Tunglið og björtustu reikistjörnurnar með sjónarspil á himni

Allir út að kíkja!

Sævar Helgi Bragason 23. feb. 2012 Fréttir

Við sólsetur 25. og 26. febrúar mynda Júpíter, Venus og vaxandi en mjósleginn Máni glæsilegan himneskan þríhyrning á dimmbláum himninum yfir kvöldroða sólar.

  • Venus, tunglið

Áhugafólk um náttúruskoðun er hvatt til að líta til himins næstu kvöld því björtustu reikistjörnur sólkerfisins og tunglið raða sér upp á kvöldhimninum með tilheyrandi sjónarspili. Við sólsetur 25. og 26. febrúar mynda Júpíter, Venus og vaxandi en mjósleginn Máni glæsilegan himneskan þríhyrning á dimmbláum himninum yfir kvöldroða sólar.

Undanfarnar vikur hafa björtustu reikistjörnur sólkerfisins raðað sér upp á kvöldhimninum en á næstu dögum verður sjónarspilið enn glæsilegra. Við sólsetur laugardagskvöldið 25. febrúar skína Júpíter og Venus skært í vesturátt á dimmbláum himni. Mjóslegið, vaxandi tungl hefur bæst í hópinn og er örskammt fyrir ofan Venus. Kvöldið eftir gerist þetta aftur, nema nú er tunglið komið hærra á loft á leið sinni í kringum jörðina og verður skammt frá Júpíter.

Ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af götulýsingu til að fylgjast með því þetta eru björtustu fyrirbæri næturhiminsins. Gott veður og augu er allt sem þarf.

Þegar myrkrið hellist smám saman yfir eru líkur á að þú sjáir næturhlið tunglsins ágætlega vegna jarðskins. Jörðin lýsir nefnilega upp tunglið með sama hætti og fullt tungl lýsir upp nóttina á jörðinni þegar það endurvarpar sólarljósinu.

Á sama tíma í austri boðar Mars komu sína og Ljónsins upp á himininn. Hann er ekki næstum eins bjartur og Venus og Júpíter en appelsínugulur bjarmi hans fer vart framhjá nokkrum. Hringadróttinn Satúrnus kemur hins vegar ekki upp fyrr en eftir miðnætti. Um kvöldið er risinn Óríon áberandi og undir vinstri fæti hans blikkar Síríus, bjartasta stjarna himinsins, eins og diskókúla.

Ekki er þörf á sjónauka til að virða þetta fyrir sér en ef þú ert svo heppin(n) að eiga stjörnusjónauka eða handsjónauka er um að gera að beina honum til himins. Á Venusi sérðu að reikistjarnan er ekki að fullu upplýst, heldur sýnir hún kvartilaskipti eins og tunglið. Tunglið er alltaf stórglæsilegt að sjá með sjónauka, gígótt, fjalllent og stórskorið. Það er best að skoða þegar skuggaskilin —mörk dags og nætur — eru á skífunni líkt og næstu daga.

En sýningunni er ekki lokið eftir þetta. Hún heldur áfram í mars því Júpíter og Venus eru smám saman að færast nær hvor annarri. Kvöldin 12. og 13. mars skilja aðeins þrjár gráður tvíeykið í sundur. Þá gefst gullið tækifæri til að virða báða hnetti fyrir sér með handsjónauka. Er hægt að sjá Galíleótunglin og kvartilaskipti Venusar í sömu andrá?

Allir út að kíkja!

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélagsins og ritstjóri Stjörnufræðivefsins
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélagsins og ritstjóri Stjörnufræðivefsins
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1203.

Tengdar myndir

  • Venus, Júpíter, tungliðVenus og tunglið á kvöldhimninum yfir Íslandi 26. janúar 2012. Mynd: Ásdís Ómarsdóttir
  • Venus, Júpíter, tungliðJúpíter, Venus og tunglið mynda fallegan þríhyrning á himninum laugardagskvöldið 25. febrúar 2012. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium
  • Venus, Júpíter, tungliðSunnudagskvöldið 26. febrúar 2012 verður tunglið komið hærra á loft, rétt fyrir ofan Júpíter. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium
  • Venus, JúpíterDagana 12. og 13. mars 2012 skilja aðeins þrjár gráður Júpíter og Venus í sundur. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium