Vetrarbrautir í nánu sambandi

VST tekur mynd af árekstrum í ungri vetrarbrautaþyrpingu

Sævar Helgi Bragason 07. mar. 2012 Fréttir

VST sjónaukinn hefur tekið mynd af heillandi hópi gagnvirkra vetrarbrauta í Herkúlesarþyrpingunni.

  • herkúles, vetrarbrautaþyrping

VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile hefur tekið mynd af heillandi hópi gagnvirkra vetrarbrauta í Herkúlesarþyrpingunni. Á hnífskarpri myndinni sjást óvenju mikil smáatriði í mörg hundruð vetrarbrautum. Lýsingartíminn var aðeins þrjár klukkustundir en myndin sýnir glöggt hve vel í stakk búinn VST sjónaukinn og stóra myndavélin OmegaCAM eru til að kanna nágrenni okkar í alheiminum.

Herkúlesarþyrpingin (einnig þekkt sem Abell 2151) er í um 500 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í samnefndu stjörnumerki. Þessi þyrping er harla ólík öðrum nálægum vetrarbrautahópum á ýmsan hátt. Hún er óregluleg að lögun og inniheldur ýmsar gerðir vetrarbrauta, einkum ungar þyrilþokur sem mynda stjörnur en engar stórar sporvöluþokur eru sjáanlegar.

Þessi nýja ljósmynd var tekin með VST, nýjasta sjónaukanum í Paranal stjörnustöð ESO í Chile (eso1119). VST er kortlagningarsjónauki, útbúinn 268 megapixla myndavél sem nefnist OmegaCAM og tekur ljósmyndir af mjög stórum svæðum á himninum. Yfirleitt eru aðeins litlir sjónaukar færir um að festa á eina mynd víðfeðm fyrirbæri á himninum, eins og það sem prýðir þessa mynd, en VST sjónaukinn, sem er 2,6 metra breiður, hefur ekki aðeins vítt sjónsvið, heldur nýtur hann góðs af ósnortnum stjörnuhimni í Paranal sem tryggir að myndirnar eru hnífskarpar en um leið mjög djúpar.

Á myndinni koma fram pör vetrarbrauta sem eru um það bil að renna saman í stærri vetrarbrautir. Í Herkúlesarþyrpingunni er fjöldi gagnvirkra þyrilþoka sem innihalda mikið gas og unga út stjörnum, svo þær minna um margt á ungar og miklu fjarlægari vetrarbrautir[1]. Stjörnufræðingar telja þess vegna að Herkúlesarþyrpingin sé tiltölulega ung. Hún er síbreytilegur svermur vetrarbrauta sem mun dag einn þróast í eina af þeim dæmgerðu gömlu vetrarbrautaþyrpingum sem eru svo algengar í nágrenni okkar í alheiminum.

Vetrarbrautaþyrpingar verða til þegar litlir vetrarbrautahópar þyrpast saman fyrir tilverknað eigin þyngdartogs. Þegar hóparnir nálgast hver annan, þéttist þyrpingin og verður kúlulaga. Um leið og vetrarbrautirnar nálgast, byrja þær að víxlverka innbyrðis. Jafnvel þótt þyrilþokur séu í meirihluta í upprunalegu hópnum, bjaga árekstrar vetrarbrautanna að lokum þyrilarmana og ræna þær gasi og ryki svo myndun nýrra stjarna stöðvast að mestu. Þess vegna eru sporvöluþokur eða óreglulegar vetrarbrautir algengastar í gömlum, þroskuðum þyrpingum. Í miðju þyrpinganna hreiðra venjulega ein til tvær stórar sporvöluþokur um sig en þær verða til samruna smærri vetrarbrauta og geyma mestmegnis gamlar stjörnur.

Herkúlesarþyrpingin er talin safn að minnsta kosti þriggja lítilla þyrpinga og hópa vetrarbrauta sem eru að raðast saman í stærri einingu. Sjálf þyrpingin rennur nú líka saman við aðrar stórar þyrpingar sem mynda ofurþyrpingu vetrarbrauta. Slík risasöfn eru með stærstu einingum alheimsins. Vítt sjónsvið og framúrskarandi myndgæði OmegaCAM á VST sjónaukanum gera hana kjörna til að rannsaka torskilda útjaðra vetrarbrautaþyrpinga þar sem víxlverkun milli þyrpinga á sér stað.

Á þessari fallegu mynd eru ekki aðeins vetrarbrautir í Herkúlesarþyrpingunni heldur líka fjölmörg dauf og þokukennd fyrirbæri í bakgrunni sem eru enn fjarlægari vetrarbrautir. Í forgrunni, nær okkur í geimnum, eru fáeinar bjartar stjörnur í vetrarbrautinni okkar en einnig örfá smástirni sem skildu eftir sig stuttar slóðir þegar þær ferðuðust yfir sviðið á meðan myndin var tekin.

Skýringar

[1] Við sjáum mjög fjarlæg fyrirbæri í alheiminum eins og þau litu út á ungri árum því ljósið frá þeim er nokkra milljarða ára að berast til okkar.

Frekari upplýsingar

VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu og ESO. Hönnun og smíði sjónaukans var í höndum INAF, með þátttöku ítalskra fyrirtækja en ESO lagði til húsið undir hann og og sá um verkfræðilega stjórnun á byggingarsvæðinu. OmegaCAM, myndavél VST, var hönnuð og smíðuð í samvinnu hollenskra, þýskra og ítalskra stofnana sem nutu þó mikillar aðstoðar ESO. ESO sér um viðhald og rekstur sjónaukans en líka gagnasöfnun og -dreifingu frá sjónaukanum.

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavik, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1211.

Tengdar myndir

  • VST, Herkúlesarþyrpingin, vetrarbrautirÞessi mynd var tekin með VLT Survey Telescope (VST) og sýnir hún ýmsar gerðir gagnvirkra vetrarbrauta í ungri vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við stjörnumerkið Herkúles. Á hnífskarpri myndinni — sem er ein fergráða að stærð — sjást óvenju mikil smáatriði í mörg hundruð vetrarbrautum. Lýsingartíminn var aðeins þrjár klukkustundir en myndin sýnir glöggt hve vel í stakk búinn VST sjónaukinn og stóra myndavélin OmegaCAM eru til að kanna nágrenni okkar í alheiminum. Myndin hefur verið klippt til og sýnir því ekki heildarsjónsvið VLT. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
  • VST, Herkúlesarþyrpingin, vetrarbrautirÞessar glefsur úr nýrri mynd VLT Survey Telescope og OmegaCAM myndavélarinnar sýnir ýmsar gerðir gagnvirkra vetrarbrauta í Herkúlesarþyrpingunni. Í Herkúlesarþyrpingunni er fjöldi gagnvirkra þyrilþoka sem innihalda mikið gas og unga út stjörnum, svo þær minna um margt á ungar og miklu fjarlægari vetrarbrautir í alheiminum. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
  • VST, Herkúlesarþyrpingin, vetrarbrautirÞessi víðmynd, sem er í sýnilegu ljósi, sýnir svæðið í kringum Herkúlesarþyrpinguna. Hún var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum bláa og rauða síu í Digitized Sky Survey 2 verkefninu. Vetrarbrautaþyrpingin sést sem svermur daufra vetrarbrauta við miðja mynd. Mynd: ESO og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.

Krakkavæn útgáfa