Nýtt og veglegt tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðun komið út

Sævar Helgi Bragason 23. nóv. 2011 Fréttir

Út er komið glæsilegt tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðun sem áhugafólk um vísindi ætti ekki að láta framhjá sér fara.

  • Forsíða Undur alheimsins: Tímarit um stjörnufræði og stjörnustkoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hafa gefið út Undur alheimsins: Tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Blaðið er afar veglegt, 84 litríkar blaðsíður prentaðar á vandaðan vistvænan pappír. Efnistök eru fjölbreytt og prýða margar glæsilegar stjörnuljósmyndir blaðið. Blaðið fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins og er tilvalið í jólapakka alls vísindaáhugafólks!

Seinasta tímarit kom út stjörnufræðiárið 2009. Því var löngu kominn tími á nýtt. „Við vildum gera blaðið enn veglegra en síðast og vonum að það hafi tekist. Einn angi af því er að blaðinu fylgja tvær glæsilegar stjörnuskífur sem sýna stjörnuhimininn yfir Íslandi að hausti og vori“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri blaðsins og formaður Stjörnuskoðunarfélagsins.

Fjöldi glæsilegra stjörnuljósmynda prýða blaðið og efnistök eru fjölbreytt. Í blaðinu eru fróðlegar greinar um stærsta stjörnusjónauka heims, fjallað um fyrstu stjörnurnar sem lýstu upp alheiminn og hvernig menn hyggjast koma auga á þær með hjálp James Webb geimsjónaukans og sagt frá áhugamönnum sem útbúa glæsileg listaverk úr ljósmyndum sem ómönnuð geimför hafa tekið af reikistjörnunum.

Rætt er við tvo mjög áhugasama félagsmenn sem hafa komið sér upp eigin aðstöðu til stjörnuskoðunar í görðunum sínum sitt hvoru megin á landinu, fjallað um Stjörnu-Odda félagið, nýjasta stjörnuskoðunarfélag landsins og sagt frá einstökum stjarnfræðilegum atburði sem sést frá Íslandi í júní árið 2012. Í grein sinni um opið hús í Edmonton fjallar ritari félagsins, Sverrir Guðmundsson, um kanadískt áhugafélag og það blómlega starf sem þar fer fram.

Blaðið er fyrir áhugafólk á öllum aldri um vísindi og stjörnufræði. Blaðið fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins [1] og er tilvalið í jólapakka vísindaáhugafólks!

Skýringar

[1] Hægt er að tryggja sér eintak í Bóksölu stúdenta, bókaverslunum Pennans/Eymundsson og víðar.

Blaðið er einnig til sölu á þeim viðburðum sem Stjörnuskoðunarfélagið tekur þátt í.

Frekari upplýsingar

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og stærsta félag áhugamanna um stjörnufræði og stjörnuskoðun á Íslandi. Félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins sem er á þaki Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Í dag eru félagsmenn rúmlega 300. Félagið er öllum opið og eru félagsfundir haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann. Undanfarin ár hefur félagsgjaldið verið 2.500 krónur á ári. Ár hvert stendur félagið fyrir margvíslegum uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning og þátttöku í Vísindavöku Rannís auk annarra atburða. Heimasíða félagsins er www.astro.is.

Stjörnfræðivefurinn (www.stjornufraedi.is) er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Vefnum er ætlað að efla áhuga og auðvelda aðgengi almennings á vönduðu efni um stjarnvísindi. Á vefnum eru mikill fjöldi greina um allt frá sjónaukum og reikistjörnum til svarthola og vangaveltna um líf í alheimi. Í viku hverri birtast á vefnum fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjarnvísindum. Mynd vikunnar er á sínum stað og í hverjum mánuði er gefið út Stjörnukort mánaðarins.

Árið 2011 var Stjörnuskoðunarfélaginu og Stjörnufræðivefnum veittar tvær viðurkenningar fyrir framúrskarandi vísindamiðlun frá Rannís annars vegar og Siðmennt hins vegar.

Tengiliðir

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1114

Tengdar myndir

  • Undur alheimsins, tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðunUndur alheimsins: Tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðun (forsíða)
  • Undur alheimsins, tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðunSýnishorn af grein um þvergöngu Venusar
  • Undur alheimsins, tímarit um stjörnufræði og stjörnuskoðunSýnishorn af grein um fyrstu stjörnur alheimsins