Nýjar uppgötvanir Keplerssjónaukans

Smæsta sólkerfið og reikistjörnur á braut um tvístirni

Sævar Helgi Bragason 12. jan. 2012 Fréttir

Keplerssjónauki NASA hefur fundið smæsta sólkerfi sem fundist hefur hingað til og tvær reikistjörnur á braut um tvö tvístirnakerfi.

  • KOI-961, Keplerssjónaukinn

Stjörnufræðingar hafa með hjálp Keplerssjónauka NASA uppgötvað þrjár smæstu reikistjörnurnar sem fundist hafa á braut um aðra stjörnu sem líkist sólinni. Allar reikistjörnunar eru smærri en jörðin, sú smæsta á stærð við Mars. Með sama sjónauka hafa stjörnufræðingar einnig fundið tvær reikistjörnur á braut um tvístirnakerfi. Sú uppgötvun sýnir að slík sólkerfi eru hreint ekki sjaldgæf í vetrarbrautinni okkar.

Reikistjörnurnar þrjár eru á braut um rauða dvergstjörnu sem kallast KOI-961. Hún er í 130 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Svaninum. Stjarnan er um það einn-sjötti af stærð sólar og þvi aðeins um 70% af stærri en Júpíter.

Af meira en 700 fjarreikistjörnum sem fundist hafa eru tiltölulega fáar berghnettir. Uppgötvun þriggja bergreikistjarna á braut um rauðan dverg, algengustu tegund stjarna í vetrarbrautinni, bendir til þess að í vetrarbrautinni sé mýgrútur bergreikistjarna. Uppgötvunin rennir líka stoðum undir þá hugmynd að í vetrarbrautinni okkar séu reikistjörnur regla frekar en undantekning (eso1204).

Reikistjörnurnar bera skráarheitin KOI-961.01, KOI-961.02 og KOI-961.03. Þær eru 78%, 74% og 57% af stærð jarðar. Allar eru þær berghnettir eins og innstu reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar en miklu nærr sinni stjörnu. Þær eru því of heitar til að vera lífvænlegar. Umferðartími allra um móðurstjörnuna er innan við tveir dagar.

KOI-961 er smæsta sólkerfi sem fundist hefur hingað til. Því mætti ef til vill heldur líkja við Júpíter og tungl hans en nokkuð annað þekkt sólkerfi. Þessi uppgötvun sýnir glöggt hversu fjölbreytt sólkerfin í vetrarbrautinni okkar eru.

Nýju reikistjörnurnar fundust í gögnum Keplerssjónaukans sem gerð hafa verið opinber. Stjörnufræðingarnir fundu út stærðir þeirra með hjálp tvíburastjörnu KOI-961, Barnardsstjörnunni, sem er mikið rannsökuð. Þannig fékkst betri skilningur á KOI-961 sem leiddi til þess að unnt var að finna út hversu stórar reikistjörnurnar hlytu að vera til að valda þeirri ljósdeyfingu sem Keplerssjónaukinn mældi. Siðan voru sjónaukar á jörðu niðri notaðir til að staðfesta mælingarnar.

Nýjar reikistjörnur á braut um tvístirni

stj1201c
Sýn listamanns á reikistjörnuna Kepler-35b, gasrisa á stærð við Satúrnus, sem hringsólar um tvær sólir. Mynd: © Mark A. Garlick / space-art.co.uk

Í september 2011 tilkynntu stjörnufræðingar sem starfa við Keplerssjónaukann um uppgötvun á Kepler-16b, fyrstu reikistjörnurna sem finnst á braut um tvær sólir eins og Tatooine í Stjörnustríði, heimapláneta Loga geimgengils.

Nú hafa stjörnufræðingar fundið tvær aðrar reikistjörnur sem hringsóla um tvö önnur tvístirni — Kepler-34 og Kepler-35. Tilkynnt var um uppgötvunina á 219. fundi bandaríska stjarnvísindafélagsins í Austin í Texas.

Uppgötvunin sýnir að Kepler-16b er ekki einstakt tilvik heldur eru reikistjörnur á braut um tvístirni algengar og líklega í milljónatali í vetrarbrautinni okkar.

Reikistjörnurnar nefnast Kepler-34b og Kepler-35b. Báðar eru gashnettir á stærð við Satúrnus.

Kepler-34b er á braut um tvær stjörnur sem líkjast sólinni í 4.900 ljósára fjarlægð. Umferðartími hennar um stjörnurnar er 269 dagar en umferðartími stjarnanna um sameiginlega massamiðju er aðeins 28 dagar.

Kepler-35b er öllu fjarlægari eða 5.400 ljósár. Umferðartími hennar umhverfis smærri og kaldari móðurstjörnuna er 131 dagar en umferðartími stjarnanna sjálfra er 21 dagur.

Báðar reikistjörnur eru of nálægt móðurstjörnunum til að vera í lífbeltinu, því svæði í sólkerfi þar sem vatn getur verið á fljótandi formi á yfirborðinu.

Þessar nýju uppgötvanir koma fljótt í kjölfar nýrra og merkilegra uppgötvana Keplerssjónaukans. Í desember 2011 sögðu stjörnufræðingar frá því að fundist hefði reikistjarna í lífbelti stjörnu sem líkist sólinni okkar. Sú reikistjarna, Kepler-22b, er 2,4 sinnum stærri en jörðin.

Í sama mánuði tilkynntu stjörnufræðingar að sjónaukinn hefði fundið sínar fyrstu reikistjörnur — Kepler-20e og Kepler-20f — sem eru á stærð við jörðina og á braut um stjörnur sem líkjast sólinni okkar.

Keplerssjónaukinn leitar að reikistjörnum með því að fylgjast með örsmáum birtubreytingum sem verða þegar reikistjörnur ganga þvert fyrir móðurstjörnur sínar. Þessar þvergöngur verða að mælast í þrígang til að hægt sé að staðfesta að um reikistjörnu sé að ræða. Staðfesta verður mögulega reikistjörnur með mælingum frá jörðu niðri.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1201

Tengdar myndir

  • KOI-961, KeplerssjónaukinnSýn listamanns á sólkerfið KOI-961 sem er hið smæsta sem fundist hefur hingað til. Allar reikistjörnurnar þrjár, sem eru á braut um rauðan dverg, eru smærri en jörðin, sú minnsta á stærð við Mars. Mynd: NASA/JPL-Caltech
  • KOI-961, Júpíter, samaburðurSamanburður á reikistjörnunni Júpíter og Galíleótunglunum og sólkerfinu KOI-961. Mynd: NASA/JPL-Caltech
  • Kepler-35Sýn listamanns á reikistjörnuna Kepler-35b, gasrisa á stærð við Satúrnus, sem hringsólar um tvær sólir. Mynd: © Mark A. Garlick / space-art.co.uk
  • Leitarsvæði Keplerssjónaukans milli Svansins og HörpunnarKepler starir á 150.000 stjörnur á svæðinu milli Svansins og Hörpunnar. Mynd: Carter Roberts
  • Tölvugerð mynd af KeplerssjónaukanumTölvugerð mynd af Keplerssjónaukanum.