E-ELT færist nær veruleikanum

Sævar Helgi Bragason 08. des. 2011 Fréttir

Yfirstjórn ESO hefur samþykkt að hefja undirbúningsvinnu fyrir European Extremely Large Telescope (E-ELT) — stærsta auga jarðar!

  • eso1150a

Yfirstjórn European Southern Observatory, ESO ráðið, hefur samþykkt fjárhagsáætlun ESO fyrir árið 2012. Þar er meðal annars gert ráð fyrir undirbúningsvinnu við veg upp á tind Cerro Armazones, þar sem E-ELT verður staðsettur og þróun á nokkrum mikilvægum sjóntækjum sjónaukans. Nú þegar hafa nokkur aðildarríki ESO skuldbundið sig til að leggja aukafjárframlag til verkefnisins svo búast má við að lokaákvörðun um E-ELT verkefnið í heild sinni verði tekin um mitt ár 2012.

Á 124. fundi sínum í höfuðstöðvum ESO dagana 7.-8. desember 2011, samþykkti ESO ráðið fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 en í henni er gert ráð fyrir fjármögnun fyrstu þátta E-ELT verkefnisins. Þar á meðal er undirbúningsvinna við veg upp á tind Cerro Armazones, þar sem sjónaukinn verður staðsettur, og vinna við nokkra krefjandi spegla fyrir aðlögunarsjóntæki sjónaukans (M4 — þ.e. spegill fjögur af fimm í sjónaukanum). Þessi vinna hefst snemma árs 2012. Búist er við að ráðið leggi blessun sína yfir allt E-ELT verkefnið um mitt ár 2012.

Undanfarna fimm mánuði hefur góður gangur verið í E-ELT verkefninu. Í október 2011 undirrituðu ESO og ríkisstjórn Chile samkomulag sem fól í sér gjöf á landi undir sjónaukann og stuðning ríkisstjórnarinnar við verkefnið (eso1139). Í sama mánuði staðfesti utanaðkomandi aðili að hægt yrði að smíða E-ELT fyrir áformaðan kostnað sem hljóðar upp á 1.082 milljónir evra (miðað við verðgildi evru 2012).

Aðrar ítarlegar kannanir höfðu þegar sýnt fram á að hönnunin er tæknilega traust. Á fundi sínum í september 2010 lýsti Vísinda- og tækninefnd ESO (STC) yfir stuðningi við þróunaráætlun fyrstu mælitækjanna sem komið verður fyrir á E-ELT.

Nákvæm byggingarlýsing, E-ELT Construction Proposal, 264 blaðsíðna bók sem segir frá öllum þáttum verkefnisins í smáatriðum, hefur nú verið gefin út auk samantektar framkvæmdarstjórnar.

Öll aðildarríki ESO eru áköf um að stefna E-ELT verkefninu fram á við og hafa þess vegna öll samþykkt hvernig aukakostnaði við þetta stóra verkefni skuli deilt milli þjóða. Þrjú aðildarríki ESO, Tékkland, Svíþjóð og Finnland, hafa þegar lagt til aukafjárframlög. Nokkur önnur aðildarríki, þar á meðal Þýskaland, stærsta aðildarríki ESO, hafa líka lýst því yfir að þau eigi nú kost á að styðja verkefnið fjárhagslega. Búist er við að um mitt ár 2012 hafi nógu mörg aðildarríki skuldbundið sig fjárhagslega til að ráðið veiti lokasamþykki sitt fyrir E-ELT verkefninu [1]. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að Brasilía verði þá orðið fullgilt aðildarríki ESO.

„E-ELT er smám saman að verða að veruleika. Hins vegar er verkefnið af slíkri stærðargráðu að búast má við að það taki tíma til að fá samþykki fyrir aukafjárveitingum. Á sama tíma viðurkennir ráðið nauðsyn þess að undirbúningsvinna geti hafist svo hægt sé að hefja fulla vinnu við það árð 2012“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

Nýlega hafa einnig nokkur stór framlög komið frá þjóðum til að fjármagna sjónaukann og tæki hans (ann11067).

Á fundinum hlaut Xavier Barcons prófessor frá Spáni einnig einróma kosningu sem næsti forseti ráðsins. Ráðið samþykkti líka að ráða verkefnisstjóra fyrir E-ELT og er umsækjenda nú leitað.

E-ELT er stærsta verkefni sem ESO hefur ráðist í en sjónaukinn verður stærsta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu og innrauðu ljósi. Búist er við að E-ELT verði tekinn í notkun snemma næsta áratug.

Skýringar

[1] Ráðið hefur fallist á að hægt verði að samþykkja verkefnið áður en öll aukafjárframlög aðildarríkjanna liggja fyrir.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6761
Cell: +49 173 3872 621
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1150.

Tengdar myndir

  • European Extremely Large Telescope, E-ELTSýn listamanns á European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones, 3.060 metra háu fjalli í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Þessi 40 metra breiði sjónauki verður stærsta stjörnustöð heims þegar hann verður tekinn í notkun snemma næsta áratug. Mynd: ESO/L. Calçada
  • European Extremely Large Telescope, E-ELTSýn listamanns á aðlögunarsjóntækni European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones, 3.060 metra háu fjalli í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Fjórum leysigeislum verður skotið upp í himininn þar sem þeir búa til gervistjörnu sem tryggir hnífskarpar myndir af alheiminum. Þessi 40 metra breiði sjónauki verður stærsta stjörnustöð heims þegar hann verður tekinn í notkun snemma næsta áratug. Mynd: ESO/L. Calçada
  • European Extremely Large Telescope, E-ELTVerið er að prófa nokkrar spegileiningar risaspegils E-ELT í höfuðstöðvum ESO í Garching í Þýskalandi. Á myndinni sést verkfræðingur stilla stuðningskerfið sem stýrir lögun og staðsetingu eins af 798 einingum sem mynda munu safnspegil sjónaukans. Mynd: ESO