Víðmynd Hubbles af ókyrru stjörnumyndunarsvæði

Sævar Helgi Bragason 17. apr. 2012 Fréttir

Í tilefni af 22 ára afmæli Hubble geimsjónauka NASA og ESA hefur ný og stórglæsileg mynd af Tarantúluþokunni verið birt

  • Taranatúluþokan, 30 Dorado

Nokkrar milljónir stjarna keppast um athyglina á nýrri mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Hún sýnir stjörnumyndunarsvæðið 30 í Sverðfisknum (30 Dorado) í hjarta Tarantúluþokunnar.

30 Dorado er bjartasta stjörnumyndunarsvæðið í næsta nágrenni vetrarbrautarinnar og geymir þyngstu stjörnur sem fundist hafa. Geimþokan er í 170.000 ljósára fjarlægð í Stóra Magellansskýinu, lítilli dvergvetrarbraut sem hnitar umhverfis okkar eigin vetrarbraut. Engin önnur þekkt stjörnumyndunarsvæði í vetrarbrautinni okkar eru jafnstór eða álíka afkastamikil og 30 Dorado.

Myndin státar af einni stæstu mósaíkmynd sem nokkurn tímann hefur verið gerð úr myndum Hubblessjónaukans. Myndirnar voru teknar með Wide Field Camera 3 og Advanced Camera for Surveys og með 2,2 metra MPG/ESO sjónauka Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli (ESO) sem sýna glóandi vetni og súrefni, eitt auðkenni stjörnumyndunarsvæða.

Myndin er gerð í tilefni af 22 ára afmæli Hubblessjónaukans.

Stjörnurnar á myndinni vega samanlagt nokkrar milljónir sólmassa. Myndin spannar um 650 ljósár og á henni eru hamslausar stjörnur, allt frá þeirri sem snýst einna hraðast allra til þeirrar þyngstu.

Geimþokan er nógu nálægt jörðu svo Hubble geti greint sundur einstakar stjörnur. Það veitir stjörnufræðingum mikilvægar upplýsingar um myndun stjarnanna og þróun þeirra. Í fjölmörgum minni vetrarbrautum eru stjörnumyndunarhrinurnar tilkomumeiri, en 30 Dorado í Stóra Magellansskýinu er eitt fárra stjörnumyndunarsvæða sem rannsaka má í smáatriðum. Nágrannavetrarbrautin Litla Magellansskýið knýr sumpart stjörnumyndunarbrjálæðið í 30 Dorado.

Myndin sýnir stjörnur á öllum stigum ævi sinnar, allt frá nokkur þúsund ára gömlum stjörnufóstrum, sem enn eru umlukin dimmum gas og rykskýjum, til risastjarna sem deyja ungar sem sprengistjörnur. 30 Dorado er stjörnuverksmiðja sem hefur spýtt út stjörnum af miklum krafti í milljónir ára. Á mynd Hubbles eru stjörnuþyrpingar á öllum aldri, frá um 2 milljón ára gömlum þyrpingum uppí 25 milljón ára gamlar þyrpingar.

Skrautfjöður svæðisins er risavaxin, ung stjörnuþyrping, NGC 2070. Sú er aðeins 2–3 milljón ára gömul en geymir um 500.000 stjörnur. Þyrpingin er vermireitur ungra massamikilla stjarna. Þéttur kjarninn, RMC 136 er þéttskipaður stærstu stjörnum alheimsins, sem margar vega meira en 100 sinnum meira en sólin okkar.

Þessar massamiklu stjörnur grafa djúp hol í efnið í kring með útfjólubláu ljósi, sem ætir í burt vetnisskýið, fæðingarhjúp stjarnanna. Úr verður ævintýralegt landslag, stólpa, hryggja og dala. Þessar björtu sólir móta ekki aðeins gasið í nágrenni sínu heldur koma þær af stað myndun nýrra stjarna.

Þegar geislunin skellur á gasveggjunum, myndar það höggbylgjur og ef til vill nýja hrinu stjörnumyndunar.

Litirnir berast frá glóandi heitu gasi sem er ráðandi á ákveðnum stöðum á myndinni. Rauður litur sýnir vetnisgas en blár súrefni.

Myndinni er skeytt saman úr 30 ljósmyndum, 15 frá hvorri myndavél, sem tóku þær samtímis. Athuganirnar voru gerðar í október 2011.

Skýringar

Hubblessjónanukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA, D. Lennon og E. Sabbi (ESA/STScI), J. Anderson, S.E. de Mink, R. van der Marel, T. Sohn, og N. Walborn (STScI), L. Bedin (INAF, Padua), C. Evans (STFC), H. Sana (Amsterdam), N. Langer (Bonn), P. Crowther (Sheffield), A. Herrero (IAC, Tenerife), N. Bastian (USM, Munich), og E. Bressert (ESO)

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663-6867
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1206

Tengdar myndir

  • 30 Dorado, Tarantúluþokan30 Dorado er bjartasta stjörnumyndunarsvæðið í næsta nágrenni vetrarbrautarinnar og geymir þyngstu stjörnur sem fundist hafa. Geimþokan er í 170.000 ljósára fjarlægð í Stóra Magellansskýinu, lítilli dvergvetrarbraut sem hnitar umhverfis okkar eigin vetrarbraut. Engin önnur þekkt stjörnumyndunarsvæði í vetrarbrautinni okkar eru jafnstór eða álíka afkastamikil og 30 Dorado. Hér sést ein stærsta mósaíkmynd sem nokkurn tímann hefur verið gerð úr myndum Hubblessjónaukans en var gerð í tilefni af 22 ára afmæli sjónaukans.
  • 30 Dorado, TarantúluþokanNærmyndir af mismunandi svæðum í Tarantúluþokunni. Efst til vinstri sést lausþyrpingin NGC 2070 sem er aðeins 2 milljóna ára gömul og inniheldur um 500.000 stjörnur. Í kjarna hennar eru nokkrar þyngstu stjörnur sem fundist hafa í nágrenni okkar í geimnum. Neðst til vinstri sést lausþyrpingin NGC 2060 sem mun leysast upp að nokkrum ármillljónum liðnum. Í henni sprakk stjarna fyrir 10.000 árum sem blæs burtu gasinu í kring. Efst til hægri sést þyrpingin Hodge 301 sem er 20-25 milljón ára en neðst til hægri er svæði í þokunni þar sem nýmyndun stjarna á sér stað.
  • 30 Dorado, TarantúluþokanÞetta kort sýnir nokkur áberandi kennileiti á myndinni af Tarantúluþokunni. Nokkrar áberandi stjörnur hafa verið merktar inn á með númerum sínum úr Henry Draper skránni. Sjá má stjörnunnar 30 Dor #16 sem er flóttastjarna úr þyrpingunni og VFTS #102 sem hefur mestan snúningshraða allra þekktra stjarna. Í bakgrunni glittir í örfáar órafjarlægar vetrarbrautir.