Sígild svipmynd af bjálkaþyrilþoku

Hubble kannar NGC 1073

Sævar Helgi Bragason 05. feb. 2012 Fréttir

Hubblessjónaukinn hefur tekið mynd af bjálkaþyrilþoku sem líkist vetrarbrautinni okkar og í leiðinni greint miklu fjarlægari fyrirbæri.

  • NGC 1073, bjálkaþyrilþoka

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur nú fest á mynd bjálkaþyrilþokuna NGC 1073 sem situr í stjörnumerki Hvalsins. Vetrarbrautin okkar er samskonar bjálkaþyrilþoka en könnun vetrarbrauta á borð við NGC 1073 hjálpar stjörnufræðingum að skilja okkar eigin heimabyggð.

Flestar þyrilþokur í alheiminum geyma bjálka í miðjunni og mynd Hubbles af NGC 1073 býður sérstaklega skarpa sýn á eina slíka. Stjörnum prýddir bjálkar eru álitnir myndast við þyngdarþéttleikabylgjur sem trekkja gas í átt að miðju vetrarbrautarinnar okkar, sem skaffar efni í nýjar stjörnur. Flutningur gass fæðir einnig risasvarthol sem lúra í miðju nánast sérhverrar vetrarbrautar.

Nokkrir stjarnvísindamenn álíta að myndun mið bjálkans standi í samhengi við vöxt þyrilvetrarbrauta af skeiði mikillar stjörnumyndunar á fullorðinsárunum, enda virðast bjálkar tíðari í vetrarbrautum sem fullar eru af gömlum rauðum stjörnum, frekar en bláum ungum stjörnum. Þessi söguframvinda styður athuganir á hinum unga alheimi þar sem um fimmtungur þyrilvetrarbrauta hefur bjálka, á meðan tveir þriðju þeirra sem sjást í alheiminum í dag gera það.

Þó mynd Hubbles af NGC 1073 sé í mörgu tilliti dæmigerð fyrir bjálkaþyrilþokur, eru örfá atriði sem stinga í augu og vert er að benda á.

Kaldhæðnislega er eitt atriðið — en þó ekki — nánast ósýnilegt sjónaukum á borð við Hubble sem sjá sýnilegt ljós. Ofarlega til vinstri á myndinni er grófgerð hringamyndun vegna nýyfirstaðinnar stjörnumyndunarhrinu sem felur bjarta röntgenuppsprettu. Sú nefnist IXO 5 og er röntgenlind vegna svarthols og stjörnu sem hverfast hvor um aðra. Við samanburð á athugunum röntgensjónaukans Chandra við þessa mynd Hubbles, hafa stjörnufræðingar hér um bil stungið út staðsetningu IXO 5. Hún er líklega við aðra af tveimur stjörnum sem sjást á myndinni. Þær athuganir sem gerðar hafa verið á röntgensviðinu með þessum mælitækjum eru ekki nógu nákvæmar til að ákvarða hvor stjarnan er lindin.

Mynd Hubbles sýnir ekki eingöngu vetrarbraut í nágrenni okkar. Við sjáum líka glefsur af enn fjarlægari fyrirbærum frá eldri skeiðum í alheimssögunni.

Ofarlega til vinstri á myndinni gægjast nokkrar rauðleitar og fjarlægar vetrarbrautir greinilega gegnum NGC 1073.

Enn áhugaverðarri eru þrír bjartir ljósblettir á myndinni sem hvorki eru forgrunnsstjörnur úr okkar eigin vetrarbraut né fjarlægar stjörnur í NGC 1073. Í raun eru þetta ekki stjörnur. Þetta eru dulstirni, sérlega bjartar ljóslindir sem myndast við mikla hitun efnis sem fellur í gríðarstór svarthol í vetrarbrautum í milljarða ljósára fjarlægð. Þessi tilviljunakennda uppröðun við NGC 1073 og ótrúleg birta ljóss þeirra, gæti látið líta út fyrir sem svo að þær væru hluti af vetrarbrautinni en í raun eru þetta einhver fjarlægustu fyrirbæri sem sjást í hinum sýnilega alheimi.

Frekari upplýsingar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • NGC 1073, bjálkaþyrilþokaHubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af bjálkaþyrilþokunni NGC 1073 sem situr í stjörnumerki Hvalsins. Vetrarbrautin okkar er álíka bjálkaþyrilþoka og könnun vetrarbrauta á borð við NGC 1073 hjálpar stjörnufræðingum að skilja okkar eigin heimabyggð. Mynd: NASA & ESA
  • NGC 1073, bjálkaþyrilþoka, dulstirniHubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af bjálkaþyrilþokunni NGC 1073 í stjörnumerkinu Hvalnum. Fyrirbærin þrjú sem líkjast stjörnum, PKS 0241+011, QSO B0240+011 og [VV96] J024333.6+012222, eru ekki hluti af vetrarbrautinni og eru ekki einu sinni stjörnur heldur dulstirni, sérlega bjartar ljóslindir sem myndast við mikla hitun efnis sem fellur í gríðarstór svarthol í vetrarbrautum í milljarða ljósára fjarlægð. Frá okkar sjónarhóli líta þær út eins og stjörnur en eru í raun meðal björtustu fyrirbæra alheimsins. Annað fyrirbæri í sjónsviðinu er röntgenlindin IXO 5. Þetta er líkast til tvístirni stjörnu og svarthols. Mynd: NASA & ESA
  • NGC 1073, bjálkaþyrilþoka, dulstirniÞessi mynd er tekin með sjónauka á jörðu niðri og sýnir staðsetningu og umhverfi NGC 1073. Nokkrar aðrar vetrarbrautir eru líka sýnilegar hér, greinilegastar eru NGC 1055, sem sést á rönd, og Messier 77, sem sést beint framan á, neðarlega á myndinni. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2 (Þakkir: Davide De Martin)