og ryksnauð. Í stóru vetrarbrautinni ofarlega vinstra megin (NGC 4438) sést áberandi rykrák rétt undir kjarnanum. Vinstra megin við hann er straumur ungra stjarna og gasslóði sem liggur milli enda myndarinnar.

Stjörnur og ryk hafa þeyst út úr NGC 4437 vegna áreksturs við aðra vetrarbraut. Við áreksturinn afskræmdist þyrillögun vetrarbrautarinnar. Sama mun gerast þegar vetrarbrautin okkar rekst á nágranna sinn Andrómedu eftir þrjá til fjóra milljarða ára.

Hugsanlega er NGC 4435 sökudólgurinn. Sumir stjörnufræðingar álíta að eyðilegginguna sem NGC 4438 varð fyrir megi rekja til þess að vetrarbrautirnar komust í innan við 16.000 ljósára fjarlægð frá hvor annarri fyrir um 100 milljónum ára. En á meðan stærri vetrarbrautin afmyndaðist urðu áhrifin á þá smærri mun meiri. Flóðkraftar milli vetrarbrautanna við samrunann eiga líklega sök á því að gas og stjörnur úr NGC 4438 þeyttust út í geiminn og að gas og ryk barst úr NGC 4435 og dró þannig úr massa hennar.

Einnig er mögulegt að stóra sporvöluþokan Messier 86, sem er lengra frá Augunum og sést ekki á myndinni, eigi sök á afskræmingu NGC 4438. Nýlegar mælingar hafa leitt í ljós strauma jónaðs vetnisgass sem tengir þessar vetrarbrautir saman en það bendir til þess að þær hafi rekist saman í fortíðinni.

Sporvöluþokan Messier 86 og Augun tilheyra stórum hópi vetrarbrauta sem kallast Meyjarþyrpingin. Í slíkum hópum eru árekstrar milli vetrarbrauta fremur tíðir svo hugsanlega hefur NGC 4438 orðið fyrir áhrifum bæði NGC 4435 og Messier 86.

Myndin sem hér sést er sú fyrsta sem búin er til í Cosmic Gems verkefni ESO. Þetta nýja framtak snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Þegar þessi mynd var tekin var lofthjúpurinn mjög stöðugur, jafnvel þótt nokkur ský væru á himninum, og er myndin þess vegna mjög skörp. Myndin var tekin með FORS2 [1] mælitækinu á VLT sjónaukanum í gegnum tvær litsíur: Rauða (litað rautt) og græn-gula (litað blátt). Lýsingartíminn í gegnum hvora síu nam 1800 og 1980 sekúndum.

Skýringar

[1] FORS2 er litrófsriti á VLT sjónaukanum fyrir sýnilegt og nær innrautt ljós. FORS2 er skammstöfun yfir FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph. Tækið er á VLT sjónauka 2.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Olivier R. Hainaut
ESO, Science Liaison, education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6752
Cell: +49 151 2262 0554
Email: [email protected]

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Tel: +49-89-3200-6761
Cell: +49-173-3872-621
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1131.