Vetrarbraut blæs í kúlur

Sævar Helgi Bragason 29. sep. 2011 Fréttir

Ný mynd frá Hubblessjónaukanum heljastórar gasskúlur í óreglulegri dvergvetrarbraut

  • Holmberg II, óregluleg dvergvetrarbraut,

Frægar myndir Hubblessjónaukans af vetrarbrautum sýna iðulega tignarlegar þyrilþokur eða mjúkar sporvölur. Þessi smekklegu form eru eingöngu dæmigerð fyrir stórar vetrarbrautir. Minni vetrarbrautir, eins og óreglulega dvergvetrarbrautin Holmberg II, eru alla vega í laginu og því reynist oft erfitt að flokka þær. Hið óræða form þessarar þoku kóróna heljarstórar gaskúlur, sem sjást á þessari mynd Hubblessjónauka NASA/ESA.

Margbrotnar glóandi gasskeljar í Holmberg II mynduðu margar kynslóðir orkuríkra stjarna. Hámassastjörnur myndast í þéttum gasskýjum og senda síðar á ævi sinni frá sér mikla stjörnuvinda sem blása burt nærliggjandi efni. Ellihrumar deyja þær sem sprengistjörnur. Höggbylgjur rífa sig í gegnum þynnra gas sem umlykur þær, bifar því burt og hitar það. Við þetta myndast þunnar gasskeljar sem við sjáum nú.

Í Holmberg II leynast þétt stjörnumyndunarsvæði og mikil snauð svæði með litlu efni, sem teygja sig yfir þúsundir ljósára. Sem dvergþoka hefur hún hvorki þyrilarma eins og þá sem vetrarbrautin okkar skartar, né þéttan kjarna líkt og títt er í sporvöluþokum. Því er Holmberg II, í þyngdarfræðilegu tilliti, viðkvæm vin þar sem brothættar myndanir á borð við þessar kúlur, geta haldið lögun sinni.

Þó stærð vetrarbrautarinnar sé ekki sérlega athygliverð, leynast þar heillandi fyrirbæri. Jafnframt því að vera undarleg í laginu — sem tryggði henni stað í lista Halton Arp yfir óvenjulegar vetrarbrautir, fjársjóðshirslu skrýtinna og skemmtilegra fyrirbæra—þá hýsir vetrarbrautin sérlega bjarta röntgenuppsprettu. Röntgengeislunin berst frá miðju hinna þriggja gaskúla, sem sjást efst til hægri á myndinni. Nokkrar tilgátur eru um hvað orsaki þessa miklu geislun. Einn möguleiki er sá að meðalstórt svarthol leynist þar sem gleypir til sín efni úr umhverfinu.

Myndin er samsett úr myndum teknar á sýnilega og innrauða hluta litrósins sem teknar voru með Wide Field Channel á Advanced Camera for Surveys sem er á Hubblessjónaukanum.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tenglar

Myndir af Hubblessjónaukanum

Tengiliðir

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Oli Usher Hubble/ESA
Garching, Þýskalandi
Sími: +49-89-3200-6855
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • Holmberg IIMynd Hubble geimsjónaukans af óreglulegu dvergvetrarbrautinni Holmberg II. Í vetrarbrautinni eru stórar glóandi gaskúlur þar sem stjörnur eru að myndast. Hámassastjörnur myndast í þéttum gasskýjum og senda síðar á ævi sinni frá sér mikla stjörnuvinda sem blása burt nærliggjandi efni. Ellihrumar deyja þær sem sprengistjörnur. Höggbylgjur rífa sig í gegnum þynnra gas sem umlykur þær, bifar því burt og hitar það. Við þetta myndast þunnar gasskeljar sem við sjáum nú. Mynd: NASA/ESA
  • Holmberg IISvæðið í kringum Holmberg II á himinhvelfingunni. Mynd: NASA/ESA/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.