Stjörnufræðivefurinn þróar kennsluforrit fyrir iPad

Sævar Helgi Bragason 02. feb. 2012 Fréttir

Stjörnufræðivefurinn vinnur nú að þróun gagnvirks kennsluforrits í náttúrufræði fyrir iPad ásamt kennurum í Norðlingaskóla í Reykjavík.

  • Norðlingaskóli, iPad, Stjörnufræðivefurinn

Stjörnufræðivefurinn vinnur nú að þróun gagnvirks kennsluforrits í náttúrufræði fyrir iPad ásamt Norðlingaskóla í Reykjavík. Vonir standa til um að forritið verði prófað í kennslu haustið 2012.

Í lok janúar 2012 hófst sameiginlegt tilraunaverkefni Norðlingaskóla, Upplýsinga- og tæknimiðstöðvar Reykjavíkurborgar, Námsgagnastofnunar, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Epli.is um notkun iPad í kennslu á unglingastigi. Markmið þess er að skoða og meta gagnsemi iPad spjaldtölva í kennslu og gera samanburð á notkun þeirra og þeirrar tækni sem fyrir er. Verkefnið mun standa fram á vor 2013.

„iPad býður upp á gríðarmikla möguleika til gagnvirkni sem gaman er að nota“ segir Ragnar Þór Pétursson, náttúrufræðikennari við Norðlingaskóla. „Meginmarkmiðið er að efnistökin brúi bilið milli fræðslu og leiks: Að nemandinn fræðist en hafi gaman af því og hafi möguleika á að stýra ferðinni sjálfur.“

Norðlingaskóli er einn af yngri skólum landsins en hefur þegar skapað sér nafn sem framsækinn og tilraunagjarn skóli. Notkun upplýsingatækni í námi nemenda er í sérflokki og til að mynda var 60-70% af lesefni margra nemenda unglingastigsins rafrænt áður en iPad verkefnið kom til tals.

Í þrjú ár hefur náttúrufræðikennsla við skólann verið algjörlega rafræn. Nemendur nota námsvef og Facebook og hafa starfshættir skólans verið notaðir sem dæmi um það sem fremst er í notkun upplýsingatækni í kennslu í grunnskólum. „Vegna þessarar nálgunar hefur verið mögulegt að kenna um uppgötvanir og viðburði nokkurn veginn um leið og þeir gerast“ segir Ragnar.

Stjörnufræðinámsefnið er undirverkefni sem varð fyrir valinu vegna þess að á síðustu árum hefur orðið bylting í stafrænni miðlun upplýsinga í stjörnufræði, á Íslandi sem annarsstaðar. Gríðarlega ör þróun stjörnufræðinnar kallar á nýja hugsun í kennslu greinarinnar. Prentaðar bækur duga ekki lengur til.

„Að sækja í smiðju aðstandenda Stjörnufræðivefsins var augljós kostur,“ segir Ragnar Þór, „enda er það mat okkar í Norðlingaskóla að Stjörnufræðivefurinn sé algjörlega í sérflokki þegar kemur að því að gera mikið magn upplýsinga aðgengilegt og áhugavert. Þeir sem að vefnum standa hafa sýnt mikinn metnað og vilja til þess að nýta þá möguleika sem upplýsingatækni hefur fært okkur til gagnlegrar, fróðlegrar en, umfram allt, áhugaverðrar vísindamiðlunar. Það er sjaldgæft að jafn mikið af jafn vandaðri vinnu sé hreinlega gefið hverjum sem hefur rænu eða áhuga á að nýta sér hana. En ástríða þeirra félaga er slík að það þurfti ekki að biðja þá tvisvar um að gera þessa tilraun. Það er þessi áhugi og þetta kapp sem við þurfum að glæða með nemendum okkar.“

„Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að leitað var til okkar um gerð námsefnis í náttúrufræði fyrir þetta verkefni“ segir Sævar Helgi Bragason, einn umsjónarmanna Stjörnufræðivefsins. „Við vitum að grunn- og framhaldsskólar eru í auknum mæli farnir að nota vefinn í stað hefðbundinnar kennslubókar. Við ætlum okkur ekki aðeins að þróa gagnvirkt forrit fyrir iOS stýrikerfi, heldur líka gera tilraunir með útgáfu á gagnvirkri kennslubók með nýja iBooks Author hugbúnaði Apple. Brátt verða nemendur með alheiminn í skólatöskunni sinni.“

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Ragnar Þór Pétursson
Norðlingaskóli
Sími: 411-7640
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1202

Tengdar myndir

  • Norðlingaskóli, iPad, StjörnufræðivefurinnNemendur í Norðlingaskóla í Reykjavík skoða Stjörnufræðivefinn með iPad. Mynd: Norðlingaskóli