Vetrarbraut sem blómstrar af nýjum stjörnum

VLT Survey Telescope tekur víðmynd af NGC 253

Sævar Helgi Bragason 15. des. 2011 Fréttir

Ný og falleg víðmynd af nálægri þyrilvetrarbraut sýnir vel hversu skarpar myndir nýjasta sjónaukans í Paranal stjörnustöð eru.
  • NGC 253, hrinuvetrarbraut, þyrilvetrarbraut, þyrilþoka

Þessa nýju og fallegu víðmynd af NGC 253, nálægri þyrilvetrarbraut, tók VLT Survey Telescope (VST). Myndin er líklegast sú besta sem tekin hefur verið af vetrarbrautinni og nágrenni hennar. Hún sýnir vel hversu vítt sjónsvið VST, nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO, hefur en líka hve skarpar myndir hans eru.

NGC 253 er í rúmlega ellefu milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Myndhöggvaranum. Hún er þess vegna oft kölluð Myndhöggvaraþokan en ber líka nöfn eins og Silfurpeningurinn eða Silfurdollarinn. Auðvelt er að koma auga á hana með handsjónauka því hún er ein bjartasta vetrarbraut næturhiminsins á eftir Andrómeduþokunni, næsta stóra nágranna okkar vetrarbrautar.

Stjörnufræðingar hafa tekið eftir mikilli stjörnumyndun í NGC 253 og kalla hana því hrinuvetrarbraut [1]. Margir björtu kekkirnir í vetrarbrautinni eru stjörnumyndunarsvæði þar sem ungar stjörnur eru nýorðnar til. Geislunin frá þessu stóra bláhvíta ungviði lýsir upp vetnisgasskýin í kring svo þau skína skært (græn á myndinni).

Þýsk-breski stjörnufræðingurinn Caroline Herschel uppgötvaði þessa þyrilþoku árið 1783 er hún leitaði halastjarna. Hún var systir Williams Herschel, stjörnufræðingsins fræga. Þau systkinin hefðu eflaust gapt af undrun hefðu þau séð þessa skýru og skörpu mynd VST af NGC 253.

Myndin var tekin á meðan prófanir stóðu yfir á sjónaukanum. Gögnum frá VST var skeytt saman við innrauðar ljósmyndir VISTA (eso0949) svo unnt væri að greina yngstu stjörnurnar í vetrarbrautinni. Myndin er yfir 12.000 pixlar á breidd en þökk sé þeim framúrskarandi aðstæðum sem ríkja í Paranal stjörnustöðinni og gæðum tækjanna verða myndirnar hnífskarpar eins og sjá má.

VST er 2,6 metra breiður kortlagningarsjónauki með eins gráðu sýndarsjónsvið sem er tvöfalt breiðara en stærð fulls tungls á himninum [2]. VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu og ESO. Hann er útbúinn stórri 268 megapixla myndavél, OmegaCAM, sem gerir honum kleift að kortleggja himininn hratt en jafnframt eru gæði myndanna mikil. VST er stærsti sjónauki veraldar sem er hannaður sérstaklega til að kortleggja himininn í sýnilegu ljósi og bætir þess vegna upp athuganir VISTA, innrauða kortlagningarsjónauka ESO sem einnig er í Paranal stjörnustöðinni.

Sé þysjað inn á myndina sjást ekki aðeins smáatriði í sjtörnumyndunarsvæðum þyrilarmanna, heldur einnig enn fjarlægari vetrarbrautir handan við NGC 253.

Skýringar

[1] Frekari upplýsingar um NGC 253 hafa fengist með Very Large Telescope (VLT) ESO og Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Árið 2009 sýndu báðir sjónaukar að í miðju NGC 254 er risasvarthol með svipaða eiginleika og svartholið sem lúrir í miðju okkar vetrarbrautar (sjá eso0902).

[2] Myndin sem hér sést hefur verið klippt til og er því minni en fullt sjónsvið VST.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Massimo Capaccioli
University of Naples Federico II and INAF-Capodimonte Astronomical Observatory
Naples, Italy
Tel: +39 081 557 5601
Cell: +39 335 677 6940
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1152.

Tengdar myndir

  • Þyrilvetrarbrautin NGC 253 á mynd VLT Survey Telescope (VST). Þetta er besta víðmynd sem tekin hefur verið af vetrarbrautinni og sýnir glöggt björt stjörnumyndunarsvæði í þyrilörmunum. Mynd: ESO/INAF-VST. Þakkir: A. Grado/L. Limatola/INAF-Capodimonte Observatory
  • NGC 253, MyndhöggvaraþokanSvæðið í kringum NGC 253 í stjörnumerkinu Myndhöggvaranum. Myndin er búin til úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Vetrarbrautin er í rúmlega 11 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakki: Davide De Martin.