Spælt augnakonfekt

Sævar Helgi Bragason 28. sep. 2011 Fréttir

Stjörnufræðingar ESO hafa tekið mynd af risavaxinni stjörnu sem lítur út eins og spælt egg.

  • gulur reginrisi

Stjörnufræðingar hafa notað Very Large Telescope ESO og tekið mynd af risavaxinni stjörnu sem fellur í einn sjaldgæfasta flokk stjarna í alheiminum, gulra reginrisa. Nýja myndin er sú besta sem tekin hefur verið af stjörnu í þessu flokki og sýnir í fyrsta sinn tvær stórar rykskeljar sem umlykja reginrisann í miðjunni. Stjarnan og skeljarnar minna óneitanlega á eggjahvítu í kringum eggjarauðu en einmitt þess vegna gáfu stjörnufræðingar henni nafnið Spæleggsþokan.

Þessi skrímslastjarna kallast IRAS 17163-3907 [1] og er um það bil þúsund sinnum breiðari en sólin okkar. Hún er nálægasti guli reginrisi sem fundist hefur hingað til í um 13.000 ljósára fjarlægð og sýna nýju mælingarnar að hún er 500.000 sinnum bjartari en sólin okkar [2].

„Við vissum að þetta fyrirbæri skein skært á innrauða sviðinu en þótt ótrúlegt megi virðast hefur engum dottið í hug fyrr en nú að um væri að ræða gulan reginrisa“ segir Eric Lagadec (Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli) sem fór fyrir hópnum sem tók myndina.

Mælingar á stjörnunni og uppgötvunin á skeljunum í kringum hana voru gerðar með innrauðu myndavélinni VISIR á VLT sjónaukanum. Þetta er fyrsta myndin af þessu fyrirbæri sem sýnir greinilega næstum fullkomlega kúlulaga efnisskeljar í kringum stjörnuna.

Væri Spæleggsþokan í miðju okkar sólkerfis lægi jörðin djúpt í iðrum stjörnunnar sjálfrar en Júpíter væri skammt fyrir ofan yfirborð hennar. Sjálf þokan er umtalsvert stærri og myndi gleypa allar reikistjörnurnar, dvergreikistjörnunnar og jafnvel sumar halastjörnur sem finna má handan við braut Neptúnusar. Radíus ytri skeljarinnar er 10.000 sinnum meiri en sem nemur fjarlægðinni milli jarðar og sólar.

Gulir reginrisar eru á mjög virku skeiði í ævi sinni og í þeim verða sprengingar reglulega. Á nokkur hundruð árum hefur þessi stjarna varpað frá sér fjórföldum massa sólar [3]. Efnið sem þeyttist út við þessar skvettur myndaði skeljarnar tvær sem eru úr ryki úr sílíkötum blönduðu gasi.

Þessi mikla virkni sýnir að stjarnan mun líklega deyja fyrr en síðar sem sprengistjarna — hún er ein þeirra stjarna sem mun springa næst í vetrarbrautinni okkar [4]. Í sprengistjörnum verða til hráefnin sem þarf í nýjar stjörnur og höggbylgjurnar sem hrinda myndun stjarna af stað.

Þessi gómsæta mynd af Spæleggsþokunni var tekinn í gegnum þrjár mið-innrauðar síur (litaðar bláar, grænar og rauðar) í VISIR mælitækinu á Very Large Telescope [5].

Skýringar

[1] Nafnið vísar til þess að fyrirbærið fannst fyrst sem uppspretta innrauðrar geislunar í gögnum IRAS gervitunglsins árið 1983. Tölurnar vísa til staðsetningar stjörnunnar á himinhvolfinu, í stjörnumerkinu Sporðdrekanum í hjarta vetrarbrautarinnar.

[2] IRAS 17163-3907 er ein af 30 björtustu stjörnum innrauða himinsins á þeirri 12 míkrómetra bylgjulengd sem IRAS mældi. Hún hefur hingað til farið framhjá mönnum því hún er fremur dauf í sýnilegu ljósi.

[3] Stjarnan er talin ríflega tuttugu sinnum massameiri en sólin okkar.

[4] Þegar stjörnur sem eru meira en tíu sólmassar hafa brennt öllum vetnisforða sínum breytast þær í rauða reginrisa. Því skeiði lýkur þegar stjarnan hefur brennt öllum helíumforða sínum. Sumar þessara hámassastjarna verja síðan aðeins nokkrum milljónum ára af ævi sinni sem gulir reginrisar eftir að rauða reginrisaskeiðinu lýkur. Það er tiltölulega skammur tími í ævi stjörnu en eftir það þróast hún hratt yfir í aðra óvenjulega tegund stjörnu, bjarta bláa breytistjörnu. Þessar heitu og skæru stjörnur breyta birtu sinni stöðugt og glata efni vegna sterkra vinda sem þær gefa frá sér. Ævintýralegri þróun stjörnunnar er þó ekki lokið því næst verður hún að annarri tegund óstöðugrar stjörnu sem kallast Wolf-Rayet stjarna (http://www.eso.org/public/images/wr124/) uns hún endar ævi sína sem sprengistjarna.

[5] Mið-innrauðu síurnar þrjár sem notaðar voru, hleypa í gegn ljósi með bylgjulengd í kringum 8.590 nanómetra (litað blátt), 11.850 nm (litað grænt) og 12.810 nm (litað rautt).

Frekari upplýsingar

Sagt er frá þessari rannsókn í greininni „A double detached shell around a post-Red Supergiant: IRAS 17163-3907, the Fried Egg nebula“ eftir E. Lagadec et al., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknateyminu eru E. Lagadec (ESO, Garching í Þýskalandi), A.A. Zijlstra (Jodrell Bank Center For Astrophysics í Manchester í Bretlandi), R.D. Oudmaijer (University of Leeds í Bretlandi), T. Verhoelst (Instituut voor Sterrenkunde í Leuven í Belgíu), N.L.J. Cox (Instituut voor Sterrenkunde), R. Szczerba (N. Copernicus Astronomical Center í Torun í Póllandi), D. Mékarnia (Observatoire de la Côte d'Azur í Nice í Frakklandi) og H. van Winckel (Instituut voor Sterrenkunde).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Dr Eric Lagadec
Astronomer, ESO
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6932
Email: [email protected]

Richard Hook
Public Information Officer, ESO
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1136.

Tengdar myndir

  • gulur reginrisiÞokan í kringum IRAS 17163-3907, sjaldgæfan gulan reginrisa. Þetta er besta mynd sem tekin hefur verið af stjörnu af þessu tagi og sýnir í fyrsta sinn tvöfalda efnisskel sem umlykur reginrisann í miðjunni. Stjarnan og skelin líkjast eggjahvítu í kringum rauðuna í miðjunni. Mynd: ESO/E. Lagadec

Krakkavæn útgáfa